Fjárhagsaðstoð í Svíþjóð

Hus og nøgler
Photographer
Photo by Tierra Mallorca on Unsplash
Ef þú átt erfitt með að láta enda ná saman gætir þú átt rétt á sænskri fjárhagsaðstoð. Kannaðu hver skilyrðin fyrir fjárhagsaðstoð eru í Svíþjóð og hvernig sótt er um hana.

Ef þú dvelst með löglegum hætti í Svíþjóð og getur ekki séð fyrir þér kanntu að eiga rétt á greiðslum frá sveitarfélaginu. Þessar greiðslur eru nefndar fjárhagsaðstoð eða „ekonomiskt bistånd“ á sænsku. Fjárhagsaðstoðin var áður nefnd „socialbidrag“ og í daglegu tali nota Svíar enn það orð, eða orðið „försörjningsstöd“.

Áttu í fjárhagserfiðleikum?

Ef þú átt í fjárhagserfileikum, svo sem vegna atvinnuleysis, veikinda eða skuldavanda, gætir þú átt rétt á fjárhagsaðstoð í Svíþjóð. Þetta á einnig við um Dani, Finna, Íslendinga og Norðmenn sem dvelja með löglegum hætti í Svíþjóð og eiga erfitt með að sjá fyrir sér sjálfum og fjölskyldu sinni.

Hvað er fjárhagsaðstoð í Svíþjóð?

Þú getur sótt um tímabundna fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu þíns sveitarfélags („socialtjänsten“). Fjárhagsaðstoðin er veitt mánaðarlega af sveitarfélaginu ef þú getur ekki séð fyrir þér.

Fjárhagsaðstoðin er tvíþætt – annars vegar er veittur framfærslustyrkur („försörjningsstöd“) og hins vegar fjárhagsaðstoð („bistånd“) fyrir dagleg útgjöld.

Framfærslustyrkurinn á að standa straum af föstum útgjöldum á borð við húsnæði, rafmagn og tryggingar, sem og tilfallandi kostnaði vegna matar, fatnaðar, skókaupa, frístunda- tómstundastarfs, hreinlætisvara, dagblaða og síma.

Hinum hluta fjárhagsaðstoðarinnar („bistånd“) er hins vegar ætlað að standa straum af tilfallandi útgjöldum, til dæmis vegna gleraugna, tannlækna, lækna, lyfja, flutninga og jarðarfara. Metið er í hverju tilfelli fyrir sig hvað telst vera örugg framfærsla, með tilliti til aðstæðna viðkomandi.

Skilyrði fyrir sænskri fjárhagsaðstoð

Í Svíþjóð er öllum skylt að sjá fyrir sér og sinni fjölskyldu. Það þýðir að þú þarft að hafa raunverulega þörf á fjárhagsaðstoð og að þú þarft fyrst að hafa nýtt þér alla aðra möguleika þína til að framfleyta þér á eigin spýtur.

Fjárhagsaðstoðin er hönnuð sem tímabundin aðstoð sem hjálpar þér að ná aftur að framfleyta þér á eigin spýtur. Þessari ábyrgð á þínum eigin aðstæðum er lýst í lögum um félagsþjónustu.

  • Þú þarft að vera reiðubúin(n) til að ráða þig til starfa, nema þú glímir við veikindi og getir framvísað læknisvottorði um skerta starfsgetu.
  • Þú þarft að sækja um allar viðeigandi bætur, svo sem sjúkradagpeninga, fæðingarorlofsgreiðslur og húsnæðisstyrk hjá Försäkringskassan.
  • Þú þarft að nota sparnað þinn eða selja eignir til að framfleyta þér.
  • Þú og maki þinn þurfið að hjálpa hvort öðru í gegnum fjárhagserfiðleika ef þið búið saman.

Til að félagsþjónustan geti veitt fjárhagsaðstoð þarftu að gera það sem þú getur til að framfleyta þér á eigin spýtur. Sveitarfélag þitt getur gefið þér nákvæmar upplýsingar um hvað á við um þínar aðstæður.

Þegar þú sækir um fjárhagsaðstoð gerir félagsþjónustan athugun til að meta hvort þú eigir rétt á henni. Í athuguninni er lagt mat á fjárhagslegan bakgrunn þinn og hvort þú uppfyllir skilyrðin sem félagsþjónustan setur.

Félagsþjónustan getur krafist sönnunar fyrir því að upplýsingar sem þú veitir séu réttar, til dæmis með framvísun leigusamnings eða bankayfirlits.

Hvernig er sótt um sænska fjárhagsaðstoð?

Fjárhagsaðstoð er aðgengileg öllum í Svíþjóð. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að sækja um og fá aðstoð og ráðgjöf félagsráðgjafa. Enginn fastur tímarammi gildir um meðferð umsókna en unnið er úr þeim sem eins fljótt og auðið er.

Þú getur notað reiknivél heilsu- og velferðarstofnunar Svíþjóðar, Socialstyrelsen, til að sjá hvort fjárhagsstaða þín sé yfir eða undir viðmiðum um fjárhagsaðstoð. Niðurtaðan tryggir ekki rétt þinn til fjárhagsaðstoðar.

Hvernig kæri ég ákvörðun um sænska fjárhagsaðstoð?

Ef umsókn þinni er hafnað, að hluta til eða í heild, getur þú kært ákvörðunina til sænska stjórnsýsludómstólsins. Þú getur einnig haft samband við eftirlitsstofnun heilbrigðis- og félagsþjónustunnar í Svíþjóð (Inspektionen för vård och omsorg, IVO) ef þú ert óánægð(ur) með meðhöndlun máls þíns.

Er hægt að fá fjárhagsaðstoð á meðan dvalið er í Svíþjóð?

Ef þú ert norrænn ríkisborgari og dvelur löglega og tímabundið í Svíþjóð nýtur þú sömu réttinda og sænskir ríkisborgarar að því er varðar félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.

Ef þú hefur brýna þörf fyrir félagslega aðstoð og félagslega þjónustu á meðan þú býrð löglega og tímabundið í Svíþjóð gætir þú átt rétt á viðeigandi aðstoð í samræmi við lög og reglur í Svíþjóð.

Aðeins er hægt að senda þig aftur til heimalands þíns á grundvelli þess að þú hafir þegið félagslega aðstoð ef aðstoðin er nauðsynleg fyrir framfærslu til lengri tíma og er meginpartur tekna þinna. Ef þú hefur sérstök tengsl við Svíþjóð, til dæmis fjölskyldutengsl, eða ef þú hefur búið löglega í Svíþjóð í minnst þrjú ár, er ekki hægt að senda þig úr landi á grundvelli þess að þú þarft á félagslegri aðstoð að halda.

Hvað eru örugg lífskjör í Svíþjóð?

Fjárhagsaðstoð er ætlað að tryggja einstaklingum og fjölskyldum örugg lífskjör í Svíþjóð. Ríkisstjórnin ákveður á ári hverju landsviðmið („riksnorm“) um útgjöld fyrir mat, föt, skó, hreinlæti og heilbrigði, frístundir, tryggingar fyrir börn, neysluvörur, dagblöð, símakostnað og kostnað einstaklinga vegna húsnæðis, rafmagns, vinnuferða, heimilistrygginga, stéttarfélagsgjalda og lyfsseðilsskyldra lyfja. Þetta grunnviðmið segir fyrir um hve mikil fjárhagsaðstoð er veitt.

Landsviðmiðið tekur tillit til þátta á borð við stærð húsnæðis, aldurs barna og unglinga, sem og hvort fullorðnir á heimilinu séu einstæðir foreldrar eða í sambúð. Upphæð fjárhagsaðstoðar er eins í öllum sveitarfélögum og er byggð á landsviðmiðinu.

Nánari upplýsingar um fjárhagsaðstoð í Svíþjóð

Ef þú hefur spurningar um sænska fjárhagsaðstoð og hvort þú eigir rétt á henni skaltu hafa samband við sveitarfélagið þitt.

Frekari upplýsingar um fjárhagsaðstoð í Svíþjóð er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins þíns og á vefsíðu Socialstyrelsen.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna