Búsetuvottorð á Grænlandi

Grønlandsk bopælsattest
Hér eru upplýsingar um búsetuvottorð.

Grænlenskt búsetuvottorð gegnir hlutverki skilríkja við ýmsar aðstæður, bæði á Grænlandi og hinum norrænu löndunum. Ávallt skal hafa grænlenska búsetuvottorðið meðferðis þegar ferðast er til heimalandsins þar sem t.d. þarf að framvísa því við læknisheimsókn. Þetta á einnig við um danska ríkisborgara.

Hvað er búsetuvottorð?

Grænlenskt búsetuvottorð sýnir fram á hver þú ert og hvar þú býrð. Öll sem hafa fasta búsetu á Grænlandi geta fengið útgefið búsetuvottorð.

Þú þarft að nota búsetuvottorðið þegar:

  • þú þarft að hafa samband við heilbrigðiskerfi annars staðar á Norðurlöndum
  • þú hyggst sækja um nám
  • þú sækir um grænlenskt ökuskírteini
  • þú þarft að fá endurgreiddan virðisaukaskatt

Búsetuvottorðið gildir einnig sem vegabréf þegar ferðast er innan Norðurlanda.

Hvernig fæ ég búsetuvottorð?

Hægt er að sækja búsetuvottorð í gegnum borgaraþjónustuna (Sullisivik) með því að nota NemID-auðkenni.

Ef þú ert ekki með Nem-ID er hægt að fá prentað eintak af vottorðinu hjá sveitarfélaginu eða bæjarskrifstofu gegn vægu gjaldi.

Reglur um búsetuvottorð

Einungis er hægt að nota grænlensk búsetuvottorð á Grænlandi, í Danmörku og hinum norrænu löndunum. Því er mælt með því að fólk fái sér ferðatryggingu ef ferðast er utan Danmerkur og Norðurlanda. Að öðrum kosti getur sjúkraflutningur heim orðið mjög kostnaðarsamur.

Ef þú átt börn yngri en 18 ára gildir búsetuvottorð þitt fyrir þau að því gefnu að þau búi hjá þér. Ef þú vilt að búsetuvottorðið gildi einnig fyrir maka þinn skaltu snúa þér til sveitarfélagsins eða bæjarskrifstofu með umboð frá viðkomandi.

Búsetuvottorðið gildir aðeins í eitt ár í senn svo ef þú hyggst ferðast á ný á næsta ári þarftu að fá nýtt vottorð. Það sama á við ef þú skiptir um búsetu.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna