Nýr framkvæmdastjóri Norrænu stofnunarinnar á Álandseyjum

13.02.24 | Fréttir
Tasso Stafilidis

Tasso

Photographer
Norden
Þann fyrsta ágúst tekur Tasso Stafilidis frá Svíþjóð við sem framkvæmdastjóri norrænu menningarstofnunarinnar NIPÅ í Mariehamn á Álandseyjum.

Norræna stofnunin á Álandseyjum fær nýjan framkvæmdastjóra sem bera mun ábyrgð á því að kynna norræna menningu á Álandseyjum og álenska menningu á Norðurlöndum. Stofnunin á að styðja við, efla og stuðla að þróun menningarlífsins á Álandseyjum. Þetta er meðal annars gert í tengslum við áætlanir og samstarf við aðila innan og utan Álandseyja.

„Ég hlakka til að leggja mitt að mörkum til norræns samstarfs fyrir listafólk og menningarlífið á Álandseyjum. Listir og menning eiga að varða okkur öll, rétt eins og sjálfbær þróun. Með því að veita börnum og ungu fólki tækifæri til þess að opna dyr að nýjum heimum vöxum við sem manneskjur, bæði vitsmunalega og með hlýju í hjartanu. Ég vil halda áfram að þróa starfsemi NIPÅ og norrænt samstarf ásamt samstarfsfólki mínu, listafólki og þeim sem standa að verkefnum,“ segir Tasso Staflilidis.

 

Norrænt samstarf

Tasso Stafilidis hefur í mörg ár unnið við menningarmiðlun, jafnt á Norðurlöndum sem á alþjóðavettvangi. Hann hefur einnig tekið þátt í samstarfi pride-hátíðanna á Norðurlöndum og í Evrópu. Tasso er sérfræðingur í menningarmálum með áherslu á nýja markhópa og inngildingu. Hann er jafnframt sérfræðingur í inngildingu og fjölbreytileika með áherslu á hinseginmálefni og hefur í mörg ár stundað fræðslu um slík mál ásamt því að veita fyrirtækjum ráðgjöf.

 

Listir og menning eiga að varða okkur öll, rétt eins og sjálfbær þróun.

Tasso Stafilidis, Norrænu stofnuninni á Álandseyjum

Gagnast jafnt Álandseyjum sem Norðurlöndum öllum

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er spennt fyrir því að sjá þessa blöndu af reynslu og þekkingu nýtast Álandseyjum og Norðurlöndum öllum.

„Það gleður mig mjög að fá Tasso Stafilidis um borð í norrænu skútuna sem framkvæmdastjóra NIPÅ á Álandseyjum. Traustur bakgrunnur hans á sviði lista- og menningarmála og reynsla af pride-hátíðunum veitir honum góða þekkingu á þeim mikilvægu úrlausnarefnum sem við vinnum með. Ég býð hann hjartanlega velkominn,“ segir Karen Ellemann.


 

Starfaði síðast fyrir West Pride í Gautaborg

Tasso Stafilidis starfaði síðast fyrir West Pride í Gautaborg ásamt því að hafa verið yfirmaður menningarhátíðar Gautaborgar í átta ár og ráðgjafi á sviði menningarmála og félagslegrar sjálfbærni hjá viðburðafyrirtækinu Göteborg & Co á vegum sveitarfélagsins Gautaborgar. Hann hefur bakgrunn sem leikari og leikhússtjóri og hefur starfað innan sænska menningargeirans í þrjátíu og fimm ár. Hann tekur við stöðu framkvæmdastjóra NIPÅ af Kim Larsen frá Grænlandi.