Kosningaréttur í Noregi
Í Noregi fara þingkosningar (til Stórþingsins) fram á fjögurra ára fresti. Kosningar til sveitarstjórna og fylkisþings eru einnig á fjögurra ára fresti en á miðju kjörtímabili Stórþingsins. Í Noregi eru einnig kjörnir fulltrúar á Samaþingið samtímis því að kosið er til Stórþingsins. Á Stórþingið eru kosnir 169 þingmenn en á Samaþingið 39 þingmenn.
Kosningarétt til Stórþingsins hafa eingöngu norskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri fyrir lok kosningaársins og eiga eða hafa einhvern tíma átt lögheimili í Noregi. Ef þú ert norskur ríkisborgari og hefur búið erlendis lengur en í tíu ár þarftu að sækja um að vera tekin/n á kjörskrá áður en þú getur gefið atkvæði þitt.
Kjósendur til Samaþings verða að vera á kjörskrá Samaþingsins og hafa náð 18 ára aldri fyrir lok kosningaársins. Til Samaþingsins kjósa eingöngu Samar og er það skipað Sömum eingöngu. Fólk þarf sjálft að sækja um að vera tekið á samíska kjörskrá. Samar sem eru ríkisborgarar annarra Norðurlanda geta kært sig á kjörskrá ef þeir áttu lögheimili í Noregi 30. júní á kosningaárinu.
Kosningarétt til sveitarstjórna og fylkisþinga hafa norskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri fyrir lok kosningaárs og eru með eða hafa átt lögheimili í Noregi. Ríkisborgarar annarra Norðurlanda sem áttu lögheimili í Noregi í síðasta lagi 30. júní á kosningaárinu hafa einnig kosningarétt. Ríkisborgarar annarra landa sem náð hafa 18 ára aldri fyrir lok kosningaárs og hafa átt lögheimili í Noregi samfleytt undanfarin þrjú ár fyrir kjördag geta einnig kosið.
Einstaklingar sem eru á kjörskrá og með kosningarétt fá kosningakort bréfleiðis frá sveitarfélaginu. Eingöngu kjósendur með lögheimili innanlands fá kosningakort að undanskildum íbúum Svalbarða og Jan Mayen. Á kosningakortinu er gefinn upp opnunartími og sú kjördeild sem þú átt að nota á kosningadaginn.
Hægt er að kjósa þótt kosningakort hafi ekki borist í pósti.
Nokkur sveitarfélög hafa kjörstaði opna í tvo daga en önnur einungis á kjördag. Hægt er að kjósa utan kjörstaðar í öðrum sveitarfélögum og hjá norskum sendiskrifstofum erlendis.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.