Styrkur vegna hjálpartækja í Færeyjum

Handicapskilt
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Hér er hægt að lesa um möguleika á styrk vegna hjálpartækja búi maður við langvarandi þörf fyrir þau. Það getur til dæmis verið vegna fötlunar eða viðvarandi sjúkdóms.

Ef þú býrð eða dvelur í Færeyjum og hefur langvarandi þörf fyrir hjálpartæki hefurðu sama rétt til að sækja um styrk frá hinu opinbera og færeyskir (danskir) ríkisborgarar.

Hjálpartæki

Ef þú eða barnið þitt er með líkamlega eða andlega fötlun sem hjálpartæki geta auðveldað geturðu leitað til Almannaverksins eftir hjálpartæki eða styrk til að kaupa það.

 

Almannaverkið getur veitt styrki vegna hjálpartækja og breytinga eða skipta á húsnæði ef þú býrð við varanlega líkamlega eða andlega fötlun. Markmiðið er að þú getir lifað eins eðlilegu og sjálfstæðu lífi og hægt er þrátt fyrir fötlunina.

 

Ástæða fötlunarinnar skiptir ekki máli. Hún getur verið meðfædd eða tilkomin vegna veikinda eða slyss. Greiningin hefur ekki úrslitaáhrif heldur áhrifin sem fötlunin hefur.

 

Almannaverkið skal veita styrk til hjálpartækis ef hjálpartækið getur að verulegu leyti:

 

 • dregið úr varanlegum áhrifum fötlunarinnar
 • auðveldað þér daglegt líf á heimilinu
 • talist nauðsynlegt við vinnu þína

 

Hjálpartæki geta verið tæknileg á borð við:

 

 • gönguhjálpartæki
 • hjólastóla
 • sérútbúin rúm
 • minni hjálpartæki fyrir í eldhús eða baðherbergi

 

Einnig geta þetta verið hjálpartæki sem einstaklingur ber á sér, svo sem:

 

 • stuðningsvesti
 • gervihandleggir eða -fætur
 • gervibrjóst
 • hárkolla (ef um varanlegan hármissi er að ræða)
 • bæklunarskór eða innlegg
 • heyrnartæki (afgreitt í gegnum heilbrigðisþjónustuna í Færeyjum)
 • sjónhjálpartæki

 

Þegar sum hjálpartæki eru veitt, til dæmis bæklunarskór, þarf að greiða fyrir þau.

 

Sækja þarf um hjá Almannaverkinu áður en keypt er og hægt er að fá styrk fyrir því hjálpartæki sem best á við og er ódýrast.

 

Það kostar ekki neitt að fá lánuð hjálpartæki hjá Almannaverkinu og fjárhagur þinn hefur ekki áhrif á það hvort þú getir fengið styrk eða hve mikið þú getur fengið. Styrkurinn er skattfrjáls.

 

Nánari upplýsingar veitir Almannaverkið. Sjá tengil neðst.

 

Þú kannt einnig að eiga rétt á hjálpartækjum vegna vinnu eða náms að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Stuðningurinn getur falist í láni á tækjum eða styrk.

 

Hjálpartæki geta verið:

 

 • námsefni
 • vinnutæki
 • minniháttar aðstaða á vinnustað

 

Það er skilyrði að:

 • hjálpartækið sé alla jafna ekki að finna á vinnustaðnum eða menntastofnuninni
 • kostnaðurinn sé meiri en sá sem vinnuveitandanum ber að standa straum af
 • hjálpartækið hafi úrslitaþýðingu um hvort þú getir tekið þátt í úrræðinu, haldið starfi þínu eða unnið sjálf/sjálfur/sjálft
 • hjálpartækið vegi upp fötlun þína í starfi

 

Nánari upplýsingar veitir Almannaverkið.

Að flytja til Færeyja með hjálpartæki frá öðru norrænu landi

Ef þú flytur til Færeyja og ert með hjálpartæki frá öðru norrænu landi þarftu að hafa samband við þá stofnun í heimalandinu sem lét þér hjálpartækið í té til að komast að því hvort þú megir halda því.

Að flytja til útlanda með hjálpartæki frá Færeyjum

Ef þú ætlar að dvelja lengi í öðru norrænu landi og ert með hjálpartæki frá Færeyjum þarftu að tilkynna Almannaverkinu um það. Það á einnig við ef þú flytur þangað eða hyggst vinna þar.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna