Hjálpartæki fengin að láni í Noregi

Mann i rullestol og bil
Ljósmyndari
Eiríkur Bjørnsson / Norden.org
Hér eru gefnar upplýsingar um réttinn til að fá hjálpartæki að láni í Noregi. Þú gætir átt rétt að því ef þú ert með varanlega fötlun. Með „varanlegri“ fötlun er átt við að hún vari í meira en tíu ár. Ef þú þarft tímabundið á hjálpartæki að halda þarftu að hafa samband við sveitarfélagið sem þú býrð í eða kaupa það sjálf(ur).

Hvað er hjálpartæki?

Hjálpartæki er hlutur eða úrræði sem leysir vandamál í daglegu lífi fólks með fötlun. Hjálpartæki geta verið eitt af mörgum úrræðum sem auðvelda daglegt líf þeirra sem þurfa á aðstoð að halda.

Í Noregi eru 13 hjálpartækjamiðstöðvar sem reknar eru af vinnumála- og velferðarstofnuninni NAV (Arbeids- og velferdsetaten). Meginreglan er sú að þú getur fengið þau hjálpartæki lánuð sem þú þarft á að halda en í sumum tilfellum er hægt að fá styrk til að kaupa þau hjálpartæki sem þörf er á. Önnur hjálparæki þarft þú að kaupa sjálf(ur) og standa straum af kostnaði þeirra.

Hjálpartæki geta verið tæknileg hjálpartæki á borð við hjólastóla, sérhönnuð rúm eða lítil hjálpartæki fyrir eldhús og baðherbergi. Hjálpartæki geta einnig verið búnaður sem borinn er á líkamanum, svo sem stoðbúnaður fyrir fætur, gervibrjóst eða heyrnartæki.

Yfirlit yfir fjölmörg hjálpartæki er að finna í gagnagrunni hjálpartækja.

Hvaða kröfur þarf að uppfylla til að fá hjálpartæki og hvernig er sótt um?

Þú þarft að vera með varanlega fötlun sem nemur ákveðnu marki til að geta sótt um hjálpartæki. Þú getur sótt um hjálpartæki sjálf(ur) ef þú veist á hverju þú þarft á að halda en þú gætir viljað ráðfæra þig við heilbrigðisþjónustu sveitarfélags þíns til að fá hjálp við að greina þarfir þínar. Oftast er það iðjuþjálfi í sveitarfélaginu sem aðstoðar þig við umsóknarferlið.

Á mörgum vinnustöðum og í sumum menntastofnunum getur starfstengd heilsugæsluþjónusta aðstoðað þig við að sækja um viðeigandi hjálpartæki.

Umsóknarferli og kröfur um fylgiskjöl eru mismunandi eftir hjálpartækjum.

Get ég tekið hjálpartæki með mér til annars norræns lands?

Grunnreglan er sú að þú getur tekið hjálpartækin þín með í ferðalög og stutta dvöl í öðru EES-landi. Ef þú hyggst flytja til annars lands eða dvelja í öðru landi lengur en í 12 mánuði þarftu að sækja um hjá NAV um að halda hjálpartækjunum þegar þú flytur.

Hvað þarft þú að gera ef þú ert með hjálpartæki að láni í þínu landi og flytur til Noregs?

Ef þú hyggst flytja til Noregs frá öðru norrænu landi þar sem þú nýtur stuðnings með hjálpartækjum þarftu að kanna hvort þú megir taka hjálpartækin með þér. Hafðu samband við viðeigandi yfirvöld í þínu landi áður en þú flytur.

Hvar geturðu fengið svör við spurningum?

Hafðu samband við NAV eða heilbrigðisþjónustu sveitarfélagsins.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna