Maria Turtschaninoff

Maria Turtschaninoff
Photographer
Maria Turtschaninoff
Maria Turtschaninoff: Breven från Maresi. Skáldsaga, Förlaget, 2018.

Með Breven från Maresi lýkur Maria Turtschaninoff þríleiknum Krönikor från Röda Klostret um hina þekkingarþyrstu Maresi og má segja að henni takist hér enn og aftur að endurnýja furðusagnaformið. Í fyrsta hluta þríleiksins, hinni stílhreinu fyrstu persónu frásögn Maresi, kynntumst við aðskilnaðarsinnuðu kvennasamfélagi í klaustri á eynni Menos, sem er fríríki fyrir stúlkur. Í hinni kraftmiklu og margslungnu Naondel heyrðum við söguna af tilurð klaustursins og hvernig ólíkar raddir kvenna vitnuðu um ofbeldi og kúgun og flúðu loks til að stofna klausturreglu. Nú lætur Turtschaninoff reyna á undirstöður bókaflokksins. Í Breven från Maresi snýr Maresi nefnilega aftur til fátæka og menntunarsnauða þorpssamfélagsins sem hún eitt sinn flúði. Hún kemur aftur í ríkið Rovas og hyggst miðla þekkingu sinni með því að stofna stúlknaskóla. Það reynist snúnara en hún bjóst við að nýta þekkingu sína til að bæta lífskjör annarra og Maresi neyðist til að tileinka sér annars konar þekkingu; þekkingu sem ekki fæst úr bókum. Að mörgu leyti er þetta frásögn stúlku sem hefur ferðast milli stétta. Í rauðu slánni sinni og með óstýrilátan vilja sker Maresi sig úr fjöldanum í heimabæ sínum. Höfundur lýsir því með marglaga hætti hvernig frelsun á sér stað. Í þessum bókaflokki hefur Turtschaninoff rannsakað mátt frásagnarinnar og í þriðju og síðustu bókinni er röðin komin að bréfaskáldsögunni. Í bókmenntagrein sem hefur einkennst af straumlínulöguðum og kæruleysislegum lýsingum leggur Turtschaninoff fram afbragðsgóða skáldsögu sem sprettur óþvingað fram úr hreinni frásagnargleði, þar sem smáatriðaríkar lýsingar söguheimsins eru trúverðugar og viðfangsefnin brýn.

Í bókinni uppgötvar Maresi eigin kynverund og aðdráttarafl karlmanna og leikur aðahlutverkið í atburðarás þar sem hún er eins og blanda af Rauðhettu, Jóhönnu af Örk og Harry Potter og stendur keik í lokaorrustunni. Boðskapurinn er að femínisminn þurfi að hrífa allt samfélagið með sér til að knýja fram raunverulegar breytingar. Á Maresi að beygja sig undir hefðina og helga sig hefðbundnu fjölskyldulífi? Söguþráður Breven från Maresi er virkilega spennandi og ófyrirsjáanlegur. Þetta er tímalaus frásögn af valdi og kúgun, sögð af metnaði, þokka og stílsnilld og stendur sjálfstætt sem heildstæð lestrarupplifun, þrátt fyrir að vera lokahluti í nýstárlegum þríleik.

Maria Turtschaninoff er einn fremsti furðusagnahöfundur Norðurlanda og hefur lagt sitt af mörkum til að endurnýja formið. Bækurnar hafa notið alþjóðlegrar velgengni sem líkja má við Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood og Earthsea-þríleikinn eftir Ursulu Le Guin. Breven till Maresi var einnig tilnefnd til Topelius-verðlaunanna 2019 sem besta ungmennabókin. Fyrir fyrsta hluta þríleiksins, Maresi, hlautTurtschaninoff Finlandia Junior-verðlaunin auk bókmenntaverðlauna finnska ríkisútvarpsins 2014. Þá hlaut hún menningarverðlaun Sænska menningarsjóðsins í Finnlandi og hefur einnig verið verðlaunuð af Sænska bókmenntafélaginu í Finnlandi.