Ragnar Aalbu

Ragnar Aalbu
Photographer
Geir Dokken
Ragnar Aalbu: Georg er borte. Myndabók, Ena/Vigmostad & Bjørke, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

 

Lítill drengur saknar kattarins síns, hans Georgs. Georg hefur ekki komið heim dögum saman. Strákurinn og pabbi hans fara út að leita. Þeir leita og leita, en Georg finnst hvergi. Ætli hann hafi orðið fyrir bíl? Ætli hann sé … dáinn? Hvað gerist þegar einhver deyr?

 

Georg er borte („Georg er farinn“, hefur ekki komið út á íslensku) er myndabók um það að tengjast annarri lífveru, byrja að elska hana og missa hana síðan og syrgja. En hún fjallar líka um sáttina við það að dauðinn vitjar okkar allra einhvern tíma. Strákurinn er sögumaður frásagnarinnar. Rödd hans er full af barnslegri furðu yfir smáum sem stórum spurningum lífsins. Pabbi hans tekur spurningar sonar síns alvarlega.

 

Myndirnar í bókinni einkennast af rúmfræðilegum formum í lágstemmdri, náttúrulegri litapallettu. Þær eru kornóttar og geta minnt á gamlar, óskýrar ljósmyndir. Nokkuð sem getur táknað hið hverfula en jafnframt stöðuga eðli tilverunnar.

   

Skarpir drættir skapa greinilegar útlínur tiltekinna hluta, bæði mannfólks og náttúrufyrirbrigða. Þar sem skýrar línur skortir renna litirnir saman á hátt sem gerir skilin á milli ólíkra fyrirbæra að engu. Þetta gerir að verkum að tiltekin stef verða áberandi, fá sinn eigin neista og persónuleika, á meðan aðrir þættir myndarinnar verða óljósari og leyndardómsfyllri í bakgrunni. Þetta endurspeglar hvernig við mannfólkið skynjum lífið gegnum skilningarvitin. Sumt sjáum við með beinum hætti, öðru lítum við framhjá eða sjáum í gegnum það. Þannig öðlast ólíkir hlutir ólíka merkingu fyrir okkur.

  

Hlutföllin í myndunum fara stækkandi og minnkandi frá einni mynd til annarrar og þannig er gefið til kynna hvar áherslan liggur hverju sinni, bæði í ytri byggingu söguþráðarins og innri upplifun drengsins á atburðunum.

 

Það er eitthvað loftkennt við bæði textann og myndirnar. Mínímalískur tjáningarmátinn gefur lesandanum tækifæri til að fylla út í söguna sjálfur með hlutum, minningum og hlutum úr eigin innri heimi.

 

Georg er borte er stílhrein og beitt perla, gædd gleðiblandinni angurværð. Sögurþráðurinn er tímalaus. Myndskreytingarnar eru lágstemmdar og stefin umfaðma bæði einfalda hversdagskímni og hinar flóknu tilvistar- og sálfræðilegu hliðar þess að vera manneskja. Sögulokin gefa líka nýja von.

Að láta sér annt um einhvern getur verið dýru verði keypt. En það er þess virði.

 

RAGNAR AALBU  (f. 1966) er norskur myndabókahöfundur og myndskreytir sem hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar. Hann var tilnefndur til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 fyrir myndabókina Krokodille i treet og hefur þrisvar hlotið barna- og unglingabókaverðlaun norska menningarmálaráðuneytisins. Norska landsbókasafnið hefur keypt myndskreytingar eftir hann í myndskreytingasafn sitt og hans er getið í bókinni Play Pen: New Children’s Book Illustration eftir Martin Salisbury og í Little Big Books – Illustrations for Children’s Picture Books, sem kom út hjá forlaginu Gestalten árið 2012.