COVID-19 er áminning um að sporna gegn sýklalyfjaónæmi

05.03.21 | Fréttir
Corona pandemi
Photographer
Ricky Molloy
Til lengri tíma litið gætu fleiri látist í heiminum af völdum sýklalyfjaónæmis en COVID-19, en heimsfaraldurinn gæti minnt okkur á mikilvægi þess að ráðast á vandann. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs efndi nýlega til umræðu um sýklalyfjaónæmi með þátttöku Evrópuþingmanna, vísindamanna og fulltrúa atvinnulífsins. Bente Stein Mathisen nefndarformaður og Nina Sandberg, varaformaður nefndarinnar kölluðu eftir því að Norðurlöndin ynnu saman að sameiginlegum ramma um framleiðslu á nýjum sýklalyfjum.

„Sýklalyfjaónæmi hefur gífurlega slæmar afleiðingar, í heimsfaraldri getur það ógnað heilsu alls mannkyns,“ sagði Bente Stein Mathisen, formaður norrænu velferðarnefndarinnar við upphaf vefmálstofunnar en hana sátu fulltrúar Norðurlandaráðs, Evrópuþings, vísindamanna og atvinnulífsins. Þess vegna óskaði hún ásamt varaformanninum Ninu Sandberg eftir því að norræn stjórnvöld hæfu samstarf um að greiða fyrir framleiðslu nýrra sýklalyfja og draga úr ofnotkun þeirra sýklalyfja sem fyrir eru. Samstarf yfirvalda á Norðurlöndum og víðar í Evrópu með aðkomu atvinnulífsins.

 

Ein mesta heilbrigðisógn heimsins

Tillöguna og vefmálstofuna ber að skoða í ljósi þess að um margra áratuga skeið hefur ofnotkun sýklalyfja átt sér stað um allan heim við lækningar á fólki og dýrum. Åsa Melhus, prófessor við Háskólann í Uppsölum, sýndi í erindi sínu á veffundinum hvernig fjöldi látinna af völdum sýklalyfjaónæmis verður mun meiri árið 2050 í heiminum en fjöldi látinna af völdum COVID-19 fram að þessu. Þess vegna hefur sýklalyfjaónæmi verið kallað „hljóðlátur faraldur“ eða ein mesta heilbrigðisógn heimsins.

 

Sýklalyfjaónæmi hefur gífurlega slæmar afleiðingar, í heimsfaraldri getur það ógnað heilsu alls mannkyns.

Bente Stein Mathisen, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Samstarf yfirvalda og atvinnulífs

Lyfjaiðnaðurinn hefur ekki framleitt nýjar tegundir sýklalyfja svo áratugum skiptir. Anders Fallang hjá Pfizer AS bendir á að regluverk fyrir lyfjaiðnaðinn letji framleiðendur og fjárfesta til þess að veðja á þróun nýrra sýklalyfja. Áhættan er hreinlega of kostnaðarsöm og tekur langan tíma. Ef lítil von er um arðsemi velja fjárfestar aðrar leiðir, að sögn Anders Fallang. Bente Stein Mathisen er reiðubúin að skoða möguleika á samstarfi yfirvalda og framleiðenda um fjárhagslega hvata sem tryggi framleiðslu nýrra sýklalyfja. Christel Schaldemose, Evrópuþingmaður frá Danmörku, tók undir hugmyndina en lagði jafnframt til skiptireglu sem tryggi að yfirvöld endurheimti fjárfestingar sínar ef ný tegund sýklalyfja reynist arðsöm.

 

COVID-19 getur rutt brautina fyrir frekari aðgerðir

Á vefmálstofunni kom fram að COVID-19 hefur ýtt við fólki og minnt á mikilvægi þess að heilbrigðisyfirvöld verði í stakk búin til að bregðast við þörfinni þegar krísa skellur eins og í þeim heimsfaraldri sem nú ríður yfir og öðrum heilbrigðiskrísum í framtíðinni. Gunnar Skov Simonsen, prófessor við Háskólann í Tromsø, benti í því sambandi á að COVID-19 hafi skapað nýja vitundarvakningu í samfélaginu um heilbrigðismál hvort sem um er að ræða lýðheilsu, forvarnir gegn sjúkdómum eða framleiðslu nýrra lyfja. Allt geti þetta haft jákvæð áhrif á sýn okkar á mikilvægi þess að sporna gegn sýklalyfjaónæmi.

 

Norðurlandaráð heldur baráttunni áfram

Jessica Polfjärd hrósaði Norðurlöndunum en hún á sæti í ENVI-nefnd Evrópuþingsins um umhverfismál, lýðheilsu og matvælaöryggi. Hún vísaði til þess að í landbúnaði á Norðurlöndum er almennt minni notkun sýklalyfja en tíðkast annars staðar í Evrópu. Nina Sandberg, varaformaður velferðarnefndar, greindi frá því að nefndin hefði um árabil beitt pólitískum þrýstingi í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Sú vinna byggðist á hvítbók Norðurlandaráðs sem inniheldur tólf tillögur að samnorrænum aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi. Hvítbókin var unnin í framhaldi af skýrslu sem Bo Könberg gerði um framtíðarsamstarf í heilbrigðismálum þar sem hann vakti athygli á umfangi og alvöru sýklalyfjaónæmis. Staðan er enn grafalvarleg.