Félagsleg aðstoð í Færeyjum

City
Ljósmyndari
Johnér Masma

Félagsleg aðstoð í Færeyjum

Ef þú býrð í Færeyjum og þarft aðstoð við að framfleyta þér og hefur ekki önnur framfærsluúrræði getur þú sótt um fjárhagsaðstoð / félagslega aðstoð. Þú þarft ekki að vera færeyskur (danskur) ríkisborgari til að sækja um félagslega aðstoð. Til þess að eiga rétt á slíkri fjárhagsaðstoð verður þú að dveljast löglega í Færeyjum.

Félagsleg aðstoð er tímabundið greiðsluúrræði sem ætlað er að létta undir með þeim sem þurfa aðstoð við að greiða mánaðarleg útgjöld. Hægt er að veita félagslega aðstoð þegar umsækjandi hefur ekki nægilegt fé, tekjur eða kröfur um önnur tryggingaréttindi sem veita tekjur á borð við atvinnuleysisbætur eða sjúkradagpeninga.

Hvaða almennu skilyrði þarf að uppfylla?

Ef þú dvelst með löglegum hætti í Færeyjum og getur ekki séð fyrir þér kanntu að eiga rétt á greiðslu frá Almannaverkinu, sem er félagsmálastofnun Færeyja. Það fer m.a. eftir aldri þínum, hvort þú búir ein/einn/eitt eða með öðrum og hvort þú hafir framfærsluskyldu um hvaða greiðslur kann að vera að ræða.

 

Til að eiga rétt á aðstoð þarftu jafnframt að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 

  • Þú hefur orðið fyrir félagslegu atviki, svo sem veikindum, atvinnuleysi eða skilnaði.
  • Hið félagslega atvik hefur haft það í för með sér að þú getur ekki séð fyrir þér eða fjölskyldu þinni og að enginn annar sér fyrir þér.
  • Eignir þínar eða aðrar greiðslur, svo sem atvinnuleysisbætur eða lífeyrisgreiðslur, nægja ekki til að sjá fyrir þér.

Hvaða greiðslur eru í boði?

Upphæð greiðslna samkvæmt færeyskum lögum um félagslega aðstoð fer eftir því hvort þú hafir börn yngri en 18 ára á framfæri þínu, hvort þú búir ein/einn/eitt eða með öðrum og hvort þú sért eldri eða yngri en 25 ára. Eftirfarandi hópar geta fengið greiðslur:

 

  • Framfærendur, ekki í sambúð
  • Framfærendur í sambúð
  • Einstaklingar, ekki í sambúð, 25 ára eða eldri, ekki með framfærsluskyldu
  • Einstaklingar í sambúð, 25 ára eða eldri, ekki með framfærsluskyldu
  • Einstaklingar undir 25 ára aldri sem ekki búa með foreldrum sínum
  • Einstaklingar undir 25 ára aldri sem búa með foreldrum sínum

Hvað gerist þegar þú hefur sótt um?

Sótt er um hjá Almannaverkinu. Alla jafna verður þér boðið til viðtals hjá Almannaverkinu svo hægt sé að meta þörf þína á aðstoð.

Er hægt að fá aðstoð frá hinu opinbera erlendis?

Ekki er hægt að fá færeyska félagsaðstoð ef maður dvelst utan Færeyja. Einstaka undantekningar eru frá þessu, t.d. ef dvölin er á vegum færeyskra stjórnvalda.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna