Hvað vitum við um aðlögun á Norðurlöndum?
Í fyrsta sinn höfum við nú bæði nákvæma og samræmda tölfræði úr gagnagrunnum yfir öll Norðurlöndin. Vebjørn Aalandslid, ráðgjafi hjá norsku hagstofunni, stýrði verkefninu sem gerði þetta mögulegt.
- Fáar tilraunir hafa verið gerðar til að bera saman á nákvæman hátt tölfræði landanna um menntun, atvinnuþáttöku og einstaklinga sem lenda utan kerfisins meðal innflytjenda og afkomenda þeirra. Okkur hefur tekist að skapa grundvöll fyrir nákvæmari samanburð, segir Aalandslid.
Þetta er í fyrsta sinn sem hægt er að bera saman tölfræði Norðurlandanna á þessu sviði og í þessu felast margs konar tækifæri til samanburðargreininga. Samsvarandi gagnagrunnar eru ekki aðgengilegir fyrir önnur svæði í Evrópu. Margar rannsóknir hafa áður verið gerðar á aðlögun og innflytjendum en þær hafa verið brotakenndar og hafa oft liðið fyrir ólíkar skilgreiningar milli landanna.
Okkur hefur tekist að skapa grundvöll fyrir nákvæmari samanburð.
Fyrsta skrefið
Á norræna tölfræðigrunninum, www.nordicstatistics.org, eru nú aðgengilegar 11 töflur með tölfræði um íbúa, menntun og atvinnuþátttöku. Þá sýna töflurnar einnig þá hópa sem standa utan bæði atvinnumarkaðs og náms. Norræna ráðherranefndin hefur veitt einni milljón danskra króna til verkefnisins. Catrine Bangum, aðalráðgjafi og umsjónarmaður á sviði aðlögunar, er ánægð með þessa nýju tölfræði og vill að framhald verði á starfinu.
- Þessi nýja tölfræði gefur okkur mynd af stöðunni eins og hún er í dag en markmiðið er að tölfræðin verði uppfærð með reglulegu millibili. Eftir að flóttafólki til Evrópu fjölgaði mjög voru sett af stað ýmis konar aðlögunarverkefni og -aðgerðir á Norðurlöndum. Það verður áhugavert að fylgjast með árangri af þeim. Með þessarri tölfræði getum við fylgst með og borið saman þróun á sviði aðlögunar í löndunum yfir lengri tíma, segir Bangum.
Vebjørn Aalandslid hjá norsku hagstofunni tekur undir þetta. Hann segir það mjög mikilvægt að samanburði á tölfræði um innflytjendur og aðlögun verði fylgt eftir.
- Það er gríðarlega mikilvægt því oft verður svona greining að stöku verkefni. Ein greining er gerð og svo stendur hún til marks um stöðuna einmitt þá, en ekkert meir. Góð tölfræði þarf að sýna gögn yfir lengri tíma. Það þarf að vera hægt að skoða þróunina í stað þess að hafa bara mynd af stöðunni á einum tímapunkti. Það er mun skemmtilegra að skoða myndband heldur en staka mynd, segir Aalandslid.
Tölfræðin sem nú er aðgengileg er þó einungis frá 2016/2017. Markmiðið er að tölfræðin verði uppfærð árlega svo hægt sé að mæla hver þróunin er. Til lengri tíma litið væri einnig hægt að safna á sama hátt tölfræði um atvinnuleysi, tekjur, starfsgreinar, vinnutíma og lýðþróun.
Með þessarri tölfræði getum við fylgst með og borið saman þróun á sviði aðlögunar í löndunum yfir lengri tíma.
Margt líkt en sumt ólíkt
Sameiginlegt með öllum Norðurlöndum er að meðal afkomenda innflytjenda frá Afríku- og Asíuríkjum er brottfall úr framhaldsnámi hlutfallslega mikið og eins er atvinnuþátttaka minni í þeim hópi. Þá hverfa karlmenn úr þessum hópum frekar frá framhaldsnámi heldur en konurnar. Tölfræðin sýnir einnig talsverðan mun milli norrænu landanna. Noregur og Finnland koma betur út heldur en Svíþjóð þegar kemur að brottfalli innflytjenda úr framhaldsnámi. Þó eru innflytjendur frá Afríku- og Asíuríkjum frekar með atvinnu í Svíþjóð en í hinum norrænu ríkjunum. Aalandslid telur erfitt að fullyrða að staðan sé betri í einu landi heldur en öðru. Löndin standa sig vel og illa á ólíkum sviðum.
- Það mikilvægasta sem slík tölfræði getur dregið fram er ólík þróun í norrænu ríkjunum og hvernig sum lönd standa betur að vígi er varðar menntun, en önnur lönd er varðar atvinnuþátttöku. Erfitt er að fullyrða að eitt land sé í betri stöðu en annað, segir Aalandslid.
Hvað getum við lært af þessu?
Nýja tölfræðin var kynnt á ráðstefnu þar sem þemað var: Hvar stöndum við, hvert stefnum við og hvað getum við lært hvert af öðru? Hvernig má svo nota þessa nýju tölfræði? Aalandslid telur að hún geti stuðlað að upplýstari umræðu byggðri á raunverulegri tölfræði sem gefur okkur mynd af stöðunni í dag og þróuninni yfir lengri tíma. Þær gefa einnig svipmynd af stöðunni í dag sem getur verið gagnleg.
- Fyrir ríkisstjórnir í hverju landi fyrir sig hlýtur þetta að gefa mjög áhugaverða innsýn í hvar ríkin geta lært hvert af öðru. Ég held til dæmis að það ætti að líta til Svíþjóðar og spyrja sig hvað veldur því að atvinnuþátttaka meðal Sómala sem búið hafa lengi í Svíþjóð er svo miklu meiri heldur en í Danmörku og Noregi, segir Aalandslid að lokum.