Leiðbeiningar: nám í Noregi

Studenter
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

 

 

Vilt þú stunda nám í Noregi? Hér eru gefnar upplýsingar um hvernig sótt er um nám á háskólastigi í Noregi, viðurkenningu menntunar frá öðrum löndum, rétt til námslána og námsstyrkja, námsmannahúsnæði, heilbrigðisþjónustu fyrir námsmenn og annað sem gott er að vita fyrir fólk sem hyggst stunda nám í Noregi. 

Getur þú stundað nám í Noregi?

Norðurlöndin hafa gert með sér samning um sömu eða sambærilegar aðgangskröfur að æðri menntun. Það þýðir að þú getur sótt um að stunda nám á háskólastigi í Noregi ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi sem gefur rétt til slíks náms í öðru norrænu landi og uppfyllir aðrar kröfur námsgreinarinnar sem þú hyggst stunda.

Hvernig færðu aðgang að háskólanámi í Noregi?

Almennt er sótt um nám á háskólastigi í Noregi hjá Samordna opptak. Þegar þú sækir um nám á háskólastigi í Noregi er gerður útreikningur á einkunnum þínum úr framhaldsskóla (skólastigum) og mögulegum aldursstigum og viðbótarstigum þínum.

Skólastigin eru stig þín áður en Samordna opptak bætir við viðbótarstigum og aldursstigum. Þegar um grunnnámskvóta er að ræða er tekið mið af þessari stigatölu.

Samkeppnisstig er stigatalan sem þú færð eftir að viðbótarstigum og aldursstigum hefur verið bætt við. Þegar um hefðbundinn kvóta er að ræða er tekið mið af samkeppnisstigum.

Hér á eftir er lýsing á því hvernig sótt er um nám á mismunandi námsstigum í Noregi.

Sótt um nám á bakkalárstigi

Áður en sótt er um nám á bakkalárstigi í Noregi er mikilvægt að kynna sér inntökukröfurnar. Í mörgu námi er aðeins gerð krafa um framhaldsskólamenntun með almennum námsréttindum (GENS), fyrir sumt nám þarftu að hafa lokið tilteknum námsgreinum og fyrir annað eru haldin inntökupróf.

Hjá Samordna opptak má finna yfirlit yfir menntun og forkröfur fyrir einstakar greinar. Samordna opptak býður einnig upp á yfirlit yfir þá erlendu framhaldsskólamenntun sem gefur almenn námsréttindi í Noregi.

Sótt er um nám á bakkalárstigi á vef Samordna opptak. Almennur umsóknarfrestur er 15. apríl en fyrir einstakar námsgreinar er umsóknarfresturinn 1. mars.

 

Sótt um eins árs nám

Eins árs nám hentar þeim sem ekki ætla að ljúka heilli námsgráðu en vilja stunda nám í eitt ár.

Hægt er að fá sumar eins árs námsbrautir metnar sem fyrsta ár í bakkalárnámi eða til að fá aðgang að starfsnámi.

Ef þú vilt sækja um að stunda eins árs nám þarftu að kynna þér inntökukröfur viðkomandi námsgreinar. Yfirlit yfir inntökukröfur er að finna á Samordna opptak og þar er einnig hægt að sækja um nám.

Sótt um starfsnám

Starfsnám er ein tegund æðri menntunar. Starfsnámið er almennt fimm ára langt og gefur réttindi á tilteknu starfsviði. Stærsti munurinn á hefðbundnum námsbrautum og námi með starfsnámi er að í hefðbundnu námi er fyrst tekin bakkalárgráða og því næst meistaragráða. Með starfsnámi er fastri námsleið fylgt innan tiltekins starfsviðs á magra ára tímabili.

Dæmi um starfsnám eru sálfræði, verkfræði, læknisfræði og tannlækningar.

Ef þú vilt sækja um að stunda starfsnám þarftu að kynna þér inntökukröfur viðkomandi námsgreinar. Yfirlit yfir inntökukröfur er að finna á Samordna opptak og þar er einnig hægt að sækja um nám.

Sótt um nám á meistarastigi

Í meistaranámi er kafað dýpra ofan í viðfangsefnin og byggir námið á bakkalárgráðu. Til að fá inngöngu í meistaranám í Noregi þarftu því að hafa fengið viðeigandi bakkalárgráðu sem uppfyllir inntökuskilyrði.

Upplýsingar um meistaranám er að finna á vefsíðum skólanna. Sótt er um inngöngu í nám á umsóknarvefgátt skólanna.

Tækifæri til að stunda skiptinám í Noregi

Ef þú stundar nám í öðru norrænu landi getur þú kannað hvort skólinn þinn bjóði upp á skiptinám í Noregi. Norskir háskólar gera oft beina samninga við skóla í öðrum löndum. Einnig er vert að kanna skiptinámsáætlanir á borð við Erasmus+ og Nordplus.

Getur þú fengið námslán eða námsstyrk, og hvernig er nám fjármagnað í Noregi?

Opinber, æðri menntun er ókeypis í Noregi en þú þarft að greiða fyrir námsefni, skólaannargjöld, búsetu og framfærslu. Að öllu jöfnu getur þú sótt um námslán og námsstyrki frá landinu sem þú ert ríkisborgari í. Þú skalt því hafa samband við stofnanir í þínu landi til að athuga hvort þær styðji námið sem þú hyggst stunda í Noregi.

Margir námsmenn í Noregi vinna með skólanum í hlutastarfi til að sjá fyrir sér. Þegar starfað er í Noregi þarf að greiða skatt ef tekjur eru yfir skattleysismörkum, sem árið 2023 eru 70.000 norskar krónur.

Getur þú notað norsku menntunina öðrum löndum?

Til að geta starfað innan tiltekinna starfsgreina þarf sérstaka heimild eða starfsleyfi. Því skaltu ganga úr skugga um að námið sem þú stundar í Noregi veiti þér leyfi til að starfa í heimalandi þínu eða því landi sem þú vilt starfa í að loknu námi.

Þarftu að skrá þig í þjóðskrá þegar þú stundar nám í Noregi?

Norrænir ríkisborgarar sem dvelja skemur en sex mánuði í Noregi þurfa ekki að tilkynna um flutning til Noregs eða skrá búsetu sína í þjóðskrá í Noregi. Ef þú hyggst dveljast í Noregi lengur en í sex mánuði þarftu að tilkynna um flutninginn til Noregs og skrá lögheimili þitt hjá þjóðskrá í Noregi.

Eru einhverjar tryggingar nauðsynlegar fyrir námsfólk í Noregi?

Engar tryggingar eru lögbundnar fyrir námsfólk í Noregi en það getur komið sér vel að kaupa ferðatryggingu og jafnvel innbústryggingu eða tjónatryggingu fyrir húsnæði.

Eru einhverjir afslættir fyrir námsmenn í Noregi?

Námsfólk í Noregi fær námsmannaskírteini sem gefur afslætti í almenningssamgöngum og getur gefið ódýrari áskriftir, afslætti í tilteknum verslunum og önnur góð tilboð. Hafðu samband við félagsstofnun námsmanna þíns skóla til að fá nánari upplýsingar um afslætti fyrir námsmenn.

Hvernig sækirðu um námsmannahúsnæði eða finnur annað húsnæði í Noregi?

Námsmenn í Noregi geta annað hvort fundið sér húsnæði á almennum leigumarkaði eða í gegnum sjálfseignarstofnanir námsmanna sem nefndar eru „studentsamskipnad“. Félagsstofnun námsmanna úthlutar húsnæði sem er frátekið fyrir námsmenn. Námsmannaíbúðirnar eru oft nálægt skólunum og leigan er lægri en á almennum leigumarkaði.

Hvar áttu að eiga aðild almannatryggingum þegar þú stundar nám í Noregi?

Þú hefur aðild að norska almannatryggingakerfinu ef þú hefur lögheimili í Noregi. Ef þú ætlar að stunda nám skemur en eitt ár í Noregi áttu alla jafna ekki aðild að almannatryggingakerfinu þar í landi. Þrátt fyrir að þú eigir ekki aðild að almannatryggingum áttu engu að síður rétt á niðurgreiðslu lækniskostnaðar samkvæmt lögum um almannatryggingar og þarft ekki að sýna fram á þennan rétt með sjúkratryggingakorti. Hafðu samband við norsku vinnumála- og velferðarstofnunina, NAV, ef spurningar vakna um almannatryggingar í Noregi.

Hvað gerir þú ef þú veikist á meðan þú stundar nám í Noregi?

Ef þú ert ekki með skráð lögheimili í Noregi en veikist eða slasast skyndilega áttu rétt á að fá þjónustu læknavaktar eða samsvarandi þjónustu á þínum búsetustað. Í þessum aðstæðum áttu ekki rétt á að hafa fastan heimilislækni eða fá eftirfylgni vegna langvinns sjúkdóms og sérfræðilæknaþjónustu. Ef þú átt rétt á að fá evrópska sjúkraskírteinið í heimalandi þínu skaltu hafa það meðferðis þegar þú stundar nám í Noregi.

Ef þú ert með lögheimili í Noregi áttu rétt á að fá heilbrigðisþjónustu og hafa heimilislækni í Noregi. Margir skólar bjóða nemendum sínum upp á eigin heilbrigðisþjónustu með betri kjörum fyrir þjónustu lækna, sálfræðinga og tannlækna. Hafðu samband við félagsstofnun námsmanna þíns skóla til að fá nánari upplýsingar um þetta.

Hvert skal leita með frekari spurningar?

Hafðu samband við þá menntastofnun sem þú vilt stunda nám við eða félagssamtök nemenda sem tilheyra stofnuninni. Þú getur haft samband við Samordna opptak ef þú hefur sérstakar spurningar um umsóknarferlið, útreikning stiga, inntökukröfur o.s.frv.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um hvað þarf að hafa í huga þegar flutt er milli norrænna landa.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna