Leiðbeiningar: Flutt til Íslands

Flyvende måke
Photographer
Karin Beate Nøsterud/norden.org
Hugleiða þarf ýmis atriði við flutning til Íslands frá einhverjum hinna Norðurlandanna. Að neðan má finna lista yfir atriði sem gott er að muna eftir. Hafa ber þó í huga að listinn er ekki tæmandi og að misjafnt er hvaða atriði eiga við hvern og einn.
Atvinnu-og dvalarleyfi á Íslandi

Norrænir ríkisborgarar þurfa hvorki að hafa atvinnu- né dvalarleyfi til þess að geta búið og starfað á Norðurlöndum. Þeim er þó skylt að fara eftir reglum viðkomandi ríkis um skráningu í þjóðskrá. 

Innflutningur á búslóð

Til að tollfrelsi gildi þarf sá sem flytur til Íslands að hafa búið erlendis í að minnsta kosti tólf mánuði. Búslóðarmunirnir þurfa að vera notaðir og hafa verið í eigu viðkomandi í minnst eitt ár. Eins má ekki líða lengri tími en sex mánuðir frá því að einstaklingur flytur búferlum þar til búslóðin er flutt til landsins.

Við flutning til Íslands er gert er ráð fyrir því að ekki líði lengri tími en 30 dagar milli komu eiganda og ökutækis.  Tollstjóri veitir akstursleyfi til eins mánaðar og er sá tími er ætlaður til þess að ganga fá skráningu á bílnum við Umferðastofu.

Skráning í þjóðskrá

Þeir sem flytja til Íslands frá einhverju Norðurlandanna og búa og starfa á Íslandi lengur en 6 mánuði, eru skyldugir til að flytja lögheimili sitt til landsins. Það er gert með því að fara annaðhvort til Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags og tilkynna flutning.

Bankareikningur og rafræn skilríki

Viðskiptabankar á Íslandi geta gert mismunandi kröfur til þeirra sem hyggjast stofna til viðskipta hjá þeim. Meginreglan er þó sú að þeir sem vilja stofna bankareikning á Íslandi þurfa að hafa bæði íslenska kennitölu og lögheimili á Íslandi.

Allir þeir sem hyggjast nýta sér þjónustu netbanka þurfa að hafa rafræn skilríki. Með rafrænum skilríkjum geturðu sýnt fram á hver þú ert og undirritað samninga og greiðslur hjá yfirvöldum og fyrirtækjum og staðfest hvert þú ert eða kaup þín með lykilorði. Það þarf að sækja um þau sérstaklega. 

Póstur

Hafðu samband við póstskrifstofuna í því landi sem þú ert að flytja frá og kannaðu möguleikann á að áframsenda póstinn þinn til Íslands. 

Húsnæði

Það eru mörg mismunandi búsetuform á Íslandi og misjafn hvað hentar hverjum og einum. 

Ökuskirteini á Íslandi

Nauðsynlegt er að hafa fasta búsetu á Íslandi til þess að fá útgefið ökuskirteini. 

Skattar

Þegar flutt er til Íslands og viðkomandi hefur verið skráður í þjóðskrá skal hafa samband við Ríkisskattstjóra. Einstaklingur sem er skráður til búsetu á Íslandi og starfar þar skal greiða skatta. Á vefsíðu Ríkisskattstjóra má meðal annars finna upplýsingar um sköttun á launum, lífeyri, hlutabréfum, verðbréfum, hlunnindum og sölu eigna.

Meginreglan er sú að greiða á skatt í því landi sem viðkomandi vinnur og aflar tekna. Ekki á að greiða skatt í tveimur ríkjum vegna sömu tekna. Tvísköttunarsamningar sem gilda milli Íslands og flestra EES-landanna kveða á um þetta.

Sjúkratryggingar

Einstaklingar sem flytja frá EES landi eða Sviss og hafa verið tryggðir í almannatryggingakerfi í fyrra búsetulandi eiga rétt á því að vera sjúkratryggðir frá og með þeim degi þegar lögheimili er skráð. Athugið að skila verður inn umsókn um sjúkratryggingu, sjá hér, til að geta fengið sjúkratryggingu frá skráningu í Þjóðskrá. 

Á meðan umsókn er í vinnslu eru einstaklingar ósjúkratryggðir. Þurfi þeir á læknisþjónustu að halda á vinnslutíma umsóknar geta þeir framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu frá fyrra búsetulandi, hafi þeir slík kort, og þá greitt sem sjúkratryggðir, eða greitt sem ósjúkratryggðir og sótt um endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands þegar búið er að samþykkja afturvirka sjúkratryggingu og þá þarf að senda inn umsókn um endurgreiðslu á innlendum sjúkrakostnaði

Ellilífeyrir

Tryggingastofnun aðstoðar þá sem hafa búið á Norðurlöndunum að sækja réttindi sín. Athugið að mismunandi reglur gilda milli landa um hvenær er hægt að byrja að taka ellilífeyri.

Sótt er um íslenskan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun.

Gæludýr

Reglur um innflutning dýra til Íslands eru nokkuð strangar og mikilvægt er að huga snemma að undirbúningi flutnings. 

Kosningaréttur á Íslandi

Íslenskir ríkisborgarar sem orðnir eru 18 ára og með lögheimili á Íslandi geta fengið að kjósa í Alþingis- og forsetakosningum. 

Ríkisborgarar frá öðrum norrænum ríkjum sem eru orðnir 18 ára, hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum að því tilskildu að þeir hafi átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár eða lengur.

Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa haft lögheimili erlendis skemur en 8 ár (talið frá 1. desember árið áður en kosningar eru haldnar) eru sjálfkrafa með kosningarétt á Íslandi. Þeir þurfa að vera orðnir 18 ára á kjördag og hafa einhverntíma átt lögheimili á Íslandi.

Íslenskir ríkisborgarar sem hafa haft lögheimili erlendis lengur en 8 ár (talið frá 1. desember árið áður en kosningar eru haldnar) verða að sækja um til Þjóðskrár Íslands um að verða teknir á kjörskrá. 

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna