228. Guðlaugur Þór Þórðarson (Replik)

Information

Type
Replik
Talenummer
228
Talerrolle
Islands udenrigsminister
Dato

Forseti. Ég lít nú svo á að flest af því sem hér hefur komið fram sé brýning. Hér var spurt hvort við viljum bera virðingu fyrir frumbyggjum og að sjálfsögðu viljum við gera það. Hér var Grænland nefnt og ég skal viðurkenna að þegar ég hugsa um Grænland kemur mér fyrst í hug hve stórstigar framfarir hafa orðið hjá þeirri stórhuga þjóð. Það er kannski vegna þess að ég er nýkominn frá Grænlandi og þegar maður upplifir það á eigin skinni getur maður ekkert annað en hrifist af því og að sjálfsögðu stöndum við á bak við þá. Það eru öll Norðurlöndin sem eiga stað í hjarta okkar Íslendinga en bæði Grænlendingar og Færeyingar standa okkur alveg sérstaklega nærri.

Þegar kemur að stöðunni í Sýrlandi finnst mér það skipta máli að við höfum haft algjöra samstöðu og höfum sömuleiðis unnið saman að því að fordæma Tyrki fyrir þessa aðgerð sína. En við þurfum að horfast í augu við það að ef við gætum leyst þetta mál þá myndum við auðvitað gera það og værum löngu búin að því. Málið er bara ekki alveg svo einfalt. En ég held að það sé styrkur fyrir okkur að stilla saman strengi í því, sem við höfum gert.

Hans benti á nýja stöðu í alþjóðamálum sem við verðum auðvitað að horfast í augu við. Sum eru í NATO, eins og við höfum nefnt, og sum ekki og sömuleiðis erum við ekki öll í sömu evrópsku samtökunum en þrátt fyrir það er þetta mál sem við þurfum að vinna saman í og horfa á eins og það er, bæði það sem snýr að hernaðarlegri ógn og nýjum ógnum sem við höfum ekki séð áður.

Aðeins út af Bandaríkjunum sem komið var inn á hér. Ég held að umræðan hér sýni það að við þurfum auðvitað að rækta þau tengsl líka, það gerist ekki af sjálfu sér og þar erum við að vinna saman á mörgum sviðum, stilla saman strengi og tala einni röddu. Ég held að það eigi líka við um þau lönd önnur sem eru í grunninn með okkar sömu gildi þó að stefnan sé ekki alltaf að okkar skapi.

Síðan er bara ánægjulegt að heyra viðbrögðin varðandi skýrsluna. Það er komið nafn á hana, sá ég í  íslenskum fjölmiðlum: Stoltenberg 2009 og Björn 2020. Það er ekki slæmt nafn.