Fjárhagsaðstoð í Danmörku

Birketræer i en skov

Birketræer i en skov

Photographer
Benjamin Suomela / Norden.org
Ef þú dvelst með löglegum hætti í Danmörku og getur ekki séð fyrir þér kanntu að eiga rétt á fjárhagsaðstoð (kontanthjælp) eða öðrum greiðslum.

Ef þú dvelst með löglegum hætti í Danmörku og getur ekki séð fyrir þér kanntu að eiga rétt á greiðslum frá sveitarfélaginu. Það fer m.a. eftir aldri þínum, menntun og hve lengi þú hefur dvalist í landinu um hvaða greiðslur kann að vera að ræða.

Hvaða almennu skilyrði þarf að uppfylla?

Til að eiga rétt á aðstoð þarftu að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Það hafa orðið breytingar á höfum þínum, svo sem vegna veikinda, atvinnuleysis eða skilnaðar.
  • Þessar breytingar hafa haft það í för með sér að þú getur ekki séð fyrir þér eða fjölskyldu þinni og að enginn annar sér fyrir þér.
  • Aðrar greiðslur, svo sem atvinnuleysisbætur eða lífeyrisgreiðslur, nægja ekki til að sjá fyrir þér.

Einnig skal athuga að efri mörk eru á því hversu mikið er hægt að fá samanlagt ef maður þiggur einhverja af ofangreindum greiðslum og þiggur um leið sérstaka aðstoð og/eða húsnæðisstyrk. Þá er gerð krafa um atvinnu. Sjá kaflana „Þak á fjárhagsaðstoð“ og „Atvinnukrafa (225 tíma reglan“.

Hvaða greiðslur eru í boði?

Hafir þú dvalist í Danmörku í níu af síðustu tíu árum eða ef þú ert ríkisborgari í ESB- eða EES-landi og heyrir undir reglur ESB-réttarins geturðu sótt um fjárhagsaðstoð (kontanthjælp) eða námsaðstoð (uddannelseshjælp).

  • fjárhagsaðstoð (kontanthjælp): ef þú ert eldri en 30 ára
  • fjárhagsaðstoð fyrir ungt fólk (kontanthjælp på ungesats): ef þú ert yngri en 30 ára og hefur menntun sem veitir þér atvinnuréttindi
  • námsaðstoð (uddannelseshjælp): ef þú ert yngri en 30 ára og hefur ekki menntun sem veitir þér atvinnuréttindi

Hafir þú ekki dvalið í Danmörku í níu af síðustu tíu árum og heyrir ekki undir reglur ESB-réttarins getur þú sótt um framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur (selvforsørgelses- og hjemrejseydelse eller overgangsydelse). Áður nefndist þetta aðlögunarbætur (integrationsydelse). Uppfylla þarf sömu skilyrði til að hljóta framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur og til að hljóta fjárhagsaðstoð eða námsaðstoð.

Ef þú ert danskur ríkisborgari og hefur dvalist í öðru ESB-/EES-landi í meira en ár og þarft aðstoð frá hinu opinbera við að komast heim gilda sérstakar reglur. Lesa má um þær í minnisblaði til sveitarfélaga frá 24. nóvember 2016.

Hvernig er sótt um?

Hægt er að sækja um bæturnar í sjálfsafgreiðslu á borger.dk eða hjá sveitarfélaginu þínu. Nánari upplýsingar um skilyrði og ákvæði og fleira á borger.dk.

Í síðasta lagi einni viku eftir að þú leitar til sveitarfélagsins eftir aðstoð færðu boð í fyrsta viðtal þar sem vinnumiðstöðin metur hvort þú sért vinnufær (jobparat) eða virknifær (aktivitetsparat).

Ef vinnumiðstöðin metur það sem svo að þú sért í stakk búin(n) til að hefja vinnu innan skamms ertu vinnufær og þarft að vera reiðubúin(n) fyrir vinnumarkaðinn. Ef vinnumiðstöðin metur það sem svo að þú getir ekki hafið vinnu innan skamms ertu virknifær.

Þak á fjárhagsaðstoð

Ef þú þiggur námsaðstoð, fjárhagsaðstoð eða framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur og þiggur á sama tíma sérstakan styrk eða húsnæðisstyrk er hámark á því hversu mikið þú getur fengið mánaðarlega.

Þetta hámark nefnist þak á fjárhagsaðstoð (kontanthjælpsloftet). Námsaðstoðin, fjárhagsaðstoðin eða framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur munu ekki lækka vegna þaksins. Þó kann að vera að þú fáir minna greitt í sérstakan styrk og húsnæðisstyrk.

Ef þú þiggur ekki sérstakan styrk og enginn á heimilinu þiggur húsnæðisstyrk hefur þakið á fjárhagsaðstoð ekki áhrif á hversu mikið þú getur fengið.

Sú fjárhæð sem þú getur samtals fengið í bætur fer eftir aldri þínum, hvort þú hafir fyrir öðrum að sjá og hvort þú sért gift(ur) eða í sambúð eða einstæð(ur). Upphæðin fer einnig eftir því hversu mikið þú færð í námsaðstoð, fjárhagsaðstoð eða framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur.

Atvinnukrafa (225 tíma reglan)

Til að geta áfram fengið fulla fjárhagsaðstoð, námsaðstoð eða framfærslu- og heimfararbætur eða millibilsbætur er gerð krafa um að þú hafir verið í vinnu í tiltekinn tíma.

Ef þú ert ógift(ur) og þiggur náms-eða fjárhagsaðstoð felur reglan það í sér að greiðslur til þín lækka ef þú hefur þegið aðstoð í samanlagt að minnsta kosti eitt ár á síðustu þremur árum og þú hefur ekki unnið í að minnsta kosti 225 tíma án aðstoðar á undanförnum tólf mánuðum.

Ef þú ert gift(ur) felur reglan í sér að greiðslur til þín eða maka þíns geta fallið niður eða lækkað ef þið hafið sem hjón þegið aðstoð í að minnsta kosti eitt ár á síðustu þremur árum og hvort um sig ykkar hefur ekki unnið í að minnsta kosti 225 tíma án aðstoðar á undanförnum tólf mánuðum.

Brottvísun

Ef þú ert ekki danskur ríkisborgari og þarft á fjárhagsaðstoð, námsaðstoð, framfærslu- og heimfararbótum eða millibilsbótum í meira en hálft ár geta útlendingayfirvöld tekið ákvörðun um að senda þig heim.

Ef Norðurlandasamningurinn um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu nær yfir þig er ekki hægt að senda þig heim ef þú hefur búið í Danmörku í meira en þrjú ár.

Reglurnar má sjá í tilkynningu um lög um félagsmál.

Hvar færðu svör við spurningum?

Ef spurningar vakna er hægt að hafa samband við viðkomandi sveitarfélag.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna