Danskar bætur til eftirlifandi aðstandenda við andlát

Danske ydelser til efterlevende ved dødsfald
Hér má lesa um útfararstyrk í Danmörku og danskar bætur til eftirlifandi aðstandenda eftir andlát.

Einstaklingar geta átt rétt á bótum þegar nákominn deyr. Ef báðir makar hafa verið lífeyrisþegar getur sá sem eftir lifir átt rétt á tímabundnum dánarlífeyri. Ef hann á ekki rétt á dánarlífeyri getur hann átt rétt á dánarbótum. Barn getur átt rétt á sérstökum barnabótum við andlát foreldris eða beggja foreldra.

Dánarlífeyrir ef báðir makar eru lífeyrisþegar

Ef báðir makar eða sambýlingar eru fyrirfram- eða ellilífeyrisþegar geta lífeyrisgreiðslur hins látna haldið áfram í allt að þrjá mánuði eftir andlát hans. Nefnast þær dánarlífeyrir. Að þremur mánuðum liðnum er lífeyrir eftirlifandi maka eða sambýlings sniðinn að töxtum og reglum sem gilda um einhleypa.

Eftirlifandi aðstandendur þurfa ekki að aðhafast neitt vegna fyrirfram- eða ellilífeyris. Udbetaling Danmark og viðkomandi sveitarfélag fá tilkynningu um andlátið frá Þjóðskrá og taka sjálfkrafa ákvörðun um afgreiðslu lífeyris. Aðstandendur þurfa þó sjálfir að leita til Udbetaling Danmark ef hinn látni var búsettur erlendis.

Dánarbætur

Ef maki eða sambýlingur fellur frá og sá sem eftir lifir á ekki rétt á dánarlífeyri getur hann átt rétt á dánarbótum. Dánarbætur eru skattskyld eingreiðsla sem sækja þarf um. Upphæðin er tekjutengd.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Sérstakar barnabætur ef foreldrar eða forsjáraðili fellur frá

Udbetaling Danmark greiðir sjálfkrafa sérstakar barnabætur við andlát foreldris eða beggja foreldra barns. Ef báðir foreldrar barns eru látnir eru bæturnar greiddar þeim aðila sem hefur barnið á framfæri sínu.

Hafðu samband við Udbetaling Danmark ef þú telur þig eiga rétt á barnabótum en færð þær ekki sjálfkrafa greiddar.

Útfararstyrkur

Hægt er að sækja um útfararstyrk ef dánarbúið hefur verið tekið til meðferðar hjá skiptarétti og ef hinn látni átti rétt á dönskum sjúkratryggingum. Það hefur ekki áhrif á útfararstyrkinn hvort hinn látni er jarðsettur eða brenndur.

Upphæð útfararstyrksins ræðst af aldri hins látna, fjölskylduaðstæðum og eignum hans og hugsanlegs maka. Útfararstyrkur er eingreiðsla og ekki skattskyldur.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk. Hér er að finna frekari upplýsingar um hvernig sótt er um útfararstyrk.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna