Félagsleg aðstoð í Noregi

Kvinde i supermarked
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Hér geturðu lesið þér til um rétt til félagslegrar aðstoðar í Noregi. Hún er einnig nefnd fjárhagsaðstoð eða félagsleg fjárhagsaðstoð.

Hvenær er hægt að sækja um aðstoð til að mæta útgjöldum?

Ef þú býrð í Noregi og þarft á aðstoð að halda til að ná endum saman og engir aðrir kostir standa þér til boða til að framfæra þér getur þú sótt um fjárhagsaðstoð/félagslega aðstoð. Þú getur sótt um félagslega aðstoð þrátt fyrir að þú sért ekki norskur ríkisborgari. Til að eiga rétt á þessari fjárhagsaðstoð þarftu að dveljast löglega í Noregi.

Félagsleg aðstoð er tímabundið úrræði sem ætlað sem stuðningur ef þú þarft á aðstoð að halda til að framfæra þér. Félagsleg aðstoð kann að vera veitt ef þú sem umsækjandi hefur ekki nægilega fjármuni, tekjur eða önnur félagsleg réttindi sem gefa tekjur, svo sem atvinnuleysisbætur eða endurhæfingarlífeyri.

NAV (vinnumála- og tryggingastofnunin) hefur umsjón með fjárhagsaðstoð/félagslegri aðstoð í Noregi.

Þú gætir einnig átt rétt á húsnæðisstyrk. Norski íbúðalánasjóðurinn Husbanken hefur umsjón með þessu.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá félagslega aðstoð?

Til að eiga rétt á félagslegri aðstoð þarftu að dveljast löglega í Noregi. Allir sem búa í Noregi eiga rétt á að sækja um félagslega aðstoð og unnið er úr öllum umsóknum. Ef þú býrð í öðru landi átt þú ekki rétt á félagslegri aðstoð í Noregi.

Ef þú sækir um félagslega aðstoð verður þú að íhuga hvort þú getir framfleytt þér á annan hátt. Ef þú sækir um verður þú beðin(n) um að leggja fram fylgigögn til staðfestingar á fjárhagsaðstæðum þínum. Breytilegt er hvaða gögn beðið er um að leggja fram en hér að neðan eru dæmi um fylgigögn sem NAV getur beðið um að fá:

  • Gild persónuskilríki
  • gilt dvalarleyfi. Ríkisborgarar annarra norrænna landa hafa sjálfkrafa dvalarleyfi í Noregi og þurfa því ekki að sýna staðfestingu á því.
  • skattframtal
  • ákvörðun (fyrri frádráttur), skattskýrsla
  • launaseðla
  • yfirlit sem sýnir alla þína bankareikninga og stöðu þeirra
  • bankareikningsyfirlit (ef ekki er hægt að sýna nauðsynlegar upplýsingar á annan hátt. Þú getur strikað yfir texta sem ekki er viðeigandi.)
  • staðfestingu á búsetu (húsaleigusamningur)
  • reikninga fyrir húsaleigu, húsnæðislán, rafmagn, leikskóla, skóladagheimili (SFO) og frístundastarf fyrir börn
  • föst eða mikil útgjöld vegna heilbrigðis- og/eða tannlæknaþjónustu

Sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu, þar á meðal fjárhagsaðstoð. Það þýðir að skrifstofa NAV í því sveitarfélagi sem þú býrð í tekur við umsókn þinni um fjárhagsaðstoð og metur hana.

Átt þú rétt á félagslegri aðstoð um leið og þú flytur til Noregs?

Ef þú dvelst löglega í Noregi getur þú sótt um félagsleg aðstoð í sveitarfélaginu sem þú býrð í. Skráð heimilisfang þitt í þjóðskrá er ekki það sem segir fyrir um þetta heldur mun sveitarfélagið sem þú býrð í raun og veru í meta umsóknina. Ákvarðað verður um rétt þinn til félagslegar aðstoðar með beinu og einstaklingsbundnu mati á þínum þörfum.

Fyrir hvaða útgjöld er hægt að fá stuðning?

Þú getur fengið aðstoð við að standa straum af nauðsynlegasta framfærslukostnaði og kostnaði við heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu. Kostnaðurinn þarf að vera hóflegur.

Félagsleg aðstoð er ekki veitt sem föst upphæð. Ríkið hefur þó gefið út leiðeinandi upphæðir sem mörg sveitarfélög styðjast við. Önnur sveitarfélög hafa valið sínar eigin upphæðir. Upphæðirnar eru aðeins leiðbeinandi og koma ekki í stað einstaklingsbundins mats sem sveitarfélögum er skylt að framkvæma í hverju tilfelli. Unnið er úr öllum umsóknum og upphæð fjárhagsaðstoðar fer eftir þörfum hvers og eins.  Skrifstofa NAV í sveitarfélaginu sem þú býrð í ákvarðar um félagslega aðstoð fyrir þig. Ef þú færð félagslega aðstoð færðu sent bréf með upphæð, greiðsludagsetningum og skilyrðum fyrir aðstoðinni, ef einhver eru.

Hvernig er sótt um félagslega aðstoð?

Þú getur sótt um á skrifstofu NAV í þínu sveitarfélagi. Yfirleitt er rætt við þig á skrifstofu NAV til að meta þörf þína á aðstoð.

Þú hefur rétt á að fá leiðbeiningar frá NAV varðandi umsókn þína ef þú þarft á að halda. Óháð því hvort þú sækir um stuðning eða ekki áttu rétt á að fá upplýsingar, ráðgjöf og leiðbeiningar frá skrifstofu NAV í þínu sveitarfélagi. Hafðu því samband við skrifstofu NAV í þínu nágrenni eða notaðu spjallið á nav.no.

Í flestum sveitarfélögum er hægt að sækja um á netinu en í sumum þeirra þarf enn sem komið er að biðja um umsóknareyðublað á skrifstofu NAV. Nánari upplýsingar um þetta fást á tenglunum hér að neðan.

Úrvinnslutími umsókna er mismunandi eftir sveitarfélögum. Ef úrvinnslan tekur meira en einn mánuð færðu sent bréf um framlengdan úrvinnslutíma. Ef NAV skortir einhverjar upplýsingar gætir þú verið beðin(n) um að senda þær.

Getur þú fengið félagslega aðstoð ef þú býrð í öðru landi?

Þú getur ekki fengið félagslega aðstoð í Noregi ef þú býrð í öðru landi. Þú getur kannað hvort þú eigir rétt á félagslegri aðstoð í búsetulandi þínu.

Hvar geturðu fengið svör við spurningum?

Hafðu samband við NAV ef spurningar vakna um félagsleg aðstoð í Noregi.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna