Haldið upp á 50 ára afmæli Norræna hússins í Reykjavík

24.08.18 | Fréttir
Foto af Nordens hus i Reykjavik
Ljósmyndari
norden.org
Haldið er upp á 50 ára afmæli Norræna hússins í Reykjavík á þessu ári. Þann 24. ágúst eru liðin fimmtíu ár frá vígsludegi hússins og verður haldið upp á það með margvíslegum hætti. Húsið hefur á starfstíma sínum gegnt mikilvægu hlutverki í menningarlífi Reykjavíkur og alls Íslands.

Norræna húsið er teiknað af hinum heimsþekkta finnska arkitekt Alvar Aalto. Norræna ráðherranefndin rekur húsið og er markmiðið með rekstri þess að miðla norrænni menningu á Íslandi. Húsið gegnir mikilvægu hlutverki í menningarlífi Reykjavíkur og stendur árlega fyrir nærri 400 viðburðum og tekur á móti 100.000 gestum.

Meðal viðburða í tengslum við 50 ára afmælið er afmælisráðstefna sem haldin verður fyrir boðsgesti 24. ágúst. Meðal gesta þar verða Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Auk þess verður opin hátíð alla helgina.

„Stór dagur fyrir norrænt samstarf“

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, verður einnig meðal gesta. Hann leggur áherslu á mikilvægi menningar í norrænu samstarfi.

„Þetta er stór dagur fyrir norrænt samstarf – fimmtíu ár frá opnun Norræna hússins. Norræna húsið í Reykjavík var hið fyrsta sinnar gerðar í norrænu samstarfi. Húsið er gluggi í átt til hinna Norðurlandanna og norrænn funda- og samkomustaður sem hefur frá upphafi miðlað norrænni menningu og verið vettvangur fyrir norrænt samstarf á Íslandi. Menningin er ein af grunnstoðum norræns samstarfs og ég tel að ekkert norrænt samstarf væri fyrir hendi ef ekki væri vegna hinnar menningarlegu samkenndar.“

Menningin er ein af grunnstoðum norræns samstarfs og ég tel að ekkert norrænt samstarf væri fyrir hendi ef ekki væri vegna hinnar menningarlegu samkenndar.

Einstakt verkefni

Það var einstakt að fimm norrænar ríkisstjórnir skyldu á sjöunda áratugnum standa saman að því að koma á fót þessu eina menningarhúsi.

„Á þessum tíma var skuggi kalda stríðsins fyrirferðarmikill í lífi Norðurlandabúa og það er mjög áhugavert að þá skuli hafa verið ákveðið að standa saman að því að koma á fót þessu eina menningarhúsi til þess að styrkja tengslin milli Íslands og hinna Norðurlandanna. Sú hætta var fyrir hendi að Ísland myndi snúa sér enn frekar að Bandaríkjunum og Bretlandi en ætlunin var að styrkja norræna samkennd með þessum hætti og það hefur heppnast mjög vel, sér maður eftir á,“ segir Mikkel Harder, forstjóri Norræna hússins í Reykjavík.

Menningarlegur samkomustaður

Reykjavík er nú mikil menningarborg en þegar húsið var opnað var þar afar takmarkað framboð af menningarviðburðum og auk þess sem framlag hússins til menningarlífsins var mikið var þar rekið eitt af fáum kaffihúsum borgarinnar. Húsið varð fljótt að samkomustað bæði íslenskra listamanna og áhugafólks um menningu og var að mörgu leyti innspýting í menningarlífið í Reykjavík og á Íslandi.

„Norræna húsið hefur átt frumkvæði að mörgum stórum menningarhátíðum og viðburðum sem seinna hafa orðið að sjálfstæðum viðburðum í íslensku menningarlífi þannig að það sem átt hefur sér stað hér í húsinu í áranna rás hefur sannarlega haft mikil og áframhaldandi áhrif í samfélaginu sem er afar ánægjulegt,“ segir Mikkel Harder.

Norræna húsið býður upp á fjölbreytta menningardagskrá og í húsinu er að finna tónleikasal, sýningarsali, bókasafn og veitingastað.

Tengiliður