Sænskur ellilífeyrir

Svensk alderspension
Hér er að finna upplýsingar um þær reglur sem gilda um ellilífeyri í Svíþjóð. Gefnar eru upplýsingar um hvernig sótt er um að fá sænskan lífeyri greiddan út og hvað á við ef lífeyri var safnað í mörgum mismunandi norrænum löndum.

Í Svíþjóð eru ýmsar tegundir lífeyris. Á þessari síðu er fjallað um ellilífeyri (allmän pension). Flestir sem starfa eða hafa starfað í Svíþjóð eiga rétt á vinnumarkaðslífeyri frá atvinnurekanda og sumir eru þar að auki með eigin lífeyrissparnað.

Ríkið greiðir ellilífeyri og annast Pensionsmyndigheten í Svíþjóð greiðslur hans. Ellilífeyririnn getur verið tekjutengdur lífeyrir, skyldubundinn viðbótarlífeyrir, ellilífeyrir, húsnæðisstyrkur, framfærslubætur til aldraðra og aðstandandalífeyrir.

Þú getur lesið um aðrar tegundir sænsks lífeyris á vefsíðunni um lífeyriskerfið í Svíþjóð.

Réttur til ellilífeyris

Allir sem hafa starfað eða búið í Svíþjóð eiga rétt á ellilífeyri. Lífeyrir miðast við allar tekjur sem þú hefur greitt skatt af. Það á einnig við um atvinnuleysisbætur, veikinda- eða virknibætur og fæðingarorlofsgreiðslur.

Árlega eru dregin 18,5 prósent frá lífeyrisskyldum tekjum, það er launum og öðrum skattskyldum greiðslum sem nema allt að 7,5 prósentum af tekjugrunni ellilífeyris. Sænska lífeyrisstofnunin reiknar út tekjugrunninn en stjórnvöld ákveða upphæð hans á hverju ári. Upphæðin er meðal annars til viðmiðunar við útreikning á hámarkstekjum sem veita lífeyri. Meginhluti 18,5 prósentanna fara í tekjutengda lífeyrinn. Minnihlutinn sem eftir stendur fer í skyldubundna viðbótarlífeyrinn.

Einstaklingar sem hafa lágar eða engar tekjur og hafa verið búsettir í Svíþjóð geta að auki átt rétt á að fá lágmarkslífeyri.

Sjálfstætt starfandi

Sjálfstætt starfandi bera sjálfir ábyrgð á lífeyrissparnaði sínum. Ef þú vilt ávinna þér sambærilegan lífeyri og ef þú værir launamaður þarftu að taka út laun eða hagnað og greiða af því skatta og gjöld. Eins þarftu að bæta upp vinnumarkaðslífeyrinn með eigin sparnaði.

Sjáðu hvað þú færð háan lífeyri

Ef þú ert með sænsk rafræn bankaskilríki (BankID) geturðu skráð þig inn á vefinn pensionsmyndigheten.se og reiknað út hvað þú færð háan lífeyri á mánuði þegar þú nærð lífeyrisaldri. Spáin sýnir ellilífeyri, vinnumarkaðslífeyri og viðbótarlífeyri ef slíkur sparnaður er fyrir hendi. Spáin nær einungis til lífeyrisréttinda sem hafa áunnist í Svíþjóð.

Þú færð einnig ársskýrslu frá Pensionsmyndigheten og öðrum lífeyrissjóðum sem sýna árlegan lífeyrissparnað þinn. Ef þú ert ekki viss um hvort þú eigir vinnumarkaðslífeyri skaltu hafa samband við vinnustaðinn þinn.

Reiknaðu sænskan ellilífeyri út ef þú hefur búið og starfað í fleiri en einu landi

Tekjur í Svíþjóð eru aðeins lagðar til grundvallar við útreikning á sænskum ellilífeyri. Lágmarkslífeyrir getur ráðist af bæði því í hve mörg ár þú hefur stafað eða búið í öðru ESB-/EES-landi og lífeyrinum sem þú færð frá því landi eða frá landi utan ESB/EES.

Greiðslur ellilífeyris

Í Svíþjóð er enginn ákveðinn lífeyrisaldur. Þú getur ákveðið hvenær þú vilt hefja töku lífeyris og hvort þú vilt fá allan eða hluta lífeyrisins greiddan. Frá árinu 2023 geta einstaklingar sem fæddir eru 1961 og 1962 þó fyrst fengið sænskan lífeyri greiddan út þegar þeir hafa náð 63 ára aldri.

Það hvenær þú byrjar að taka út lífeyri hefur mikil áhrif á það hve mikinn lífeyri þú færð. Frá árinu 2023 eiga allir rétt á að vinna til 69 ára aldurs. Ef þú vilt vinna lengur en það þarf vinnuveitandi þinn að samþykkja það.

Hvernig sækir einstaklingur sem er búsettur í Svíþjóð um lífeyri frá Svíþjóð og öðrum norrænum ríkjum?

Einstaklingur sem er búsettur í Svíþjóð en hefur starfað í öðrum löndum getur sótt um lífeyri í þeim löndum gegnum pensionsmyndigheten.se eða með eyðublaði. Einstaklingar sem hafa starfað í fleiri löndum ættu að sækja um sex mánuðum áður en þeir hyggjast taka við fyrstu lífeyrisgreiðslunni. Einstaklingar sem eingöngu hafa starfað í Svíþjóð þurfa að sækja um þremur mánuðum áður en þeir hyggjast taka við fyrstu greiðslunni.

Ellilífeyrir er greiddur til æviloka.

Hvernig sækir einstaklingur sem er búsettur í öðru norrænu ríki um ellilífeyri frá Svíþjóð?

Einstaklingur sem er búsettur í norrænu ríkjunum eða hefur verið almannatryggður gegnum starf í því landi sem hann er nú búsettur í, skal hafa samband við lífeyrisstjórnvaldið í því landi sem við á til þess að sækja um lífeyri frá Svíþjóð.

Erlenda lífeyrisstjórnvaldið sendir umsóknina til Pensionsmyndigheten í Svíþjóð þar sem réttindi viðkomandi eru könnuð og ellilífeyririnn greiddur. Málsmeðferðartími frá því að umsókn berst til Pensionsmyndigheten þar til viðkomandi fær fyrstu lífeyrisgreiðsluna er yfirleitt um fjórir mánuðir en í einhverjum tilvikum getur þetta tekið sex mánuði eða meira.

Hægt er að flytja allan lífeyri sem hefur áunnist í Svíþjóð úr landi – bæði ellilífeyri (almennan lífeyri) og mögulegan vinnumarkaðslífeyri (tjänstepension).

Þú gætir átt rétt á sænskum lágmarkslífeyri ef þú hefur litlar eða engar atvinnutekjur og býrð í Svíþjóð. Ef þú flytur til annars lands missir þú rétt þinn til lágmarkslífeyris og hættir að fá hann greiddan út.

Mikilvægt er að tilkynna flutninga til Pensionsmyndigheten.

Má taka með sér ellilífeyri til annars norræns lands?

Hægt er að flytja allan lífeyri sem hefur áunnist í Svíþjóð úr landi – bæði ellilífeyri (almennan lífeyri) og mögulegan vinnumarkaðslífeyri (tjänstepension).

Þú gætir átt rétt á sænskum lágmarkslífeyri ef þú hefur litlar eða engar atvinnutekjur og býrð í Svíþjóð. Ef þú flytur til annars lands missir þú rétt þinn til lágmarkslífeyris og hættir að fá hann greiddan út.

Hvernig er ellilífeyrir greiddur við andlát?

Þegar náinn aðstandandi fellur frá er hægt að fá fjárhagsaðstoð í formi aðstandandalífeyris. Aðstandandalífeyrir er liður í ellilífeyrinum og samanstendur af barnalífeyri (barnpension), breytingalífeyri (omställningspension) og ekkjulífeyri. Réttindi viðkomandi velta á því hvort hann er undir átján ára aldri eða maki hins látna.

Sænskar dánarbætur miðast við aðstæður í Svíþjóð og eru hugsaðar sem fjárhagsleg trygging til að greiða þá framfærslu sem hinn látna/hin látna tók þátt í. Forsenda þess að eiga rétt á sænskum dánarbótum er að hinn látni/hin látna hafi einhvern tíma starfað eða búið í Svíþjóð.

Aðstandandalífeyrir er eingöngu byggður á lífeyrisgrunni sem hinn látni/hin látna ávann sér í Svíþjóð. Ekki er um að ræða fasta upphæð sem allir eiga rétt á. Ef lífeyrisréttindi hins látna/hinnar látnu voru lítil í Svíþjóð eru dánarbætur lágar að sama skapi. Þá skiptir ekki máli hvort eftirlifandi aðstandandi fær lágan eða engan lífeyri í landinu sem hann/hún býr í.

Hvar á að greiða skatt af sænskum ellilífeyri sem einstaklingur sem er búsettur erlendis fær greiddan?

Einstaklingur sem á heima erlendis en fær lífeyri frá Svíþjóð borgar yfirleitt sérstakan tekjuskatt fyrir fólk sem er búsett erlendis (SINK) SINK-skattur er annað hvort 0% eða 25% af tekjum viðkomandi. Skatturinn reiknast af mánaðarlegum greiðslum eftir frítekjumark. Aðeins er greiddur skattur af þeim hluta lífeyrisins sem er yfir frítekjumörkunum.

Hvaða reglur gilda um eldri borgara á vinnumarkaði?

Heimilt er að hefja töku á sænskum lífeyri frá þeim mánuði sem þú verður 63 ára. Hægt er að taka út ellilífeyri að hluta eða allan, 25 prósent, 50 prósent, 75 prósent eða 100 prósent. Þá er hægt að vera á lífeyri og í vinnu samtímis og ef aðstæður breytast og viðkomandi óskar eftir því að byrja aftur að vinna fulla vinnu er hægt að rjúfa töku lífeyris. Aðrar reglur geta gilt um vinnumarkaðslífeyrinn.

Frá árinu 2023 hefur fólk rétt til að starfa þar til það nær 69 ára aldri. Ef þú vilt vinna lengur en það þarf vinnuveitandi þinn að samþykkja það.

Skattar lækka ef taka lífeyris hefst seinna. Einstaklingur sem heldur áfram að vinna í stað þess að hefja töku lífeyris greiðir lægri skatta en hann gerði áður. Þetta á við frá því ári sem viðkomandi verður 67 ára.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Nánari upplýsingar

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna