Sissal Kampmann

Sissal Kampmann
Photographer
Ditte Mathilda Joensen
Sunnudagsland. Ljóðabók, Mentunargrunnur Studentafelagsins, 2016..

Sögusvið ljóðabókarinnar Sunnudagsland er bærinn Vestmanna í Færeyjum, þar sem skáldið Sissal Kampmann (f. 1974) ólst upp. Eftir að hafa varið lunganum af 24 árum í Kaupmannahöfn og Þórshöfn snýr hún aftur til átthaganna um tíma. Dvölin þar myndar umgjörð um bókina – titill hennar vísar til drepleiðinlegra sunnudaga á afskekktum stað, en Sunnudagsland lýsir einnig hinni sérstöku blöndu einsemdar, leiða og tilvistarkreppu sem ljóðmælandi upplifir.

Sunnudagsland er raunsæ og angurvær bók, mörkuð af þrá og þeirri tilfinningu að vera utangarðs og fást þar við fánýtar lýsingar á hægri en óumflýjanlegri hrörnun. Líkt og viðfangsefnið væri fyrirbærafræði rotnunar fjalla mörg ljóðanna um vanrækslu og stöðnun í þorpinu, ásamt minningabrotum úr lífi sem eitt sinn var. Lýsingarnar einkennast af skýrri tilfinningu fyrir framandleika, jafnvel gagnvart hinu þekkta. Ljóðmælandi skrásetur tíma, landslag og veðurfar samviskusamlega og hefur orð á því í þurrum og sjálfhæðnum tón að hún sé orðin kona af því taginu sem horfi til veðurs oft á dag.

Ljós er merkingarþrungið í bókinni, þar sem vetrarsólstöður – stysti dagur ársins – eru miðlægur atburður. Sunnudagur þýðir enda sólardagur. En þó kaldhæðnislegt sé fá persónur bókarinnar að bíða eftir sólinni, sem kemur á óvissum tíma til Sunnudagslandsins þar sem stormar og myrkur ráða ríkjum, klukkan hringir hljóðlaust og vegurinn niður til þorpsins er laus við sólarljós, tunglskin og stjörnubirtu.

Veður leikur stórt hlutverk, vel að merkja leiðindaveður með snjókomu, slyddu, regni, stormviðri og myrkri sem sviptir ljóðmælanda áttum og tímaskyni og dynur á húsum og húsþökum. Hin gegnsýrandi upplausn með raka og rotnun, sliti og spanskgrænu, sem stöðug áhersla er lögð á í hinum áþreifanlega heimi, verður að eins konar bergmálsklefa fyrir skynjun ljóðmælanda á heiminum.

Lesanda rennir grun í samfélagið fyrir utan, en þó að bæði sé talað um „okkur“ og „þig“ verður engra annarra persóna vart en ljóðmælanda bókarinnar, sem virðist staddur í lofttæmdu, þröngu og lokuðu rými. Í bókinni eru 54 ljóðrænir textar sem spanna atburðarás frá því snemma vors fram á fyrsta daginn á nýju ári, þegar ljóðmælandi yfirgefur Sunnudagslandið á ný. Bókin er haganlega byggð í samhangandi stroku upp á við; allt frá upphafssenunni þar sem tankbíll erfiðar upp brekku og að bókarlokum, þar sem flugvél tekst á loft með ljóðmælanda innanborðs og hlutirnir eru aftur undir stjórn með flugmanni sem stýrir eftir áttavita.

Sunnudagsland er fimmta ljóðabók Sissal Kampmann. Frumraun hennar var ljóðabókin Ravnar á ljóðleysum flogi – yrkingar úr uppgongdini, sem kom út árið 2011 og hlaut Klaus Rifbjerg-verðlaunin, sem veitt eru fyrir fyrsta verk höfundar. Síðan hefur Kampmann gefið út fjórar ljóðabækur sem hafa fest hana í sessi sem eina af hinum nýju, kraftmiklu röddum í færeyskri ljóðlist.