Riina Katajavuori og Martin Baltscheit

Riina Katajavuori, Martin Baltscheit
Photographer
Veikko Somerpuro (Riina Katajavuori), susannewerding.com (Martin Baltscheit)
Riina Katajavuori og Martin Baltscheit (myndskr.): Oravien sota. Myndabók, Tammi, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Tveir íkornabræður búa í næsta nágrenni hvor við annan. Eldri bróðirinn býr í tré þar sem vex mikið af könglum. Í tré yngri bróðurins er minna af könglum, og þegar harður vetur hefur innreið sína verður hann uppiskroppa með fæðu. Mikið rifrildi brýst út á milli bræðranna, sem þróast í stríð milli allra íkornanna í skóginum. Annar bróðirinn er klæddur rauðum fötum, hinn hvítum. Þessi frásögn, sem skrifuð er í stíl hefðbundinnar dæmisögu með dýrum í aðalhlutverki, lýsir borgarastríðinu sem geisaði í Finnlandi árið 1918. 

 

Sagan segir frá því hvernig samskipti bræðranna verða fjandsamleg. Brúin á milli heimila þeirra er eyðilögð og klifurstaurarnir eru felldir. Eldri bróðirinn fær Úlf sér til hjálpar, en yngri bróðirinn fær Björn. Fjöldi dýra týnir lífi í átökunum. Þegar stríðinu lýkur hrósar annar bræðranna sigri, en ekkert dýranna hefur farið varhluta af þjáningunum.   

 

Textinn er hnitmiðaður og lágstemmdur, myndirnar í sterkum litum, lifandi og fullar af táknrænu. Textinn skilur nóg eftir fyrir ímyndunaraflið og túlkun lesandans: það þarf ekki mikið af orðum þegar þau eru vel ígrunduð. Myndabókarformið nýtur sín hér til hins ýtrasta þar sem myndskreytingar og texti bæta hvort annað listilega upp: þegar myndirnar sýna dýr ráðast gegn óvinaliðinu með rifflum lýsir textinn því á hjartnæman hátt hvernig „glumdi og drundi með slíkum hvellum að broddgeltirnir kreistu aftur augun og smáfuglarnir misstu heyrnina.“ Sagan er ýmist borin uppi af myndum eða orðum – og stundum þannig að þessir tveir tjáningarmátar renna hnökralaust saman í eitt. Saman móta orðin og myndirnar heildstætt listaverk sem vanmetur ekki barnið – fegrar ekki, heldur ekki aftur af sér – en skilur lesandann heldur aldrei eftir einan. Þessi myndabók tekur í hönd barnsins og leiðir það gegnum hrylling stríðsins, í átt að von og gagnkvæmum skilningi.

 

Frásögnin er marglaga og lýkst upp fyrir lesandanum í samræmi við skilning hans og aldur. Barnið getur lesið bókina sem spennandi ævintýri, dýrasögu eða frásögn af ágreiningi og lausn. Fullorðinn lesandi sem þekkir sögu finnska borgarastríðsins sér hina raunverulegu atburði að baki frásögninni og ber kennsl á stórveldin sem komu til aðstoðar rauðliðunum annars vegar og hvítliðunum hins vegar. Bókina má lesa sem endursögn á borgarastríðinu, en einnig sem lýsingu á hvaða ágreiningi sem er. Hún segir frá því hvernig hatur og ofbeldi kvikna, og hvernig hægt er að ná stjórn á þeim.

 

Bókin tekst af hugrekki á við finnska borgarastríðið, erfitt viðfangsefni sem lítið hefur farið fyrir í finnskum barnabókmenntum. Oravien sota („Íkornastríðið“, hefur ekki komið út á íslensku) er fyrirmyndardæmi um það hvers góðar barnabækur eru megnugar. Bókin færir sársaukafullt viðfangsefni nær lesandanum og nýtir aðferðir myndrænna bókmennta til að fjalla um efni sem erfitt er að tjá með orðum og sem texti og myndir ná tæpast utan um sitt í hvoru lagi.

 

Riina Katajavuori (f. 1968) er rithöfundur og ljóðskáld frá Helsinki. Hún hefur skrifað fjölmargar ljóðabækur, skáldsögur og barnabækur. Verk Katajavuori hafa verið þýdd á yfir 20 tungumál. Martin Glaz Serup (f. Martin Baltscheit (1965) er þýskur verðlaunamyndskreytir og barnabókahöfundur sem einnig er þekktur fyrir störf sín sem leikari, leikstjóri og lesari hljóðbóka.