Að starfa sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð

Revideret aftale til gavn for patienter og sundhedspersonale

Revideret aftale til gavn for patienter og sundhedspersonale

Ljósmyndari
Ritzau Scanpix
Hér finnur þú svör við spurningum sem gætu vaknað ef þú ert að íhuga að starfa sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð. Kynntu þér hvernig sótt er um starfsleyfi og vinnu í Svíþjóð og hvernig best er að hátta undirbúningi til að geta starfað innan heilbrigðisþjónustunnar í Svíþjóð.

Margar ástæður geta legið að baki því að starfa í styttri eða lengri tíma í öðru landi. Suma lækna og hjúkrunarfræðinga hefur lengi dreymt um að ferðast, aðrir hafa unnið sér inn frítíma og vilja vinna sér inn aukatekjur og enn aðrir vilja nota tækifærið og bæta við sig þekkingu í öðru landi.

Að starfa í öðru landi gerir hversdagslífið spennandi á ný, kynnir þig fyrir nýrri menningu og gefur mikilvæga reynslu. Á sama tíma þróar þú þig í starfi, lærir nýja hluti og tekst á við nýjar áskoranir. Þú færð einnig nýtt sjónarhorn á heilbrigðiskerfið.

Mörg tækifæri bjóðast til að starfa innan heilbrigðiskerfisins á Norðurlöndum og í Svíþjóð eru margar spennandi starfsleiðir í boði fyrir fólk sem hefur menntað sig á sviði heilbrigðismála og er í leit að nýjum áskorunum. Þú getur því öðlast nýja þekkingu og reynslu og kynnst nýju heilbrigðiskerfi í Svíþjóð til að þróast í starfi.

Sumir ferðast einir og aðrir taka fjölskylduna með. Sumir starfa í stuttan tíma, sumir oft og aðrir í lengri tíma eða flytja jafnvel alfarið til nýja landsins. Það hve lengi fyrirhugað er að dvelja í Svíþjóð hefur áhrif á undirbúninginn. Áður en þú pakkar niður í ferðatöskuna skaltu því undirbúa þig vel.

Leyfi til að starfa sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð

Fyrir sumar atvinnugreinar þarf að sækja um starfsleyfi til þess að starfa í Svíþjóð. Heilsu- og velferðarstofnun Svíþjóðar gefur út sænsk starfleyfi og sérgreinavottorð. Til dæmis þarf að sækja um starfsleyfi til að starfa sem læknir, hjúkrunarfræðingur, lyfjafræðingur í lyfjaverslun, ljósmóðir, næringarfræðingur, sjúkraþjálfari, hnykkjari, talmeinafræðingur, sjóntækjafræðingur, tannlæknir eða sálfræðingur.

Þegar þú hefur lokið menntun sem hjúkrunarfræðingur eða læknir færð þú leyfi til að starfa við slík störf í þínu landi. Þegar þú ætlar að starfa í öðru landi þarftu að sækja um starfsleyfi í því landi.

Ef þú ert ríkisborgari ESB-/EES-ríkis og hefur menntað þig sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í ESB- eða EES-ríki og vilt starfa við þitt fag í Svíþjóð gildir tilskipun ESB um gagnkvæma viðurkenningu lögverndaðra starfsréttinda og þú hefur því rétt á viðurkenningu í Svíþjóð.

ESB-tilskipunin þýðir að ef þú hefur starfsréttindi í einu ESB-/EES-ríki hefur þú einnig rétt til að starfa sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð. Þú þarft engu að síður að sækja um starfsréttindi í Svíþjóð. Læknir og hjúkrunarfræðingur eru lögvernduð starfsheiti og þú getur aðeins starfað sem og kallað þig lækni eða hjúkrunarfræðing í Svíþjóð ef þú hefur fengið starfsleyfi í Svíþjóð.

Ef þú hefur lokið sérmenntun í ESB-/EES-ríki getur þú starfað sem sérfræðingur í Svíþjóð að því gefnu að sérfræðigreinin sé tekin fram í ESB-tilskipuninni og eigi við í Svíþjóð.

Sótt er um starfsleyfi í Svíþjóð hjá heilsu- og velferðarstofnun Svíþjóðar (Socialstyrelsen) og þá þarf að sýna fram á starfsréttindi fyrir viðkomandi fag og nauðsynlega tungumálakunnáttu í sænsku, dönsku eða norsku. Þetta á einnig við um sænska, danska, finnska, íslenska eða norska ríkisborgara.

Til að fá starfsleyfi á grundvelli ESB-tilskipunarinnar þarftu að:

  • vera ríkisborgari norræns ríkis eða ESB-/EES-ríkis
  • hafa menntun sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í norrænu ríki eða ESB-/EES-ríki
  • fylla út umsóknareyðublað og senda það inn rafrænt
  • greiða gjald
  • senda inn gögn sem sýna auðkenni þitt, fæðingardag, menntun, reynslu og starfsstöðu til Socialstyrelsen
  • senda inn afrit af þeim gögnum sem Socialstyrelsen gerir kröfu um
  • senda möguleg viðbótargögn sem Socialstyrelsen biður um.

Þú þarft að uppfylla allar kröfur um fylgigögn og einnig kröfur sem koma fram á eyðublaðinu. Socialstyrelsen byrjar að vinna úr umsókn þinni þegar öll umbeðin gögn hafa borist.

Þegar þú hefur fengið starfsleyfi hefur Socialstyrelsen eftirlit með störfum þínum. Ef þú veldur sjúklingum hættu getur starfssvið þitt verið skert eða þú misst starfsleyfið.

Þú finnur lista yfir allar starfsgreinar innan heilbrigðisgeirans í Svíþjóð sem krefjast starfsleyfis á vefsvæði Socialstyrelsen. Á Your Europe finnur þú upplýsingar um hvernig þú sækir um starfsleyfi og hvaða sérgreinar eru viðurkenndar í ESB-löndunum.

Ef þú laukst námi í landi utan ESB/EES finnur þú upplýsingar um hvernig sótt er um starfsleyfi í Svíþjóð á vefsvæði Socialstyrelsen.

Reynslutímabil (bastjänstgöring) lækna í Svíþjóð

Þann 1. júlí 2021 var reynslutímabil (bastjänstgöring, BT) tekið upp í Svíþjóð. Reynslutímabilið á sér stað eftir að starfsleyfi hefur fengist og er inngangstímabil innan ramma sérfræðiþjálfunar (specialiseringstjänstgöringen, ST). Samkvæmt nýja læknismenntunarkerfinu er starfsleyfi veitt strax eftir próf og því verður starfsnámi (allmäntjänstgöring, AT) smám saman hætt. Reynslutímabilið á einnig við um þá sem hafa lokið menntun í öðru landi.

Evrópskt fagskírteini fyrir hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga og sjúkraþjálfara

Ef þú ert hjúkrunarfræðingur, lyfjafræðingur eða sjúkraþjálfari sem hyggst sækja um viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi getur þú gert það með því að nota evrópska fagskírteinið (European Professional Card, EPC). Evrópska fagskírteinið er hluti af rafrænu ferli sem gerir þér kleift að fá viðurkenningu á starfsréttindum í öðrum löndum innan ESB.

Þetta er auðveldara og fljótlegra en hefðbundin viðurkenning á starfsréttindum og þú getur fylgst með umsókninni á netinu og notað skjölin sem þú hleður upp í öðrum umsóknum fyrir önnur lönd.

Þú getur notað EPC-ferlið ef þú vilt starfa í öðru landi innan ESB tímabundið eða af og til, eða ef þú vilt flytja til annars lands innan ESB til að starfa þar til frambúðar.

Leit að starfi sem læknir eða hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð

Í Svíþjóð geta hjúkrunarfræðingar starfað á mörgum mismunandi vinnustöðum hjá svæðisstjórnum, sveitarfélögum eða einkareknum fyrirtækjum. Sem dæmi má nefna sjúkrahús, heilsugæslumiðstöðvar og við heimaumönnun og umönnun aldraðra eða fatlaðra.

Læknar í Svíþjóð starfa fyrir svæðisstjórnir eða einkarekin fyrirtæki sem svæðisstjórnir eiga í samstarfi við. Sumir læknar starfa einnig við rannsóknir og kennslu eða reka eigin læknastofur.

Upplýsingar um laus störf og vinnustaði í Svíþjóð fást á vefsíðum sveitarfélaga og svæðisstjórna í Svíþjóð og á vefsíðu sænsku vinnumiðlunarinnar, Arbetsförmedlingen. Einnig er hægt að leita að störfum hjá hinu opinbera á „Offentliga jobb“ eða hafa beint samband við vinnuveitendur.

Tegundir ráðninga í Svíþjóð

Þú þarft að ákveða hvernig ráðningarsambandi þó óskar eftir í Svíþjóð. Launa- og ráðningarkjör eru mismunandi eftir ráðningarsambandi. Þú getur fengið ráðningu beint á vinnustað í Svíþjóð eða í gegnum afleysingafyrirtæki eða ráðningarstofu.

Það getur verið einfalt að starfa í gegnum afleysingafyrirtæki eða ráðningarstofu ef þú hyggst ekki starfa lengi í Svíþjóð. Ýmsar sænskar og erlendar stofur eru starfandi.

Þú getur einnig fengið ráðningu í gegnum afleysingafyrirtæki í þínu heimalandi sem finnur vinnu fyrir þig í Svíþjóð. Þá færð þú ráðningu og laun samkvæmt kjörum í heimalandi þínu og getur verið í stéttarfélagi í heimalandinu. Þú þarft að kanna hvort þú þurfir að greiða fyrir ferðalög, ferðatíma, ráðningarþóknun og tryggingar.

Ef þú notfærir þér þjónustu ráðningarstofu færð þú ráðningu á vinnustað í Svíþjóð eða hjá sænsku afleysingafyrirtæki sem sendir þig á vinnustað í Svíþjóð. Þú færð ráðningu og laun samkvæmt sænskum reglum og þarft að sækja um aðild að sænsku stéttarfélagi.

Ef þú hyggst hins vegar starfa í lengri tíma í Svíþjóð gætir þú viljað finna vinnuveitanda á eigin spýtur til að fá beint ráðningarsamband. Þá nýtur þú góðs af gildandi samningum hjúkrunarfræðinga eða lækna á vinnustaðnum og þér eru tryggð viðeigandi starfsskilyrði.

Þú færð upplýsingar um launa- og ráðningarkjör hjá stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga eða lækna í Svíþjóð.

Mikilvægt er að kynna sér kjör og samninga áður en skrifað er undir ráðningarsamning. Íhugaðu starfstilboðið vandlega áður en þú tekur ákvörðun. Þú þarft ekki að gefa svar strax. Þú getur haft samband við stéttarfélag þitt til að fá upplýsingar um afleysingafyrirtæki og ráðningarstofur og ráðningarsamninginn.

Laun hjúkrunarfræðinga og lækna í Svíþjóð

Í Svíþjóð fá læknar og hjúkrunarfræðingar greitt einstaklingsbundnum launakerfum. Þetta þýðir að þú semur um laun við vinnuveitandann.

Þegar þú semur um laun við framtíðarvinnuveitanda þinn í Svíþjóð þurfið þið að ná samkomulagi um launaþrep þitt og þú getur alla jafna fengið starfsreynslu tekna með í reikninginn. Vinnuveitandi þinn í Svíþjóð kann að biðja um gögn sem staðfesta starfsreynslu þína.

Áður en þú samþykkir ráðningu ættir þú að komast að samkomulagi við nýja vinnuveitandann um laun, lífeyri, orlof, orlofsuppbót, vinnutíma, yfirvinnukaup og svo framvegis. Bestu tækifærin til að hafa áhrif á laun eru við ráðningu og þegar skipt er um vinnu og því skaltu setja fram þínar kröfur og halda áfram að leita ef þú ert ekki sátt(ur).

Þar sem laun eru einstaklingsbundin og þrepaskipt eru þau breytileg milli starfsmanna, eftir reynslu og færni.

Yfirmaðurinn þarf að rökstyðja launaviðmiðin, þ.e. hvernig frammistaða, vinnuframlag, árangur og framgangur markmiða hefur áhrif á laun. Vinnuveitandinn þarf einnig að vera með áætlun um launaþróun sem hvetur til og verðlaunar færni, sérfræðiþekkingu, árangur og framlög til starfseminnar.

Upplýsingar um laun, launatölur, launaþróun, launasamninga og ábendingar um launaviðtöl og launaviðræður eru á vefsíðu stéttarfélags hjúkrunarfræðinga, Vårdförbundet, og vefsíðu stéttarfélags lækna, Sveriges läkarförbund.

Atvinnuleysistryggingasjóður í Svíþjóð

Áður en þú ferð til Svíþjóðar skaltu hafa samband við atvinnuleysistryggingasjóð og ganga úr skugga um að þú hafir fengið skráningu og njótir verndar sjóðsins þegar þú starfar í Svíþjóð.

Meginreglan er sú að einstaklingar eiga að vera tryggðir í því landi sem þeir starfa í.

Stéttarfélög í Svíþjóð

Ef þú vilt ganga í stéttarfélag skaltu skrá þig í stéttarfélag hjúkrunarfræðinga eða lækna í Svíþjóð. Meðlimir stéttarfélaga geta fengið ráðleggingar og leiðbeiningar um ráðningarsambandið, gildandi samninga og kjör og fengið aðstoð þegar þú þarft á að halda.

Þú getur haft samband við stéttarfélag þitt í heimalandinu og sagt þeim að þú munir ferðast til Svíþjóðar til að starfa sem læknir eða hjúkrunarfræðingur. Kannaðu einnig hvort þú getir fengið óvirka aðild með lækkuðu félagsgjaldi á meðan þú starfar í Svíþjóð.

Læknafélög á Norðurlöndum hafa gert með sér samning um að læknar og meðlimir stéttarfélaga á Norðurlöndum sem starfa í öðru norrænu landi geta fengið ókeypis þjónustu og lögfræðiaðstoð í því landi í allt að sex mánuði. Þú þarft því ekki að ganga í læknafélagið í Svíþjóð ef þú starfar skemur en sex mánuði í Svíþjóð.

Ef þú hyggst starfa lengur en 6 mánuði í Svíþjóð þarftu að sækja um aðild að sænska læknafélaginu. Þú getur haft samband við það til að fá upplýsingar um hvaða lögfræðiþjónusta er í boði.

Stéttarfélög hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum eiga einnig með sér samstarf til að tryggja góð starfskjör og ráðleggingar um laun, starfsskilyrði, kvartanir sjúklinga og vinnuslys.

Einkatryggingar í Svíþjóð

Tryggingafélag þitt getur gefið þér upplýsingar um stöðu þína vegna vinnu og búsetu í Svíþjóð.

Læknaábyrgðartrygging í Svíþjóð

Þegar þú býrð eða starfar erlendis þarftu að ganga úr skugga um að tryggingar séu í gildi.

Ef þú hyggst starfa í Svíþjóð skaltu kanna hvort vinnuveitandi þinn sjái um að tryggja þig eða hvort þú þurfir sjálf(ur) að útvega þér tryggingu. Þú þarft að athuga hvaða reglur gilda um læknaábyrgðartryggingar og hvernig sjúklingatryggingakerfið virkar fyrir þig áður en þú byrjar að vinna.

Á vinnutíma eru læknar tryggðir af vinnuveitanda. Hafðu samband við stéttarfélag þitt til að fá upplýsingar um læknaábyrgðartryggingu sem ætlað er að tryggja þig utan vinnutíma og aðrar tryggingar sem þér er skylt að taka miðað við aðstæður þínar.

Tryggingar vinnuveitenda í Svíþjóð

Meginreglan er sú ef þú veldur sjúklingi skaða nýtur þú tryggingar vinnuveitanda. Þó geta verið tilfelli þar sem þú nýtur ekki tryggingar og því skaltu alltaf kynna þér tryggingar vinnuveitandans áður en þú ferðast til Svíþjóðar til að starfa þar.

Vinnuslysatrygging í Svíþjóð

Ef þú starfar fyrir vinnuveitanda í heimalandi þínu í gegnum afleysingafyrirtæki í takmarkaðan tíma gildir alla jafna vinnuslysatryggingin í heimalandi þínu. Þessi trygging gildir ef þú slasast í vinnu.

Ef þú vinnur beint fyrir sænskan vinnuveitanda gildir í flestum tilfellum sænskt vinnuslysatryggingakerfi. Þessi tryggingakerfi geta verið mismunandi milli landa og því skaltu kanna hvaða reglur gilda og til hvaða tjóns tryggingar ná til.

Ef þú verður fyrir tjóni skaltu leita til læknis eins fljótt og auðið er til að skjalfesta að þú hafir orðið fyrir vinnuslysi.

Veikindi í Svíþjóð

Þú þarft að kanna hvaða skilyrði eru sett um veikindi í ráðningarsamningi þínum.

Samkvæmt mörgum samningum lausráðinna starfsmanna sem starfa samkvæmt tímakaupi lýkur ráðningarsambandinu ef til veikinda kemur. Þú getur átt viðræður við vinnuveitandann til að semja um að bæta við ákvæði um veikindarétt og rétt til launa þegar til veikinda kemur. Það sem stendur í samningnum þegar þú skrifar undir er það sem gildir.

Skráning í þjóðskrá í Svíþjóð

Ef þú dvelur skemur en í 12 mánuði í Svíþjóð þarf samkvæmt reglum ekki að skrá breytingar í þjóðskrá. Þú þarft þó að athuga þetta hjá þjóðskrá í þínu landi þar sem sérstakar reglur kunna að gilda sem þú þarft að taka tillit til.

Ef þú hyggst starfa lengur en í eitt ár í Svíþjóð þarftu að skrá búsetu þína í þjóðskrá í Svíþjóð.

Dvalar- og atvinnuleyfi í Svíþjóð

Ef þú ert norrænn ríkisborgari og hyggst starfa í Svíþjóð þarftu ekki að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi.

Ef þú ert ríkisborgari í landi innan ESB/EES og hyggst starfa í Svíþjóð hefur þú dvalarrétt í Svíþjóð.

Ef þú ert frá landi utan ESB/EES þarftu að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi.

Bankareikningur í Svíþjóð

Til að fá laun greidd frá atvinnuveitanda þínum í Svíþjóð þarftu að opna bankareikning í Svíþjóð.

Húsnæði í Svíþjóð

​Það getur verið erfitt að finna húsnæði í sumum stórum borgum í Svíþjóð, en þú getur haft samband við sveitarfélög til að fá upplýsingar um hvaða möguleikar standa til boða til að leigja húsnæði.

Þú getur einnig haft samband við væntanlegan vinnuveitanda þinn til að athuga hvort hann geti aðstoðað þig við að finna húsnæði

Almannatryggingar í Svíþjóð

Alltaf skal kanna hvaða land ber ábyrgð á almannatryggingum, sjúkratryggingum, fjölskyldubótum og ellilífeyri þegar flutt er til eða starfað í Svíþjóð.

Lífeyrir í Svíþjóð

Þegar þú starfar í Svíþjóð vinnur þú þér inn lífeyri í Svíþjóð. Reglur um lífeyrissparnað eru þó mismunandi eftir löndum á Norðurlöndum. Því skaltu hafa samband við lífeyrissjóðinn þinn í heimalandi þínu og Pensionsmyndigheten í Svíþjóð til að fá upplýsingar um stöðu þína.

Einnig er gott að biðja vinnuveitandann í Svíþjóð um að upplýsa þig um hvaða lífeyrisgreiðslur hann innir af hendi fyrir þig.

Skattur í Svíþjóð

Upplýsingar um skatta í Svíþjóð á vefsíðu Skatteverket. Þú getur sent inn spurningar um skattlagningu milli norrænna landa á norrænu skattagáttinni, Nordisk eTax.

Tungumálakröfur á vinnustaðnum í Svíþjóð

Socialstyrelsen lítur á dönsku, norsku og sænsku sem jafngild þegar sótt er um starfsleyfi í Svíþjóð.

Spyrðu væntanlegan vinnuveitanda þinn um hvort einhverjar tungumálakröfur séu gerðar. Þú þarft að geta átt í samskiptum við samstarfsfólk þitt og því er best að þú skiljir sænsku og getir gert þig skiljanlega(n) við Svía.

Menningarmunur – að skilja Svíana á vinnustaðnum

Vinnumenning, stjórnun og frítími eru ekki eins alls staðar á Norðurlöndum.

Þegar þú starfar í öðru landi er mikilvægt að þú íhugir hvernig þú getur brugðist við menningarmun og upplifunum á vinnustað og í frítíma. Það þarf meira til en bara réttu menntunina, tungumálakunnáttu og reynslu til að líða vel á vinnustað.

Menningarmunur getur leitt af sér mismunandi vinnumenningu. Bæði stjórnendur og annað starfsfólk geta lent í óvæntum aðstæðum, jafnvel þótt Norðurlöndin eigi margt sameiginlegt.

Við erum stolt af mismunandi hlutum og það er mismunandi hvort við upplifum hvort annað sem yfirborðskennt og aðeins of ört eða allt of hæglátt og íhugult. Þér gæti fundist sænskt samstarfsfólk þitt fara meira eða minna eftir reglum en starfsfólk í heimalandi þínu.

Í Svíþjóð er mikilvægt að vera stundvís, elska fundi og fara í „fika“ á vinnustaðnum – að taka kaffipásur með vinnufélögunum.

Jafnréttismál eru einnig Svíum mikilvæg. Og það er eðlilegt að feður taki sér barneignarleyfi. Foreldrar geta skipt 480 dögum af greiddu barneignarleyfi á milli sín.

Svíar eru óformlegir bæði í fasi og klæðnaði. Og eftir vinnu fer samstarfsfólk oft í „AW“, eða „after work“ til að fá sér drykk.

Svíar upplifa sjálfa sig sem „lagom“, sem þýðir eitthvað á borð við „passlegt“. En Svíar eru þó ástríðufullir þegar kemur að söngvakeppninni, íshokkí, femínisma, náttúrunni og mat úr túbu. Þeir vilja að þú farir helst úr skónum áður en gengur inn, þeir kaupa áfengið sitt í Systembolaget, drekka gott vatn beint úr krananum og greiða aðeins lágt gjald fyrir að fara til læknis.

Biðraðamenning þeirra er ströng og þeir verða afar argir ef þú fylgir henni ekki eða skilur ekki að þú átt að standa hægra megin í rúllustiganum. En þeir láta það ekki í ljós.

Flutt aftur heim frá Svíþjóð

Þú þarft að kanna hvaða reglur gilda um atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar og skatta þegar þú býrð þig undir að flytja aftur heim eftir að hafa starfað í Svíþjóð.

Það er gott að fá skjalfesta staðfestingu á starfstímanum í Svíþjóð. Ef þú ert í stéttarfélagi skaltu hafa samband við það.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna