Fjárhagsaðstoð í Svíþjóð

Hus og nøgler
Ljósmyndari
Photo by Tierra Mallorca on Unsplash
Hér geturðu kynnt þér hvernig þú sækir um fjárhagsaðstoð í Svíþjóð og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að eiga rétt á henni.

Ef þú átt í fjárhagserfiðleikum getur það stafað af því að þú getur ekki framfleytt þér vegna atvinnuleysis, veikinda eða annarra hindrana. Fjárhagserfiðleikar geta einnig komið til vegna skuldar sem gerir þér erfitt fyrir að ná endum saman.

Ef þú ert frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi eða Noregi og dvelur löglega í Svíþjóð en getur ekki framfleytt þér og þinni fjölskyldu gætir þú átt rétt á styrk frá sveitarfélagi þínu í Svíþjóð sem ætlað er að hjálpa þér að komast yfir fjárhagserfiðleikana.

Styrkirnir eru í formi fjárhagsaðstoðar sem nefnist „ekonomiskt bistånd“ á sænsku og þú getur sótt um hana hjá félagsþjónustu þíns sveitarfélags („socialtjänsten“). Fjárhagsaðstoðin var áður nefnd „socialbidrag“ og í daglegu tali nota Svíar enn það orð eða orðið „försörjningsstöd“.

Félagsþjónustan í sveitarfélagi þínu getur einnig ráðlagt þér varðandi skuldir og gerð fjárhagsáætlunar.

Hvað er fjárhagsaðstoð í Svíþjóð?

Sveitarfélög geta veitt tímabundna fjárhagsaðstoð til fólks sem getur ekki framfleytt sér. Félagsþjónustan metur hvert tilfelli fyrir sig og er fjárhagsaðstoðin greidd út fyrir einn mánuð í senn.

Fjárhagsaðstoðin í Svíþjóð er tvíþætt – annars vegar er veittur framfærslustyrkur (försörjningsstöd) og fjárhagsaðstoð (bistånd) fyrir dagleg útgjöld. Framfærslustyrknum er ætlað að standa straum af föstum útgjöldum heimilisins.

Hluti framfærslustyrksins á að standa straum af kostnaði fyrir matarkaup, föt, skó, frístunda- tómstundastarf, tryggingar fyrir börn og unglinga, neysluvörur, áskriftir og síma. Hinn hluti framfærslustyrksins á að standa straum af útgjöldum vegna húsnæðis, rafmagns, heimilistrygginga, stéttarfélagsgjalda og atvinnuleysistrygginga.

Annarri fjárhagsaðstoð er ætlað að standa straum af tilfallandi kostnaði, til dæmis vegna gleraugna, lækna, tannlækna og lyfja, umgengni með börnum, flutningskostnaðar og jarðarfara. Mat er lagt á þarfir út frá aðstæðum hvers og eins.

Félagsþjónustan ákvarðar hvort þú eigir rétt á fjárhagsaðstoð eftir að hafa lagt mat á fjárhagsaðstæður þínar. Til að fá fjárhagsaðstoð þarftu að hafa raunverulega þörf á henni og hafa nýtt þér alla aðra möguleika til framfærslu.

Fjárhagsaðstoðin er tímabundin aðstoð sem ætlað er að hjálpa þér framfleyta þér aftur á eigin spýtur. Í lögunum sem gilda um þetta málefni, lögum um félagsþjónustu, er áhersla lögð á að þú berð ábyrgð á aðstæðum þínum.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá fjárhagsaðstoð í Svíþjóð?

Í Svíþjóð er öllum skylt að sjá fyrir sér og sinni fjölskyldu.

Fjárhagsaðstoð á að vera síðasta úrræði þeirra sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum. Lagt er mat á aðstæður hvers og eins þegar sótt er um fjárhagsaðstoð. Fyrst og fremst berð þú ábyrgð á eigin lífi. Það þýðir að þú þarft að reyna að sjá þér farborða á eigin spýtur áður en þú getur fengið aðstoð.

Til þess að eiga rétt á framfærslustyrk þarftu að vera tilbúin(n) til að fara á vinnumarkaðinn ef þú getur unnið.

Ef þú stríðir við veikindi og getur ekki unnið þarftu að sýna fram á það með læknisvottorði um skerta starfsgetu. Ef önnur vandamál koma í veg fyrir að þú getir unnið eða tekið þátt í starfsemi skaltu ræða um það við félagsþjónustuna.

Auk þess þarftu að sækja um almennar bætur og styrki á borð við sjúkradagpeninga (sjukpenning), fæðingarorlofsgreiðslur (föräldrapenning), húsnæðisbætur (bostadsbidrag) og framfærslustyrk (underhållsstöd) hjá sænsku almannatryggingastofnuninni Försäkringskassan.

Fjárhagsaðstoðin á að tryggja þér örugg lífskjör ef þú getur ekki gert það sjálf(ur) með þínum eigin tekjum og annarri félagslegri aðstoð. Aðstoðin er veitt til að þú getir staðið á eigin fótum í framtíðinni.

Þú átt ekki rétt á fjárhagsaðstoð ef þú átt peninga í banka eða aðrar eignir.

Til að félagsþjónustan geti veitt fjárhagsaðstoð þarftu að gera það sem þú getur til að framfleyta þér á eigin spýtur:

  • Þú þarft að vera á skrá hjá vinnumálastofnuninni Arbetsförmedlingen frá því að þú verður atvinnulaus, ef þú ert atvinnulaus. Þú þarft að vera í virkri atvinnuleit og taka að þér vinnu við hæfi sem býðst. Ef þú getur ekki leitað þér að vinnu af heilsufarsástæðum þarf læknir að staðfesta það.
  • Þú þarft að sækja um námsstyrk ef þú ert í námi.
  • Þú þarft að sækja um allar bætur, styrki og greiðslur sem þú getur átt rétt á, svo sem húsnæðisbætur, lífeyrisgreiðslur, sjúkradagpeninga, fæðingarorlofsgreiðslur, barnabætur og örorkulífeyri. Försäkringskassan getur gefið þér nánari upplýsingar um hvernig þú sækir um þessar greiðslur og aðstoðað þig við það.
  • Þér ber skylda til að sækja um aðrar bætur á borð við atvinnuleysisbætur.
  • Þú þarft að nota sparnað þinn eða selja eignir til að framfleyta þér. Ef þú átt bíl þarftu að selja hann ef þú þarft ekki að nota hann vegna vinnu, fötlunar eða sjúkdóms.
  • Þú og maki þinn þurfið að hjálpa hvort öðru í gegnum fjárhagserfiðleika ef þið búið saman, eruð gift eða í skráðri sambúð.
  • Þú og maki þinn þurfið að skipuleggja hvernig farið verður með fjármál ef til skilnaðar kemur. Ef þið eigið börn berð þú ábyrgð á að ákveðið verði um barnabætur eða framfærslustyrk ef börnin búa alfarið hjá þér eða að hluta til.

Þegar þú sækir um fjárhagsaðstoð gerir félagsþjónustan athugun til að meta hvort þú eigir rétt á henni. Í athuguninni er lagt mat á fjárhagslegan bakgrunn þinn og hvort þú uppfyllir skilyrðin sem félagsþjónustan setur.

Þú þarft til dæmis að gefa upplýsingar um húsnæði og fjölskylduaðstæður og allar fjárhagslegar upplýsingar á borð við tekjur, eignir og útgjöld.

Félagsþjónustan getur krafist sönnunar fyrir því að upplýsingar sem þú veitir séu réttar, til dæmis með framvísun leigusamnings eða bankayfirlits.

Hvað eru örugg lífskjör í Svíþjóð?

Á hverju ári ákvarða yfirvöld í Svíþjóð um landsviðmið (riksnorm) um útgjöld fyrir mat, föt, skó, hreinlæti og heilbrigði, frístundir og tómstundir, tryggingar fyrir börn, neysluvörur, áskriftir og símagjöld. Auk þess er viðmiðinu ætlað að ná til útgjalda á borð við húsnæðiskostnað, rafmagn, ferðir vegna vinnu, heimilistryggingar, stéttarfélagsgjöld og lyfseðilsskyld lyf. Landsviðmiðið segir fyrir um hve mikil fjárhagsaðstoð er veitt.

Landsviðmiðið tekur einnig tillit til þess hve margir búa á heimili, aldurs ungra og aldna, hvort börn og unglingar borði hádegisverð heima fyrir og hvort fullorðnir á heimili séu einstæðir eða í sambúð.

Upphæðir fjárhagsaðstoðar eru eins í öllum sveitarfélögum og eru byggðar á landsviðmiðinu.

Hvernig sæki ég um fjárhagsaðstoð í Svíþjóð?

Allir í Svíþjóð eiga rétt á að sækja um fjárhagsaðstoð og fá ákvörðun. Umsóknir skulu afgreiddar eins fljótt og auðið er en engar reglur gilda um hve marga daga afgreiðslan má taka.

Hafðu samband við félagsþjónustu þíns sveitarfélags í Svíþjóð til að sækja um fjárhagsaðstoð. Þá verður þú sett(ur) í samband við félagsráðgjafa sem gerir forathugun á rétti þínum til fjárhagsaðstoðar. Því næst mun félagsráðgjafi kanna og skipuleggja með þér hvernig þú getur aftur náð að framfleyta þér á eigin spýtur.

Þú getur notað einfalda reiknivél heilsu- og velferðarstofnunar Svíþjóðar, Socialstyrelsen, til að sjá hvort fjárhagsstaða þín sé yfir eða undir viðmiðum um fjárhagsaðstoð. Niðurstaðan er þó engin trygging fyrir því að fá fjárhagsaðstoð eða útilokun á fjárhagsaðstoð.

Hvernig kæri ég ákvörðun um fjárhagsaðstoð í Svíþjóð?

Ef umsókn er hafnað að öllu leyti eða að hluta til færð þú skriflega ákvörðun með rökstuðningi fyrir því hvers vegna þú átt ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Ef þú ert ósammála niðurstöðunni getur þú kært ákvörðunina til sænska stjórnsýsludómstólsins.

Ef þú ert óánægð(ur) með meðhöndlun málsins af hálfu þess sem fór með málið getur þú haft samband við stjórnanda félagsþjónustunnar í sveitarfélagi þínu. Ef þú vilt kvarta yfir félagsþjónustunni skaltu hafa samband við eftirlitsstofnun heilbrigðis- og félagsþjónustunnar í Svíþjóð (Inspektionen för vård och omsorg, IVO).

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Ef spurningar vakna er hægt að hafa samband við viðkomandi sveitarfélag.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna