Dauðsföll, arfur og erfðaskrár í Svíþjóð

Kiste i rustvogn
Ljósmyndari
Panyawat Auitpol / Unsplash
Hér getur þú fundið upplýsingar um allt frá dánarvottorðum til útfara í Svíþjóð. Kynntu þér hvernig málum er háttað varðandi útfarir, útfararstyrki, dánarbú, arf, erfðaskrár, fjárhagsaðstoð og reglur um flutning líks eða duftkers til og frá Svíþjóð.

Það þarf að huga að mörgu þegar einhver nákominn fellur frá, meðal annars lögfræðilegum atriðum, og því er mikilvægt að skilja bæði ferlið og lögin, hvers má vænta og hvernig skal bregðast við ýmsum þáttum í slíkum aðstæðum.

Þessi grein er bæði ætluð þeim sem vilja tryggja öryggi fjölskyldu sinnar eftir eigið fráfall og þeim sem þurfa að búa sig undir fráfall aðstandanda.

Sænsk lög og ráðleggingar við dauðsföll

Sænskum lögum um dauðsföll, arf og erfðaskrár er ætlað að standa vörð um hagsmuni fjölskyldna og virða óskir hins látna.

Fráfall aðstandanda er erfitt tímabil en það getur létt byrði af þér og fjölskyldu þinni að vita hvaða reglur gilda um dauðsföll, arf og erfðaskrár. Samblanda lagareglna og persónulegra óska getur tryggt að þínir nánustu njóti öryggis og að óskir þínar verði uppfylltar þegar þín nýtur ekki lengur við.

Hvað gerist við dauðsfall í Svíþjóð?

Mikilvægt er að vita hvernig tilkynnt er um dauðsföll og hvernig þau eru skráð í Svíþjóð, hvaða hlutverki læknar, lögregla og Skatteverket gegna í ferlinu og að hverju þarf að huga þegar aðstandandi fellur frá í Svíþjóð.

Ferli og formsatriði við dauðsfall í Svíþjóð

Þegar einstaklingur deyr í Svíþjóð þarf að fylgja nokkrum skrefum til að bregðast rétt við:

 1. Dánarvottorð: Ef dauðsfall á sér ekki stað á sjúkrahúsi þarf að hafa samband við lækni sem getur lýst yfir andláti og gefið út dánarvottorð („dödsbevis“). Dánarvottorðið er nauðsynlegt til að hefja réttarfarsleg og stjórnsýsluleg ferli.
 2. Tilkynning og skráning dauðsfalls: Þegar dauðsfall hefur verið staðfest tilkynnir læknirinn það til Skatteverket og eftir atvikum einnig til lögreglu. Skatteverket mun skrá dauðsfallið og þá er hægt að panta dánarvottorð með upplýsingum um erfingja („dödsfallsintyg“).
 3. Jarðarför eða líkbrennsla: Fjölskyldan þarf að velja um jarðarför eða bálför fyrir hinn látna. Þetta val hefur áhrif á það hvernig athöfnin og síðari meðhöndlun ganga fyrir sig. Samkvæmt lögum um jarðarfarir þarf jarðsetning kistu eða líkbrennsla að fara fram innan mánaðar frá andláti. Bíða má í allt að eitt ár með að jarðsetja öskuna.
 4. Skipulag jarðarfarar: Ættingjar og vinir koma yfirleitt saman í jarðarför, sem getur verið trúarleg eða ókirkjuleg, til að deila sorgum sínum og minningum.

Útfarir og útfararstyrkir í Svíþjóð

Mikilvægt er að skilja útfararferlið, valkosti og hvaða reglur gilda um útfararstyrki.

Hvað þarf að gera?

 1. Hafa samband við útfararstjóra: Veldu þér útfararstjóra (útfararþjónustu) sem getur hjálpað þér að skipuleggja útförina. Hann mun sjá um að sinna formsatriðum, skipulagningu og samræmingu við kirkju eða kapellu.
 2. Hafa samband við kirkju: Ef óskað er erfir kirkjulegri útför þarf að hafa samband við viðkomandi kirkju. Hún mun leiðbeina þér í gegnum skipulagningu athafnarinnar.
 3. Skjöl og leyfi: Gættu þess að hafa persónuleg skjöl hins látna til reiðu, þar á meðal dánarvottorð og, ef við á, erfðaskrá. Útfararstjórinn getur aðstoðað með umsóknir um útfararleyfi og önnur nauðsynleg leyfi.

Í Svíþjóð þarf jarðsetning eða líkbrennsla að fara fram innan mánaðar frá andláti. Alla jafna eru það aðstandendur hins látna sem skipuleggja útförina. Ef hinn látni hefur látið í ljós óskir er mikilvægt að taka tillit til þeirra við skipulagningu, svo sem óskir um gröf, öskudreifingu eða jarðsetningu duftkers í minnisgarði.

Söfnuðir og prestaköll sænsku kirkjunnar bera ábyrgð á útfararstarfsemi í Svíþjóð, að undanskildum Stokkhólmi og Tranås, þar sem sveitarfélagið er ábyrgt. Allir einstaklingar sem hafa lögheimili í Svíþjóð greiða útfarargjald á hverju ári. Útfarargjöld standa meðal annars straum af kostnaði við viðhald kirkjugarða, líkbrennslu og jarðsetningu, en skipulagi við útfarir einstaklinga.

Ef hinn látni var í sænsku kirkjunni er útfararathöfnin innifalin í kirkjuskattinum. Ef hinn látni var ekki meðlimur er hægt að skipuleggja útför í kirkjunni gegn gjaldi og ef slíkt er í samræmi við óskir hins látna.

Ef hinn látni vildi borgaralega útför í Svíþjóð getur útfararstjórinn aðstoðað við skipulagningu athafnar sem er ekki trúarleg en engu síður þýðingarmikil og virðingarfull. Borgaralegar útfarir eru vinsælar í Svíþjóð og gefa tækifæri til að eiga persónulega kveðjustund án trúarlegra þátta.

Hver greiðir fyrir útfarir í Svíþjóð?

Útfararkostnaður í Svíþjóð er yfirleitt greiddur með eignum eða tryggingum hins látna, ef einhverjar eru. Mundu því að geyma kvittanir fyrir útgjöld í tengslum við útförina.

Ef eignir og tryggingar hins látna nægja ekki til að standa straum af útfararkostnaði er í vissum tilfellum hægt að fá fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum. Slík fjárhagsaðstoð er veitt aðstandanda eða þeim sem hefur tekið að sér að bera ábyrgð á útför.

Hægt er að sækja um fjárhagsaðstoð hjá félagsmálaþjónustu viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélagið getur veitt styrk fyrir einfalda en virðingarfulla útför og dánartilkynningu.

Fjármunir dánarbúsins á dánardegi og möguleg innkoma eftir dánardag segja fyrir um hvort fjárhagsaðstoð er veitt og hve mikil hún er. Upphæðin getur verið breytileg milli sveitarfélaganna í Svíþjóð.

Styrkurinn stendur ekki straum af öðrum gjöldum sem dánarbúið þarf að greiða eftir dánardag. Til að bregðast við þessu ætti sá sem ber ábyrgð á dánarbúinu að íhuga að:

 • Gera mat á fjármununum til að sjá hvort þeir nægi til að greiða útfararkostnað.
 • Greiða ekki reikninga áður en haft er samband við félagsmálaþjónustu.
 • Hafa samband við félagsmálaþjónustu áður en útför er bókuð.
 • Segja upp öllum sjálfvirkum greiðslum hjá banka eða viðtakendum greiðslna.
 • Segja upp föstum millifærslum hjá banka.

Þegar einstaklingur deyr færast allar eignir og skuldir viðkomandi yfir í dánarbú. Ef skuldirnar eru meiri en eignirnar er ekki hægt að greiða allar skuldirnar. Erfingjar erfa ekki skuldir. Skuldir sem ekki er hægt að greiða með eignum úr dánarbúi eru afskrifaðar.

Ef þú þarft á aðstoð að halda við umsjón dánarbús eða hefur spurningar varðandi skipti dánarbús og arf gætir þú þurft að hafa samband við lögfræðing sem fæst við erfðarétt.

Hvað er dánarbú og hvað þarf að gera?

Sama dag og einstaklingur deyr færast allar eignir, samningar og skuldir einstaklingsins yfir í dánarbú. Dánarbúið inniheldur því alla fjármuni og eignir hins látna og getur til dæmis samanstaðið af húsi, skartgripum og bíl.

Dánarbúi er slitið þegar skiptum er lokið, það er þegar eignum hins látna hefur verið skipt milli erfingja.

Eftirlifendur þurfa að ákveða hvort þeir vilji sjálfir sjá um dánarbúsuppgjörið eða fá til þess aðstoð fagmanns, og þurf að kanna hvort hinn látni hafi haft einhverjar sérstakar óskir um hver skuli hafa umsjón með því.

Þetta þarf dánarbúið að gera:

 • Tilkynna um dauðsfallið
 • Skipuleggja útför – hún þarf að fara fram innan mánaðar
 • Senda dánarbúsuppgjör til Skatteverket innan 4 mánaða
 • Skýra erfðaröð og skiptingu arfs
 • Loka reikningum og segja upp samningum
 • Ganga úr skugga um að Skatteverket hafi rétt heimilisfang
 • Skila tekjuskrá fyrir búið í síðasta lagi 1. maí

Hvað er uppgjör á dánarbúi?

Þegar einstaklingur deyr þarf að gera upp dánarbú. Uppgjör dánarbús er uppgjör á fjárhagslegum þáttum dánarbúsins, eftir að gjöld hafa verið greidd og eignir eldar eða færðar til erfingja.

Yfirleitt eru það aðstandendur sem sjá um meðhöndlun dánarbús og úthlutun arfs en erfingjar geta einnig fengið aðstoð frá útfararþjónustu eða lögfræðingi. Skiptastjóri dánarbús („boutredningsman“) ber ábyrgð á að fá útgefna staðfestingu á uppgjöri dánarbús („bouppteckning“).

Eftir uppgjör dánarbús skal gera erfirfarandi:

 • Eignir eru gerðar upp ef hinn látni var í sambúð en ekki giftur.
 • Erfðaraðarskjal er fyllt út ef erfingjar eru margir.
 • Dánarbúsuppgjörið er sent til Skatteverket. Því skal skilað innan 4 mánaða frá andláti.
 • Dánarvottorð með ættarrannsókn er pantað hjá Skatteverket eða útfararþjónustu.

Sækja má eyðublað og bækling um uppgjör dánarbús á vefsíðu Skatteverket.

Arfur og reglur um arf í Svíþjóð

Í Svíþjóð er fyrst og fremst mælt fyrir um reglur um arf í erfðalögum. Ef hinn látni hafði gert erfðaskrá þarf héraðsdómur að fá hana í hendur. Ef erfðaskrá er ekki til staðar mæla erfðalög fyrir um skipti eigna og skulda. Þegar einstaklingur deyr skiptast eignir yfirleitt samkvæmt eftirfarandi:

 1. Kostnaður vegna uppgjörs dánarbús og skiptagjald: Áður en hægt er að skipta arfi þarf að greiða kostnað vegna uppgjörs dánarbús og skiptagjald.
 2. Erfðaflokkar: Erfðalög skipta erfingjum í mismunandi flokka. Í fyrsta flokki eru eftirlifandi börn og barnabörn. Ef enginn er í fyrsta flokki fellur arfur til foreldra og systkina hins látna í öðrum flokki, o.s.frv.
 3. Arfur og erfðaskrá: Ef engin erfðaskrá er til staðar fylgir arfurinn erfðalögum. Ef hinn látni hafði gert erfðaskrá þarf að fylgja henni. Erfðaskrár skulu vera skriflegar og undirskrifaðar og dagsettar í viðurvist tveggja votta.

Ef eftirlifendur og erfingjar ná ekki samkomulagi getur héraðsdómur skipað fulltrúa fyrir uppgjör dánarbús eða skiptastjóra.

Sænskar reglur um arf

Mælt er fyrir um þær reglur sem gilda um arf í Svíþjóð í sænsku erfðalögunum, Ärvdabalken. Reglurnar í Ärvdabalken gilda um arf þegar engin erfðaskrá er fyrir hendi.

Lesa má almennar reglur um arf á vefsíðu sænsku dómstólanna og á vefsíðu Skatteverket.

Þegar einstaklingur deyr er eftirlifandi maki viðkomandi ofar í erfðaröð en sameiginleg börn þeirra. Sameignleg börn þeirra fá sinn arf þegar hitt foreldrið fellur einnig frá. Sameiginleg börn eiga rétt á eftirarfi og eru því erfingjar foreldrisins sem féll fyrst frá.

Ef einstaklingur deyr án þess að skilja eftir sig maka sem hann var giftur eða í skráðri sambúð eiga nánustu aðstandendur hans rétt á arfi. Ættingjum hins látna sem eiga rétt á arfi er skipt í erfðaflokka.

Ef sænskur ríkisborgari sem býr erlendis hefur ekki gert erfðaskrá og gefið til kynna að hann vilji að sænskum erfðareglum skuli fylgt í alþjóðlegum aðstæðum gilda hin sænsku erfðalög (Ärvdabalken) ekki.

Erfðagjald í Svíþjóð

Ekkert erfðagjald er í Svíþjóð.

Reglur um arfur í alþjóðlegum aðstæðum

Þegar einstaklingur deyr eru það stofnanir í því landi sem hann var búsettur sem hafa umsjón með málefnum dánarbús.

Sænskur skiptaréttur tekur aðeins til meðferðar dánarbú einstaklinga sem höfðu fasta búsetu í Svíþjóð.

Reglur um arf á Norðurlöndum

Reglur um arf og skipti eru mismunandi milli landa. Reglurnar nokkuð áþekkar á Norðurlöndum en þær eru engu að síður mismunandi.

Þú getur kynnt þér arf og skipti í Norðurlandasamningnum milli Noregs, Danmerkur, Finnlands, Íslands og Svíþjóðar um arf og skipti dánarbúa og auðskiljanlegar upplýsingar um arf í alþjóðlegum aðstæðum er að finna hjá Swedenabroad.

Hafðu samband við Skatteverket til að fá nánari upplýsingar um arf í alþjóðlegum aðstæðum.

Í erfðamálum í öðrum löndum er hægt að ráða lögfræðing á staðnum.

ESB-reglur um arf

Eftir því sem landamæri heimsins hafa opnast hafa erfðamál í fleiri tilfellum fengið alþjóðlega tengingu. Tilskipun ESB um arf miðar að því að koma í veg fyrir tvöfalda meðhöndlun arfs og að auðvelda ferlið fyrir alla aðila. Það hvaða lög og dómstólar gilda ræðst af reglum tilskipunarinnar um arf.

Samkvæmt samningum innan ESB-réttar skulu lög þess lands sem hinn látni átti búsetu í við andlát gilda um allan arfinn. Tilskipun ESB um arf merkir því að sænsk lög gilda um arf í þeim tilfellum þegar einstaklingar voru búsettir í Svíþjóð við andlát.

Upplýsingar er að finna í lögum (2015:417) um arf í alþjóðlegum aðstæðum.

Evrópskt erfðavottorð

Til þess að staðfesta arf í öðru ESB-ríki er hægt að fá evrópskt erfðavottorð („europeiskt arvsintyg“). Erfðavottorðið gildir í öllum ríkjum ESB öðrum en Danmörku og Írlandi.

Tilgangur erfðavottorðsins er að auðvelda ferlið fyrir bæði erfingja og aðra sem koma að erfðamálum, svo sem skiptastjórum („boutredningsmän“). Það getur þurft að nota það ef millifæra þarf peninga frá bankareikningi í öðru landi. Í stað þess að framvísa dánarbúsuppgjöri eða samsvarandi skjali er erfðavottorðinu þess í stað framvísað.

Sjá nánari upplýsingar um evrópsk erfðavottorð á vefsíðu Skatteverket.

Erfðaskrár fyrir sænska ríkisborgara sem eru búsettir erlendis

Mikilvægt fyrir þau sem hafa fasta búsetu erlendis að útbúa erfðaskrá. Í erfðaskránni þarf að lýsa því yfir að fylgja skuli sænskum lögum við skiptingu arfs, ef þess er óskað.

Ef þú ert með tvöfalt ríkisfang getur þú valið hvorum lögunum á að fylgja. Því er ekki hægt að velja lög annars lands en þess sem þú hefur ríkisborgararétt í.

Sænsk lög um erfðaskrár mæla fyrir um ýmsar kröfur varðandi form erfðaskráa. Til að erfðaskrá teljist gild þarf hún að vera skrifleg, hafa tvo votta sem sjá þig undirrita hana og sem einnig undirrita sem vottar, og vottarnir verða að skilja að um erfðaskrá sé að ræða. Einnig skal leitast við að hafa erfðaskrár sem nákvæmastar og taka tillit til mögulegs arfs og annarra eigna í öðrum löndum.

Ef hinn látni hafði útbúið erfðaskrá gildir hún í stað laga um arf. Þó gilda takmarkanir sem fela í sér að lögerfingjar hins látna (börn, barnabörn o.s.frv.) eiga alltaf rétt á hluta arfsins.

Með því að gera erfðaskrá getur þú mótað hvernig eignum þínum verður skipt eftir andlát þitt. Hér eru nokkur mikilvæg atriði um erfðaskrár í Svíþjóð:

 1. Erfðaskrá eða erfðalög: Erfðaskrá gerir þér kleift að bregða frá lögum um arf og veita arf til einstaklinga sem ættu annars ekki rétt á arfi. Einnig er hægt að tilgreina óskir um útför, forráðamenn ólögráða barna o.s.frv.
 2. Gildi: Erfðaskrár skulu vera skriflegar og undirritaðar í viðurvist tveggja votta. Vottarnir undirrita skjalið einnig. Dagsetningin skiptir máli því hún segir fyrir um gildi erfðaskráarinnar, ef margar útgáfur eru til.
 3. Breytingar: Hvenær sem er má breyta eigin erfðaskrá. Mikilvægt er að uppfæra erfðaskrár ef breytingar verða á óskum eða lífsaðstæðum.
 4. Skráning: Í Svíþjóð er ekki hægt að skrá erfðaskrá hjá opinberum yfirvöldum á borð við Skatteverket. Passaðu að geyma frumrit erfðaskrár á öruggum stað.

Tvöfalt ríkisfang

Tilskipun ESB um arf hefur einfaldað meðferð ýmissa mála sem mörg lönd koma að, bæði fyrir erfingja og viðtakendur erfðaskráa. Samkvæmt tilskipuninni hefur einstaklingur sem er ríkisborgari fleiri en eins lands rétt til að velja reglum hvaða lands skuli fylgja fyrir arf sinn. Þetta val má taka fram í erfðaskrá, óháð því hvar hún er gerð.

Ef ríkisborgari ESB-/EES-ríkis velur ekki lög eins lands í erfðaskrá sinni gilda lög þess lands sem hinn látni lést í eða hafði mesta tengingu við.

Sænskir ríkisborgarar sem búa í öðru norrænu landi skulu útbúa erfðaskrá sem mælir fyrir um að fylgja skuli sænskum erfðalögum ef þeir vilja að arfi verði skipt samkvæmt sænskum lögum.

Nánari upplýsingar um sænskar erfðaskrár er að finna á vefsvæði sænsku dómstólanna.

Dauðsföll í útlöndum

Ef sænskur eða erlendur ríkisborgari sem hefur verið skráður með lögheimili í Svíþjóð deyr í öðru norrænu landi tilkynnir erlenda sendiráðið eða ræðismaður alla jafna um dauðsfallið til Skatteverket. Ef það gerist ekki skulu aðstandendur hins látna tilkynna Skatteverket og Pensionsmyndigheten í Svíþjóð ef hinn látni þáði lífeyri frá Svíþjóð.

Sendiráð viðkomandi lands getur veitt aðstandendum hjálp og stuðning. Það getur falið í sér að hafa samband við stofnanir í landinu, gefa ráðleggingar um nauðsynleg skjöl og skráningu dauðsfallsins.

Ef sænskur ríkisborgari lætur lífið erlendis getur sendiráðið veitt aðstoð við að:

 • Útvega upplýsingar um atburðinn frá yfirvöldum landsins.
 • Gefa ráð um nauðsynleg skjöl fyrir flutning hins látna til heimalandsins.
 • Gefa ráð um útför í landinu.
 • Skrá dauðsfallið hjá Skatteverket.

Ef trygging er til staðar veitir neyðarþjónusta tryggingafélagsins yfirleitt aðstoð með praktísk atriði í tengslum við dauðsfallið. Þetta getur til dæmis verið að greiða fyrir flutning hins látna til heimalandsins.

Ef engin trygging er fyrir hendi getur sendiráðið veitt aðstandendum ráðleggingar um flutning líksins til heimalandsins eða útför á staðnum. Slíkur kostnaður greiðist af aðstandendum. Sendiráðið veitir ekki lán fyrir slíkum útgjöldum.

Flutningur líks eða duftkers til og frá Svíþjóð

Ef einstaklingur deyr í öðru landi fulla stofnanir þess lands út dánarvottorðið. Aðstandendur ættu því næsta að hafa samband við sendiráð eða ræðismann. Sendiráðið eða ræðismaðurinn getur gefið ráðleggingar og leiðbeint um mögulegan flutning kistu eða kers til heimalandsins.

Ef ekki á að brenna líkið fyrir flutning til heimalandsins þurfa yfirvöld að gefa út fylgiskjal fyrir líkflutning („ligpas“). Það tryggir að heilbrigðiskröfur og stjórnsýslulegar kröfur fyrir flutning hafi verið uppfylltar.

Við flutning frá Svíþjóð til útlanda þarf Skatteverket í Svíþjóð að gefa út fylgiskjalið fyrir líkflutning („passersedel för lik“). Við flutning til Svíþjóðar þarf fylgiskjalið að vera gefið út af lögbærum yfirvöldum dánarlandsins. Sérstakar kröfur eru gerðar um hönnun kistunnar, sem þarf að vera þétt og sterkbyggð.

Það getur verið mjög dýrt að flytja hinn látna heim í kistu og því velja margir líkbrennslu í dánarlandinu til að fá duftkerið síðar sent til heimalandsins.

Ekki er gerð krafa um fylgiskjal fyrir líkflutning þegar aska er flutt til eða frá öðrum löndum eða fyrir líkflutninga innan landamæra Svíþjóðar. Þó þarf að tilkynna Skatteverket ef fyrirhugað er að flytja ösku til Svíþjóðar og panta fylgiskjal („passersedel“) frá Skatteverket fyrir flutning ösku frá Svíþjóð til annarra landa.

Á vefsíðu Skatteverket er að finna upplýsingar um líkflutninga og flutning öskju til og frá Svíþjóð.

Nánari upplýsingar í tengslum við dauðsfall aðstandanda

Sænsk yfirvöld hafa útbúið leiðbeiningar fyrir eftirlifendur. Þær innihalda upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði í Svíþjóð til að vinna úr sorg og mögulega fjárhagsaðstoð í tengslum við dauðsföll.

Leiðbeiningunum er ætlað að veita skýrar upplýsingar og leiðsögn á tilfinningaríkum tímum þegar erfitt getur verið að henda reiður á hinum ýmsu þáttum sem þarf að sinna vegna dauðsfalls í Svíþjóð.

Dánarbætur og fjárhagsaðstoð fyrir eftirlifandi aðstandendur

Ef maki þinn eða sambýlingur fellur frá gætir þú í vissum kringumstæðum átt rétt á fjárhagsaðstoð. Mikilvægt er að kanna hvað á við fyrir þínar aðstæður:

 • Kannaðu hvort þú eigir rétt á dánarbótum hjá Pensionsmyndigheten.
 • Kannaðu hvort þú eigir rétt á fjárhagsaðstoð með hóptryggingu hjá vinnuveitanda hins látna.
 • Kannaðu hvort þú eigir rétt á fjárhagsaðstoð í gegnum tryggingar.
 • Kannaðu hvort þú eigir rétt á húsnæðisstyrk hjá Försäkringskassan. Einstaklingar þurfa að sækja um þetta sjálfir.
 • Kannaðu hvort þú sem lífeyrisþegi eigir rétt á húsnæðisstyrk fyrir lífeyrisþega hjá Pensionsmyndigheten. Einstaklingar þurfa að sækja um þetta sjálfir.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Hafðu samband við sendiráð þitt, sveitarfélag hins látna eða einhverjar þessara stofnana til að fá upplýsingar um hvað á við um þínar aðstæður:

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna