Starfsleyfi og viðurkenning erlendrar menntunar í Noregi

Sykepleier med pasient
Ljósmyndari
Yadid Levy/norden.org

Hjúkrunarfræðingur með sjúklingi 

Í sumum tilfellum þarf að viðurkenna erlenda menntun eða sækja um leyfi til að geta starfað í Noregi. Hér getur þú kynnt þér hvernig það er gert, lögverndaðar starfsgreinar og reglur sem gilda um starfsgreinar í Noregi.

Ef þú hefur erlenda menntun og vilt starfa í Noregi getur komið sér vel að láta meta menntunina til að vita hver sambærileg menntun er í Noregi. Hafðu í huga að sumar starfsgreinar eru lögverndaðar og krefjast norsks starfsleyfis. Um sumar starfsgreinar gilda alþjóðlegar reglur eða aðrar sérstakar reglur.

Viðurkenning á erlendri menntun í Noregi

Ef þú hefur erlenda menntun og vilt starfa eða stunda nám í Noregi gætir þú þurft að fá menntunina metna.

Viðurkenning á erlendu framhaldsskólanámi fyrir framhaldsskólanám í Noregi

Norðurlöndin viðurkenna framhaldsskólapróf hvers annars. Hafir þú lokið almennu framhaldsskólanámi (stúdentsprófi) í öðru Norðurlandanna sem veitir aðgang að háskólum í viðkomandi landi  uppfyllir þú að meginreglunni til kröfur um almenna námsfærni og getur sótt um háskólanám í Noregi. Auk þess gera sumar námsleiðir forkröfur í einstökum greinum umfram almennar aðgangskröfur.

Ef þú ert í vafa um hvort þú búir yfir almennri námsfærni geturðu beðið um að fá leiðsögn hjá Samordna opptak. Gerðu það tímanlega áður en þú sækir um háskólanám í Noregi vegna þess að matsferlið getur tekið langan tíma.

Viðurkenning erlendrar starfsmenntunar til að starfa í Noregi

Almenna reglan er sú að norræn starfsmenntun sem er sambærileg norskri starfsmenntun veitir sömu réttindi. Ef þú ert með norræna starfsmenntun áttu ekki að þurfa að sækja um sérstakt starfsleyfi í Noregi til þess að stunda iðn þína. Hafðu þó í huga að fyrir sumar greinar þarf starfsleyfi.

Ef þú ert með starfsmenntun frá öðru Norðurlandanna og hefur hug á að starfa að grein þinni í Noregi skaltu snúa þér beint til atvinnurekandans til að sækja um vinnu. Atvinnurekandanum er heimilt að meta hvort þú búir yfir tilhlýðilegri starfsfærni. Ef atvinnurekandinn er í vafa um hvernig meta skuli menntun þína í Noregi eða ef þér er sagt að þig vanti starfsfærni getur þú spurst fyrir um málið hjá stjórnsýslusviði æðri menntunar og fagkunnáttu  (HK-dir). 

Viðurkenning erlendrar æðri menntunar til að starfa í Noregi

Stjórnsýslusvið æðri menntunar og fagkunnáttu (HK-dir) gefur út almennar viðurkenningar á erlendri æðri menntun. HK-dir metur hvort erlent háskólapróf jafngildir norsku háskólaprófi og hvað það samsvarar mörgum námseiningum.

Sumt nám á Norðurlöndum er sjálfkrafa viðurkennt af HK-dir. Ef þú ert með þess háttar menntun geturðu sótt skjal á netinu sem staðfestir að prófgráðan þín er sjálfkrafa viðurkennd en skjalið sýnir þú menntastofnunum og atvinnurekendum þegar þess gerist þörf. Sjálfkrafa viðurkenning á prófum er staðfesting þess að erlend prófgráða sé lögð að jöfnu við samsvarandi norska gráðu. Ef menntunin þín er viðurkennd færðu viðurkenningarskjal sem þú getur framvísað þegar þú sækir um störf í Noregi. Ef menntunin þín er viðurkennd færðu viðurkenningarskjal sem þú getur framvísað þegar þú sækir um störf í Noregi.

Háskólar geta einnig lagt faglegt mat á erlenda háskólamenntun sem samsvarar þeirra eigin prófgráðum og námsframboði. Nánari upplýsingar veita þær menntastofnanir sem skipta máli fyrir þig.

Lögvarin störf og starfsleyfi í Noregi

Sumar starfsgreinar eru lögverndaðar í Noregi og sækja þarf um starfsleyfi til að starfa innan þeirra. Um aðrar starfsgreinar gilda sérstakar reglur sem þarf að hafa í huga.

Lögvernduð störf í Noregi

Flest lögvarin störf í Noregi falla undir tilskipun ESB um viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi en aðrar tilskipanir gilda einnig um tiltekin störf, svo sem um siglingar og flug. Mismunandi yfirvöld veita starfsleyfi fyrir mismunandi starfsgreinar.

Ekki er alltaf nauðsynlegt að fá starfsleyfi eða viðurkenningu til að byrja að vinna í Noregi. Ef þú finnur þína starfsgrein á lista yfir störf og starfsgreinar á tenglinum hér að neðan þarftu líklega ekki að fá starfsleyfi eða viðurkenningu.

Störf í Noregi með takmörkuðum möguleika á viðurkenningu erlendrar menntunar

Fyrir sumar starfsgreinar eru mjög takmarkaðir möguleikar til að fá starfsréttindi með erlendri menntun. Einnig getur verið gerð krafa um norskt ríkisfang fyrir starfsgreinar sem tengjast opinberum yfirvöldum. Slíkar starfsgreinar eru ekki bundnar evrópskum, norrænum eða tvíhliða samningum um viðurkenningu. Þetta á til dæmis við um dómara, lögreglu og varnarmál.

Starfsgreinareglur tiltekinna starfa í Noregi

Auk lögverndaðra starfa eru starfsgreinar í Noregi sem setja sínar eigin reglur og kröfur. Slíkar sértækar reglur og kröfur eru nefndar „bransjeregler“.

Reglur sem þessa geta mælt fyrir um kröfur um endurmenntun, skilríki og öryggisstaðla sem eiga sérstaklega við um ákveðna starfsgrein. Þetta er sérstaklega algeng í byggingariðnaði og samgöngum.

Fyrirtæki og íbúar í Noregi þurfa að geta starfað í öðru norrænu landi en í sumum tilfellum geta lög og reglugerðir um starfsgreinar komið í veg fyrir hreyfanleika á norrænum vinnumarkaði. Leysa þarf þær hindranir sem atvinnugreinareglur setja innan einstakra starfsgreinar, og oft snýst það um að tryggja betri upplýsingar.

Info Norden er ekki með tæmandi lista yfir allar starfsgreinareglur í Noregi. Við hvetjum því bæði starfsgreinasamtök, stéttarfélög, fyrirtæki og launafólk til að hafa samband við Info Norden ef það veit um sérstakar starfsgreinareglur og mögulegar hindranir sem þær hafa í för með sér.

Hvert skal leita með frekari spurningar?

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna