Lífeyrir fyrir eldri borgara í Danmörku (seniorpension)

Ældre kvinde og lille pige på en bænk
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Til að eiga rétt á lífeyri fyrir eldri borgara þarf að uppfylla nokkur skilyrði auk þess sem ekki mega vera fleiri en sex ár eftir í lífeyrisaldur. Hér má lesa nánar um fyrirkomulagið.

Lífeyrir fyrir eldri borgara er fyrir fólk sem á í mesta lagi sex ár þar til það nær ellilífeyrisaldri, hefur haft langvarandi tengsl við vinnumarkaðinn og verið í vinnu í a.m.k. 20–25 ár og hefur starfsgetu sem lækkað hefur niður í að hámarki 15 tíma á viku í sambandi við síðasta starf.

Áttu rétt á lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku?

Þú kannt að eiga rétt á lífeyri fyrir eldri borgara ef það eru í mesta lagi sex ár þar til þú nærð ellilífeyrisaldri, þú hefur haft langvarandi tengsl við vinnumarkaðinn og verið í vinnu í a.m.k. 20–25 ár og hefur starfsgetu sem lækkað hefur niður í að hámarki 15 tíma á viku í sambandi við síðasta starf.

Þú átt ekki rétt á lífeyri fyrir eldri borgara ef starfsgeta þín skerðist tímabundið.

Ef þú býrð í Danmörku er það sveitarfélagið sem metur rétt þinn til lífeyris fyrir eldri borgara.

Leitaðu til sveitarfélagsins eftir nánari upplýsingum um lífeyri fyrir eldri borgara.

Ef þú býrð ekki í Danmörku er það Udbetaling Danmark sem metur hvort þú eigir rétt til lífeyris fyrir eldri borgara. Til að sækja um lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku skaltu hafa samband við þá stofnun sem sér um lífeyrisgreiðslur í því landi sem þú býrð í.

Leitaðu til Udbetaling Danmark eftir nánari upplýsingum um danskan lífeyri fyrir eldri borgara.

Hvernig ávinnur þú þér rétt á lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku?

Meginreglan er sú að þú ávinnir þér rétt til dansks lífeyris þegar þú býrð eða starfar í Danmörku. Ef þú býrð í Danmörku en starfar í öðru norrænu landi er meginreglan sú að þú ávinnir þér lífeyrisrétt í starfslandinu. Ef þú starfar í tveimur eða fleiri löndum eða ert útsendur starfsmaður í öðru norrænu landi skaltu leita til yfirvalda ef þú ert í vafa um hvar þú ávinnur þér lífeyrisréttindi. Í Danmörku hefurðu samband við skrifstofu alþjóðlegra almannatrygginga (kontor for international social sikring) hjá Udbetaling Danmark.

Þú átt rétt á fullum lífeyri fyrir eldri borgara ef þú hefur búið í Danmörku eigi skemur en í 4/5 þess tíma sem liðinn er frá 15 ára aldri þar til taka lífeyris hefst auk þess sem þú hefur ekki áunnið þér lífeyrisrétt í öðru landi samtímis. Ef þú uppfyllir ekki reglurnar um fullan lífeyri fyrir eldri borgara ræðst upphæð lífeyrisins af hlutfallinu milli búsetutímabilsins og 4/5 þess tíma sem liðinn er frá 15 ára aldri þar til taka lífeyris hefst. Ef þú fæddist 1. júlí 1958 eða síðar þarftu að hafa búið í Danmörku í 9/10 hluta tímans frá því þú varðst 15 ára og þar til þú færð lífeyri fyrir eldri borgara til þess að eiga rétt á fullum lífeyri.

Þú átt ekki rétt á lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku ef sá tími sem þú hefur áunnið þér lífeyrisrétt í Danmörku er skemmri en eitt ár.

Nánari upplýsingar og dæmi um útreikninga er að finna á borger.dk.

Hvernig er sótt um lífeyri fyrir eldri borgara?

Ef þú býrð í Danmörku er það sveitarfélagið sem afgreiðir umsókn þína um lífeyri.

Ef þú hefur áunnið þér rétt til lífeyris fyrir eldri borgara í fleiri en einu norrænu landi sendir Udbetaling Danmark umsóknina áfram til afgreiðslu í hinum Norðurlöndunum. Þú getur kynnt þér hvernig þú sækir um og hvaða gögn þurfa að fylgja umsókninni á vefnum borger.dk.

Ef þú býrð í öðru norrænu landi en hefur áunnið þér lífeyrisrétt í Danmörku er meginreglan sú að þú sækir um lífeyri hjá yfirvöldum í búsetulandinu.

Ef þú hefur starfað eða búið í fleiri en einu norrænu landi er mikilvægt að gæta að því að reglur um lífeyri geta verið ólíkar í löndunum. Þú getur aflað þér upplýsinga hjá yfirvöldum í þeim löndum sem þú hefur búið í og starfað.

Ef þú býrð í Danmörku geturðu fengið sérstaka uppbót til framfærslu ef lífeyririnn er undir framfærsluviðmiði. Ef þú býrð erlendis geturðu yfirleitt ekki fengið sérstaka uppbót til framfærslu frá Danmörku, en þú getur leitað aðstoðar í búsetulandinu.

Eingreiðslur og húsnæðisstyrkur

Ef þú færð lífeyri fyrir eldri borgara og býrð í Danmörku geturðu leitað til sveitarfélagsins og sótt um fjárhagsaðstoð, til dæmis vegna lyfjakostnaðar eða óvæntra útgjalda sem þú ræður ekki við.

Þú getur átt rétt á húsnæðisstyrk. Fer það meðal annars eftir upphæð húsaleigunnar, tekjum þínum, stærð húsnæðisins og hversu margir búa þar. Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Geturðu tekið með þér danskan lífeyri fyrir eldri borgara til annars norræns lands?

Ef þú ert danskur ríkisborgari eða ríkisborgari í ESB- eða EES-landi, geturðu yfirleitt tekið lífeyrinn með þér til annars norræns lands. Þú getur leitað til Udbetaling Danmark og sótt þar um að taka lífeyrinn með þér úr landi.

Þú getur ekki tekið danskan lífeyri með þér til Færeyja eða Grænlands. Þess í stað sækirðu um færeyskan eða grænlenskan lífeyri.

Nánari upplýsingar á vefslóðinni borger.dk.

Máttu vinna þegar þú færð greiddan lífeyri fyrir eldri borgara?

Þú og maki þinn megið vinna þegar þú færð lífeyri fyrir eldri borgara en það kann að hafa áhrif á upphæð lífeyrisins. Þú þarft að greina Udbetaling Danmark frá breytingum á fjárhagsaðstæðum þínum, þar með talið ef þú ferð að vinna. Gættu að því að lífeyririnn getur verið endurskoðaður ef þú ferð að vinna. Þá getur lífeyririnn verið settur í bið eða felldur niður.

Hvernig er lífeyrir fyrir eldri borgara greiddur við andlát?

Ef báðir makar eða sambýlingar eru fyrirfram- eða ellilífeyrisþegar geta lífeyrisgreiðslur hins látna haldið áfram í allt að þrjá mánuði eftir andlát hans. Nefnast þær dánarlífeyrir. Að þremur mánuðum liðnum er lífeyrir eftirlifandi maka eða sambýlings sniðinn að töxtum og reglum sem gilda um einhleypa.

Eftirlifandi aðstandendur þurfa ekki að aðhafast neitt vegna fyrirfram- eða ellilífeyris. Dönsk þjóðskrá tilkynnir um andlátið til Udbetaling Danmark og viðkomandi sveitarfélags sem taka sjálfvirka ákvörðun um hvernig fer með lífeyrinn. Aðstandendur þurfa þó sjálfir að leita til Udbetaling Danmark ef hinn látni var búsettur erlendis.

Hvar átt þú að greiða skatta af dönskum lífeyri fyrir eldri borgara ef þú býrð erlendis?

Nánari upplýsingar um skattlagningu lífeyris á Norðurlöndum er að finna á vefgáttinni Nordisk eTax.

Atvinnutengdur viðbótarlífeyrir

Atvinnutengdur viðbótarlífeyrir, Supplerende Arbejdsmarkedspension (SUPP), er lífeyrissöfnun sem lífeyrisþegi getur kosið að taka þátt í. Ef þú greiðir í SUPP færðu mánaðarlegar aukagreiðslur þegar þú kemst á ellilífeyrisaldur.

Skyldubundnar lífeyrissjóðsgreiðslur

Af lífeyri fyrir eldri borgara er greitt framlag í skyldubundinn lífeyrissjóð. Framlagið er 0,3 prósent árið 2020 og hækkar um 0,3 prósent árlega til ársins 2030 og verður því 3,3 prósent það ár. Ríkið greiðir fyrir skyldubundinn lífeyrrissjóð fyrir þau sem þiggja lífeyri fyrir eldri borgara.

Hvar færðu svör við spurningum?

Ef þú býrð í Danmörku geturðu leitað til sveitarfélagsins með spurningar um lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku.

Ef þú býrð erlendis geturðu leitað til Udbetaling Danmark, alþjóðlegur lífeyrir, með spurningar um lífeyri fyrir eldri borgara í Danmörku.

Ef þú býrð í Danmörku geturðu leitað til Udbetaling Danmark, erlendur lífeyrir, með spurningar varðandi fyrirframlífeyri eða lífeyri fyrir eldri borgara erlendis.

Samskiptaupplýsingar er að finna í bláa reitnum efst til hægri á þessari síðu.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna