Norsk kennitala

Norsk identitetsnummer
Hér geturðu lesið um tvenns konar kennitölur í Noregi, það er kennitölu og d-númer.

Í Noregi eru tvenns konar kennitölur: Kennitala og d-númer. Kennitölu fær fólk sem býr eða flyst búferlum til Noregs en d-númer er bráðabirgðakennitala.

Hverjir geta fengið norska kennitölu?

Allir sem eru fæddir í Noregi eða með fasta búsetu í landinu eiga að vera með kennitölu. Kennitalan samanstendur af fæðingardegi, mánuði og ári ásamt fimm öðrum tölustofum (samanlagt 11 tölustöfum). Ef þú ert norskur ríkisborgari sem býr í útlöndum en þarft kennitölu til að fá útgefið vegabréf geturðu fengið kennitölu frá Noregi.

Hvernig færðu kennitölu?

Ef þú hyggst búa í Noregi lengur en í sex mánuði þarftu að vera með lögheimili þar. Þá færðu norska kennitölu.Til að skrá lögheimili þitt þarftu að mæta í eigin persónu á eina af fjörutíu og tveimur völdum skattstofum og framvísa gildum persónuskilríkjum og öðrum gögnum.

Ef þú býrð í Noregi og hefur eignast barn þar í landi fær barnið kennitölu þegar Skatteetaten hefur borist tilkynning um fæðinguna frá sjúkrahúsinu.

Flytjir þú síðar frá Noregi til annars lands geturðu haldið kennitölunni þinni.

Hvernig færðu d-númer?

Meginreglan er sú að norrænir ríkisborgarar sem dvelja skemur en sex mánuði í Noregi þurfa ekki að tilkynna um flutning til landsins. Þeir þurfa að fá d-númer til bráðabirgða þegar skilyrði um kennitölu eru ekki til staðar.

Þú getur þurft d-númer til þess að fá skattkort eða stofna bankareikning í Noregi. D-númer geturðu fengið á skattstofu, í banka eða hjá almannatryggingum (NAV).

Þegar þú sækir um d-númer þarftu að framvísa vegabréfi eða með ökuskírteini ásamt vottorði frá þjóðskrá í heimalandi þínu. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja mánaða og þarf að vera stimplað og undirritað hjá þjóðskrá heimalandsins.

Hvers vegna þarftu kennitölu eða d-númer?

Kennitöluna eða d-númerið notarðu í hvert sinn sem þú kemur til Noregs til að vinna. Þú framvísar því þegar þú biður um nýtt skattkort. Ætlir þú að dvelja í Noregi lengur en í sex mánuðir þarftu að skrá flutninginn til Noregs og sækja um kennitölu. Fáir þú kennitölu eftir að hafa fengið d-númer læturðu nægja að nota kennitöluna framvegis.

Opinberar stjórnsýslustofnanir nota kennitölu til að greina á milli einstaklinga á öruggan hátt. Fyrirtæki nota kennitöluna þegar þau skrá tekjur, skuldir, vexti og aðrar greiðslur til Skatteetaten. Dæmi um aðila sem þurfa kennitöluna þína eru atvinnurekendur, almannatryggingar (NAV), gjaldkerar, námslána- og styrkjastofnunin, bankar, tryggingarfélög, húsnæðisfélög en öllum ber þeim að standa skil á gögnum. Skattyfirvöld nota kennitöluna á greiðsluseðla fyrir skattskuldir til að geta greint þig sem skattgreiðanda á öruggan hátt. Sjúkrahús nota kennitölu til að tryggja að þau veiti þér rétta meðferð. Lánshæfimatsfyrirtæki nota kennitölu til að tryggja að þau séu að meta lánshæfi rétts einstaklings.

Viltu fá nánari upplýsingar?

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna