Bifreiðar í Noregi

Bil i Norge
Hér er að finna upplýsingar um innflutning á bifreiðum og öðrum ökutækjum og reglur um notkun þeirra í Noregi.

Meginreglan er sú að bílar og önnur ökutæki þurfa að vera skráð í því landi sem eigandinn býr í. Meginreglan er sú að fólk með fasta búsetu í Noregi má ekki nota ökutæki með erlendu skráningarnúmeri í Noregi. Örfáar undantekningar eru frá þessu.

  Notkun bíls við tímabundna dvöl í Noregi

  Einstaklingum með fasta búsetu erlendis eða sem dveljast tímabundið í Noregi er heimilt að nota ökutæki á borð við bíla með erlendu skráningarnúmeri í Noregi. Þetta á einkum við um einstaklinga sem

  • sækja vinnu til Noregs frá öðru landi;
  • vinna erlendis;
  • búa með maka eða barni undir átján ára aldri erlendis eða
  • eru ferðamenn í Noregi.

  Ef þú dvelst tímabundið í Noregi er þér heimilt að nota ökutæki með erlendu skráningarnúmeri í allt að tvö ár.

  Dvöl allt að einu ári

  Ef þú ætlar að dvelja í Noregi í allt að eitt ár er þér heimilt að nota ökutæki með erlendu skráningarnúmeri án þess að sækja um akstursleyfi. Þú þarft alltaf að geta sýnt fram á að dvölin verði ekki lengri en eitt ár frá komudegi. Með komudegi er átt við þegar þú komst til Noregs en ekki daginn sem bíllinn barst til landsins. Vottun þess að þú dveljist tímabundið í Noregi getur verið

  • ráðningarsamningur;
  • staðfesting á námsvist;
  • vottun maka/fjölskyldunnar á lengd dvalarinnar;
  • skjöl sem sýna að þú eigir að snúa aftur til starfa erlendis;
  • vottun þess að þú leigir út heimili þitt.

  Dvöl allt að tveimur árum

  Ef þú ætlar að dvelja í Noregi í allt að tvö ár þarftu að sækja um tímabundið akstursleyfi fyrir seinna árið. Þú þarft að sýna fram á að dvölin verði ekki lengri en tvö ár frá komudegi.

  Mundu að þú þarft að sækja um tímabundið akstursleyfi innan eins árs frá komudegi. Eigi dvöl þín að teljast tímabundin máttu ekki hafa dvalið eða verið með lögheimili í Noregi lengur en í 365 daga á síðustu tveimur árum fyrir komudag.

  Flutt til Noregs með bíl

  Þú getur sótt um tímabundið akstursleyfi fyrir ökutæki með erlendu skráningarnúmeri í allt að fjórtán daga vegna flutninga til eða frá Noregi. Þú þarft að votta flutningana með flutningsvottorði, ráðningarsamningi eða öðrum viðeigandi gögnum.

  Þegar flutt er til Noregs með bíl eða annað ökutæki sem er skráð erlendis þarf að flytja inn ökutækið og borga tolla og gjöld. Engu máli skiptir hvert ríkisfang þitt er og hvaðan þú flytur. Skattyfirvöld veita leiðbeiningar um innflutning ökutækis til Noregs.

   Trygging bíla og annarra ökutækja í Noregi

   Ábyrgðartrygging ökutækis (ansvarsforsikring) er skyldubundin í Noregi. Hún bætir tjón sem ökutækið kann að valda á fólki og hlutum. Auk þess getur eigandi bifreiðar bætt við ýmsum valkvæðum tryggingum. Á vefgátt norska neytendaráðsins geturðu kannað hvaða tryggingar eiga best við þig og hvernig þú færð bestu kjörin.

   Vetrardekk og sumardekk í Noregi

   Í Noregi bera bílstjórar ábyrgð á því að meta hvort bifreið þeirra hefur nægilegt veggrip. Í hálku veita vetrardekk best veggrip, með eða án nagla eða keðju. Ákveðnar reglur gilda um notkun nagladekkja. Bannað er að nota nagladekk frá og með fyrsta mánudegi eftir annan í páskum til og með 31. október. Í fylkjunum Nordland, Troms og Finnmark gilda reglurnar frá 1. maí til 15. október.

   Í Ósló og Björgvin er lagt nagladekkjagjald á ökutæki með nagladekkjum. Ef færðin gefur tilefni til ber einnig að nota nagladekk og keðjur utan vetrartíma. Athugið að sumir vegir í Noregi eru lokaðir að vetrarlagi.

   Hraðatakmarkanir í Noregi

   Hámarkshraði í þéttbýli í Noregi er að jafnaði 50 km/klst. en 80 km/klst. utan þéttbýlis. Ef aðrar hraðareglur gilda er þess getið á umferðarspjöldum og -skiltum.

   Bílar sem eru skráðir á Svalbarða

   Ef þú átt lögheimili á Svalbarða og ætlar í frí til Noregs getur sótt um leyfi til að nota ökutækið þar. Þú getur fengið akstursleyfi í allt að þrjá mánuði á hverju almanaksári. Áður en þú ferð með ökutækið til Noregs þarftu að sækja um tímabundið akstursleyfi fyrir ökutæki sem er skráð á Svalbarða.

   Þú þarft að greiða árgjald vegna ökutækisins. Hafðu hugfast að ef þú flytur frá Svalbarða til norska meginlandsins þarftu að greiða tolla og gjöld af ökutækinu.

   Notkun bíla og annarra ökutækja með norsku skráningarnúmeri annars staðar á Norðurlöndum

   Ekki þarf að skrá ökutæki með norsku skráningarnúmeri ef um er að ræða stutta dvöl annars staðar á Norðurlöndum. Þetta á við í aðstæðum þegar þú munt flytja til landsins og hafa ökutækið með. Þetta á ekki við ef þú ætlar að skilja ökutækið eftir í öðru norrænu landi. Þá þarf að umskrá ökutækið.

   Það fer eftir löndum hve lengi er heimilt að nota ökutækið án þess að skrá það í viðkomandi landi. Þú getur notað ökutæki með norsku skráningarnúmeri í allt að tólf mánuði í Svíþjóð, allt að sex mánuði í Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og á Íslandi en allt að þrjá mánuði á Grænlandi. Ef dvölin og notkun ökutækisins reynist lengri en gefið var upp þarf að skrá ökutækið þar í landi. Stundum þarf sérstakt akstursleyfi fyrir ökutæki með erlendu skráningarnúmeri. Því borgar sig að kynna sér reglurnar áður en lagt er af stað. Eftirfarandi yfirvöld sjá um skráningu ökutækja á Norðurlöndunum:

   Hafðu samband við yfirvöld
   Spurning til Info Norden

   Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

   ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

   Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
   Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna