Norskur ríkisborgararéttur

Statsborgerskap i Norge
Hér geturðu lesið upplýsingar um reglur um norskan ríkisborgararétt eða tvöfaldan ríksiborgararétt fyrir þig og barnið þitt.

Hver öðlast norskan ríkisborgararétt við fæðingu?

Öll börn fædd 1. september 2006 eða síðar verða norsk við fæðingu ef móðir þeirra eða faðir er norskur ríkisborgari. Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1. september 2006 geta kannað hvort þeir séu norskir ríkisborgarar hjá útlendingastofnun (UDI) sem er sú stofnun sem fjallar um ríkisborgararétt í Noregi.

Ef þú ert norsk eða norskur og eignast barn á meðan þú býrð erlendis geturðu sótt um norskt vegabréf hjá sendiráði eða sendiskrifstofu í búsetulandinu.

Norrænn ríkisborgari sem óskar eftir að verða norskur ríkisborgari

Norrænir ríkisborgarar hafa tvær leiðir til að verða norskir ríkisborgarar, með tilkynningu eða umsókn. Frá 1. janúar 2020 verður tvöfalt ríkisfang einnig leyft í Noregi eins og á hinum Norðurlöndunum. Það þýðir að sem norrænn borgari þarft þú ekki lengur að afsala þér öðrum ríkisborgararétti þínum þegar þú sækir eða tilkynnir um norskan ríkisborgararétt.

Þegar sótt er um ríkisborgararétt þarf að leggja fram sakavottorð. Það má nálgast hjá lögreglunni. Þegar sótt er um sakavottorð þarf að tilgreina ástæðu. Ástæðan getur verið „umsókn um ríkisborgararétt“ eða „tilkynning um að fá norskan ríkisborgararétt að nýju“. Umsækjandinn þarf að velja það sem við á.

Að tilkynna ríkisborgararétt

Norrænn ríkisborgari sem hefur náð 18 ára aldri og verið búsettur í Noregi í a.m.k. sjö ár getur tilkynnt um að hann óski eftir ríkisborgararétti. Greiða þarf gjald og framvísa sakavottorði.

Barn undir 18 ára aldri fær sjálfkrafa norskan ríkisborgararétt um leið og foreldrar sínir með tilkynningu, ef barnið er búsett í Noregi.

Einstaklingur sem á norskan föður eða hefur verið ættleiddur af norskum foreldrum fyrir 1. september 2006 getur tilkynnt um ósk sína um ríkisborgararétt á grundvelli föður síns eða ættleiðingarforeldra. Tilkynningin verður að berast áður en viðkomandi verður 18 ára.

Að sækja um ríkisborgararétt

Norrænir ríkisborgarar, 12 ára og eldri, sem hafa búið í Noregi undanfarin tvö ár geta sótt um norskan ríkisborgararétt. Umsækjandi um ríkisborgararétt verður að geta staðfest að hann skilji norsku. Umsækjandi þarf einnig að geta staðfest að hann hafi ekki verið dæmdur til refsingar. Þú þarft því að gera ráð fyrir þeim tíma sem afgreiðsla sakavottorðs tekur hjá lögreglunni.

 

Hvaða réttindi og skyldur fylgja norskum ríkisborgararétti

Norskum ríkisborgararétti fylgja ýmis réttindi og skyldur. Norskur ríkisborgararéttur er skilyrði fyrir kosningarétti og kjörgengi til Stórþingsins. Norskir ríkisborgarar geta þurft að gegna herskyldu, þeir fá norskt vegabréf og rétt til aðstoðar utanríkisþjónustunnar erlendis. Meginreglan er sú að til þess að geta keppt fyrir Noregs hönd í íþróttum eða til að geta fengið námslán þarf norskan ríkisborgararétt. Einnig eru ákveðnar stöður í opinberum geira og innan lögreglunnar og hersins sem krefjast norsks ríkisborgararéttar.

Ríkisborgararéttur hefur lítil eða engin áhrif á flest önnur réttindi og skyldur, s.s. aðild að almannatryggingum, rétt til grunnskólanáms og skattskyldu. Þá skiptir máli hvar þú býrð og/eða starfar.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna