Stéttarfélög í Noregi

Fagforeninger i Norge
Hér geturðu lesið meira um stéttarfélög og landssambönd þeirra í Noregi.

Stéttarfélagið á þínu sviði getur veitt þér upplýsingar um laun og ráðningarkjör sem þú átt rétt á í Noregi. 

Stéttarfélög, landssambönd þeirra og heildarsamtök launafólks

Stéttarfélög eru félagasamtök launafólks í sömu starfsgrein eða atvinnugrein. Þau vinna að bættum réttindum og vinnukjörum félagsmanna og gegna mikilvægu hlutverki í kjarasamningaviðræðum.

Stéttarfélög mynda stærri landssambönd eða starfsgreinasambönd. Ef þú ert í stéttarfélagi mun það að öllu jöfnu aðstoða þig sem launamann ef deilur koma upp milli þín og atvinnurekandans.

Landsamböndin mynda hins vegar heildarsamtök aðildarfélaganna. Í Noregi eru fjögur heildarsamtök:

  • Landssamtökin í Noregi, LO, eru fjölmennustu heildarsamtök launafólks í Noregi. 22 stéttarfélög úr ýmsum starfsgreinum eiga aðild að LO, þeirra á meðal eru verslunar- og skrifstofufólk í Forbundet for ansatte innen Handel og Kontor, rafiðnaðarmenn í EL & IT Forbundet, starfsfólk í orkugeira í Industri Energi og Fagforbundet, bandalag starfsmanna hjá sveitarfélögum, fylkissveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði.
  • Heildarsamtök háskólamanna, Unio, eru næst fjölmennustu heildarsamtök launafólks í Noregi. Meðal aðildarfélaga Unio má nefna hjúkrunarfræðinga í Norsk Sykepleierforbund, kennara í Utdanningsforbundet, lögreglumenn í Politiets Fellesforbund og sjúkraþjálfara í Norsk Fysioterapiforbund.
  • Starfsgreinasambandið, YS, telur 19 aðildarfélög á öllum sviðum vinnumarkaðarins en þar má nefna atvinnubílstjóra í Yrkestrafikkforbundet for bussjåfører, bókasafnsfræðinga í Bibliotekarforbundet, kennara í Lærernes Yrkesforbund og lyfjafræðinga í Farmasiforbundet.
  • Akademikerne eru samtök háskólamanna en aðildarfélög þeirra eru 13. Meðal þeirra má nefna arkitekta í Arkitektenes Fagforbund, lækna í Den norske legeforening, tannlækna í Den norske tannlegeforening og félags- og hugvísindafólk með meistarpróf í Samfunnsviterne.

Heildarsamtökin geta beint þér til landssamband sem á við í þinni starfsgrein eða atvinnugrein. Hafðu samband við heildarsamtökin eða landsambandið sem tengist þínu starfssviði eða atvinnugrein ef þú vilt vita nánar um réttindi og skyldur launafólks.

Félagsgjöld frádráttarbær til skatts

Ef þú ert í launavinnu geturðu dregið félagsgjöld til stéttarfélags frá í skatti. Þau eru oft í skattskýrslunni en ef þeirra er ekki getið þar þarftu að bæta þeim inn í skýrsluna. Skattstjóri hefur yfirlit yfir hve stór hluti félagsgjalda er frádráttarbær til skatts.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna