Atvinnu- og dvalarleyfi á Grænlandi

Arbejds- og opholdstilladelse i Grønland
Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta starfað á Grænlandi? Sérstakt leyfi þarf til að starfa í sumum greinum og það á einnig við um ríkisborgara norrænna landa.

Norrænum ríkisborgurum er frjálst að setjast að og starfa á Grænlandi. Þó þarf sérstakt leyfi til að starfa í sumum greinum og það á einnig við um ríkisborgara annarra norrænna landa.Ríkisborgarar landa utan Norðurlanda þurfa að hafa atvinnu- og dvalarleyfi til að fá að búa og starfa á Grænlandi. Grænland er hluti af danska ríkjasambandinu en hefur víðtæka sjálfstjórn. Grænlendingar hafa þó ekki tekið við stjórn málefna útlendinga og því eru það dönsk yfirvöld sem hafa umsjón með hverjir fái leyfi til að koma til Grænlands og starfa þar.

Nánari upplýsingar um atvinnu- og dvalarleyfi á Grænlandi er að finna á:

Nánari upplýsingar:

Grænlenska lögreglan getur veitt upplýsingar um löggjöf um útlendinga og reglur um vegabréfsáritun.

Danska útlendingastofnunin leiðbeinir um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir ríkisborgara þriðja lands, maka- og fjölskyldusameiningu og ótímabundið dvalarleyfi.

Sveitarfélögin á Grænlandi leiðbeina um leyfi sem þarf að fá hjá þeim.

Vefir grænlenskra sveitarfélaga:

Ríkisborgarar norrænna landa

Norrænum ríkisborgurum er frjálst að ferðast til Grænlands til að setjast þar að og vinna. Þó þarf að fá sérstakt leyfi sveitarfélags til starfa í ákveðnum starfsgreinum (sjá næsta kafla).

Leyfi sveitarfélaga til að starfa innan ákveðinna starfsgreina

Ef vinnuveitandi hyggst ráða útlending til starfa í einni af eftirfarandi starfsgreinum þarf að fá til þess leyfi sveitarfélags á grundvelli landsþingslaga nr. 27 frá 30. október 1992 um stjórn á innflutningi vinnuafls til Grænlands. Þessi ákvæði eiga einnig við um danska ríkisborgara sem ekki eru fæddir á Grænlandi eða hafa alist þar upp og um aðra norræna ríkisborgara:

 • Iðnaðarmenn
 • Þroskaþjálfar
 • Félagsráðgjafar
 • Stöður sem krefjast framhaldsnáms í skipsstjórnarfræðum
 • Ófaglærð störf
Hvernig leyfi sveitarfélaga eru veitt

Fyrirtækið sem ætlar að ráða nýjan starfsmann verður fyrst að reyna að ráða Grænlendinga. Ef þetta tekst ekki þarf fyrirtækið að beina fyrirspurn til sveitarfélagsins og það á síðan að reyna að finna starfsmann annars staðar á Grænlandi.

Ef það tekst ekki þarf fyrirtækið að fá skriflegt leyfi frá sveitarfélaginu til að sækja sér utanaðkomandi vinnuafl. Leyfið getur aðeins tekið til eins starfsmanns á einum tilteknum vinnustað.

Ef sveitarfélagið bregst ekki við umsókn fyrirtækisins um leyfi innan 14 daga hefur það sjálfkrafa rétt til að sækja sér utanaðkomandi vinnuafl.

Vefir grænlenskra sveitarfélaga:

Ríkisborgarar frá öðrum heimshlutum

Ríkisborgarar Evrópusambandslanda utan Norðurlanda og ríkisborgarar frá öðrum hlutum heimsins hafa ekki frjálsan aðgang að Grænlandi. Þeir teljast til svonefndra „þriðja lands ríkisborgara“ (tredjelandsborgere).

Atvinnu- og dvalarleyfi

Ríkisborgarar í þessum hópi þurfa, þegar það á við, að fá leyfi sveitarfélags til starfa. Þeir þurfa einnig að fá atvinnu- og dvalarleyfi frá Danmörku, og hugsanlega einnig vegabréfsáritun til Grænlands. Þeir þurfa sjálfir að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi hjá dönsku útlendingastofnuninni (Udlændingestyrelsen). Það kostar ekkert að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi.

Vinnuveitandinn má gjarnan aðstoða við umsóknina. Tilkynning um ákvörðunina er eingöngu send umsækjandanum.

Umsóknarferlið tekur um þrjá mánuði, og ef svarið er jákvætt er leyfilegt að ráða viðkomandi einstakling. Ekki má hefja störf fyrr en atvinnu- og dvalarleyfi er fengið.

Atvinnu- og dvalarleyfið er annaðhvort bréf eða skírteini, svonefnt „stamkort“ (plastkort sem líkist greiðslukorti). Starfsmaðurinn þarf alltaf að hafa leyfið meðferðis. Atvinnuleyfi á alltaf við um tiltekið starf í ákveðnu fyrirtæki og gildir að hámarki í eitt ár. Ef ráða á starfsmanninn í nýja stöðu eða ef viðkomandi ætlar að skipta um vinnustað þarf að sækja um nýtt leyfi áður en störf eru hafin.

Dvöl undir þremur mánuðum

Þriðja lands ríkisborgarar mega starfa á Grænlandi í stuttan tíma, það er að segja undir þremur mánuðum, ef þeir falla undir svonefnda viðgerða- eða uppsetningarstarfsreglu („montørreglen“). Hún á við um:

 • sérfræðinga sem koma til starfa í tengslum við hráefnavinnsluverkefni sem er með leyfisnúmer (licensnummer)
 • starfsmenn sem fengnir eru til að setja upp eða gera við tæknibúnað, vélar eða tölvukerfi
 • listamenn, vísindamenn og fyrirlesara
 • leikara, kvikmyndatökumenn eða leikstjóra sem vinna að gerð kvikmyndar
 • umboðsmenn eða sölumenn í viðskiptaerindum
 • þau sem starfa fyrir útlendinga sem eru í heimsókn á Grænlandi

Þau sem heyra undir „montør“-regluna þurfa hvorki leyfi sveitarfélags né atvinnu- og dvalarleyfi til að mega starfa á Grænlandi.

Maka- og fjölskyldusameining og ótímabundin dvöl

Ríkisborgarar þriðju landa sem giftir eru dönskum eða norrænum ríkisborgurum og sem vilja búa eða starfa á Grænlandi þurfa að sækja um maka- eða fjölskyldusameiningu eða atvinnu- og dvalarleyfi á Grænlandi og hugsanlega einnig fá leyfi hjá sveitarfélagi. Það gildir óháð lengd búsetu í Danmörku, nema viðkomandi hafi sérstök tengsl við Grænland, það er að segja hefur haft fasta búsetu á Grænlandi í samanlagt sjö ár á síðustu tíu árum eða er giftur eða getur sýnt fram á að minnsta kosti eins árs sambúð með Grænlendingi sem búsettur er á Grænlandi.

Þeim sem koma til Grænlands vegna maka- eða fjölskyldusameiningar er frjálst að starfa þar.

Þeim sem fengið hafa ótímabundið dvalarleyfi á Grænlandi er frjálst að starfa þar.

Hægt er að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi hjá

Framlengingar

Umsóknir um framlengingu á atvinnu- og dvalarleyfi skal senda til dönsku útlendingastofnunarinnar. Umsóknin þarf að hafa borist stofnuninni áður en upprunalega atvinnuleyfið rennur út ef ætlunin er að starfa áfram meðan beðið er eftir svari.

Ef fyrirtæki eða einstaklingur vill áfrýja ákvörðun

Einstaklingar og fyrirtæki geta áfrýjað ákvörðunum og starfsmenn sveitarfélaga eru skyldugir til að leiðbeina þeim í því ferli.

Sé ætlunin að áfrýja ákvörðun sveitarfélags um leyfi á að hafa samband við ráðuneyti atvinnulífs, vinnumála og viðskipta í grænlensku landsstjórninni.

Ef áfrýja á úrskurði útlendingastofnunarinnar á að hafa samband við danska dómsmálaráðuneytið.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna