Þjóðskrá á Grænlandi
Grænland er sjálfsstjórnarsvæði í ríkjasambandi Danmerkur, Færeyja og Grænlands. Íbúar á Grænlandi falla undir reglur um skráningu í þjóðskrá sem fram koma í lögum um þjóðskrá (Det Centrale Personregister) sem CPR-skrifstofan í Danmörku og sveitarfélögin á Grænlandi hafa umsjón með.
Kennitala, einnig oft nefnd cpr-númer, er nauðsynleg í ýmsu samhengi þegar búið er á Grænlandi, t.d. til að opna bankareikning, fara til læknis, greiða skatt, stofna símanúmer o.fl.
Norrænir ríkisborgarar falla undir samning um flutninga innan Norðurlanda þar sem Grænland fellur einnig undir samkomulag um þjóðskrá á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Þjóðskrá í heimalandi þínu fær því sjálfkrafa skilaboð þegar þú ert skráð/ur í þjóðskrá á Grænlandi.
Norrænir ríkisborgarar
Þegar þú skráir flutning til Grænlands ertu skráð/ur í miðlæga þjóðskrá og færð kennitölu. Það gerirðu með því að fylla út flutningseyðublað hjá borgaraþjónustu sveitarfélagsins þíns í síðasta lagi fimm dögum eftir að þú flytur til Grænlands. Þú getur fundið borgaraþjónustuna þína í gegnum vefgáttina Sullissivik.
Þú hefur rétt á að skrá þig inn í landið ef þú veist að þú munir dveljast á Grænlandi í að minnsta kosti þrjá mánuði og þú hefur stað að búa á eða fasta búsetu.
Mikilvægt er að hafa í huga að dönsk/grænlensk kennitala sem þú færð við skráningu í þjóðskrá á Grænlandi gefur þér ekki rétt á ókeypis læknisaðstoð og sjúkrahúsvist í Danmörku, á Norðurlöndum eða innan ESB.
Það getur borgað sig að fá búsetuvottorð. Búsetuvottorðið gildir sem sjúkratryggingavottorð ef þú þarft að nota heilbrigðiskerfið í Danmörku, Færeyjum, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi eða á Íslandi. Þegar þú hefur verið skráð/ur í þjóðskrá geturðu fengið búsetuvottorð (gegn gjaldi) hjá borgaraþjónustunni þinni. Einnig geturðu prentað það út ókeypis á Sullissivik.
Ef þú ert ekki með lögheimili á Grænlandi
Þú getur fengið danska kennitölu án þess að vera með lögheimili á Grænlandi. Þá þarftu að vera í vinnu í landinu.
Þú þarft að nota kennitöluna til að greiða skatt.
Til þess að fá „kerfiskennitölu“ þarftu að hafa samband við SKAT og framvísa:
- Skilríkjum
- Vottorði um að þú eigir heimili í öðru landi
- Ráðningarsamningi með upplýsingum um laun og ráðningartímabil
- Hugsanlegu starfs- og dvalarleyfi
Nánari upplýsingar
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.