Íslendingur leiðir vinnuna við frjálsa för á Norðurlöndum í ár

27.02.23 | Fréttir
Siv Friðleifsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir, ordförande för Gränshinderrådet 2023.

Photographer
Lisa Wikstrand / Norden.org
Leggja verður meiri áherslu á frjálsa för á Norðurlöndum. Það segir Siv Friðleifsdóttir sem gegnir formennsku í norræna stjórnsýsluhindranaráðinu í ár. Hún sér margar áskoranir en er í grunninn bjartsýn.

Frjáls för er einn af hornsteinum norræns samstarf og grundvallaratriði með tilliti til framtíðarsýnar forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Að mati Sivjar er aðgerða þörf, eigum við að ná því markmiði.

„Forgangsröðunin verður að vera betri. Menn segjast vilja auka hreyfanleikann en þegar á hólminn er komið þarf aukinn athafnakraft hjá bæði stjórnmálamönnum og embættismönnum ef árangur á að nást. Menn eru uppteknir af öðrum málum en við verðum að leggja meiri áherslu á frjálsa för,“ segir Siv Friðleifsdóttir.

Erfitt að fá stuðning

Í grunninn er verkefni stjórnsýsluhindranaráðsins augljóst, því er ætlað að stuðla að því að frjáls för á Norðurlöndum virki. Hins vegar er í raun ekki alltaf auðvelt að leysa þau vandamál sem þau sem vinna, stunda nám eða reka fyrirtæki þvert á norræn landamæri standa frammi fyrir.

„Það er áskorun að fá bæði stjórnmálamenn og embættismannakerfin til að leggja meiri áherslu á vinnuna við afnám stjórnsýsluhindrana. Við höfum til dæmis rekið okkur á að stjórnmálamenn segjast vilja eitt eða annað en svo fjarar undan viljanum í embættismannakerfinu. Við verðum að vinna meira að því að bæði stjórnmálamenn og embættismenn átti sig í auknum mæli á gildi hins norræna. Því meiri þekkingu sem maður hefur á norrænu gildi, því meiri líkur eru á að maður taki tillit til þess við ákvarðanatöku.“

Þrýsta á stjórnvöld

Stjórnsýsluhindranaráðið afnemur engar hindranir sjálft heldur finnur hindranir sem standa í vegi fyrir frjálsri för og þrýstir á þau kerfi sem geta rutt þeim úr vegi, oft ríkisstjórnir og stofnanir innan landanna.

Og það stoðar ekki alltaf að afnema þær stjórnsýsluhindranir sem eru til staðar. Forvirkar aðgerðir eru ekki síður mikilvægar. Sem stendur hefur Siv Friðleifsdóttir til að mynda áhyggjur af þeim fyrirætlunum Svía að koma upp varanlegu landamæraeftirliti á lestarstöð við Eyrarsund.

„Við höfum miklar efasemdir um það. Við höfum skilning á því að menn vilji berjast gegn glæpastarfsemi en það verður þá að gera það með skynsamlegum hætti þannig að ekki myndist langar raðir við landamærin fyrir fólk sem ferðast á milli daglega. Aðgerð sem gerir það mögulegt að koma upp varanlegu landamæraeftirliti rímar illa við framtíðarsýn okkar og getur komið sér mjög illa fyrir hagvöxtinn, ekki bara á landamærasvæðunum heldur á Norðurlöndum í heild.“

Bjartsýnn formaður

Í grunninn er Siv bjartsýn. Hún hefur trú á að árangur náist, einfaldlega vegna þess að þær tugþúsundir Norðurlandabúa sem lifa lífi sínu þvert á landamæri gera ráð fyrir því að frjáls för virki. Hún nefnir stafvæðinguna sem dæmi.

„Ég er býsna bjartsýn því ég hef ekki trú á því að sú staða muni koma upp að við leysum ekki mál sem tengjast stafvæðingu. Eins og staðan er í dag getur fólk ekki sinnt erindum sínum hjá hinu opinbera á milli landanna vegna þess að við erum ekki með rafræn auðkenni sem virka yfir landamærin. Ég held að almenningur muni þrýsta mjög á um að löndin leysi þetta.

Upphafsfundur ársins

Stjórnsýsluhindranaráðið hélt nýlega upphafsfund í Helsingborg þar sem línur voru lagðar fyrir vinnuna á árinu. Meðal annars komu fulltrúarnir tíu í ráðinu sammála sér saman um nokkur mikilvæg þemu sem lögð verður sérstök áhersla á í ár.

Þar á meðal er stafvæðing. Önnur mikilvæg þemu eru til að mynda skattamál og viðurkenning fagmenntunar á milli norrænu landanna, mál sem snerta tugþúsundir manna.

En hvers vegna skiptir frjáls för svona miklu máli?

„Takist okkur að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi eiga fyrirtæki meðal annars auðveldara með að færa út kvíarnar til nágrannalandanna eða finna hæft vinnuafl hinum megin við landamærin. Atvinnulífið nýtur góðs af því og það verður jafnframt auðveldara og eftirsóknarverðara fyrir fólk að finna vinnu handan landamæranna. Það er gott fyrir samfélagið,“ segir Siv Friðleifsdóttir.

 

 

Staðreyndir:

Stjórnsýsluhindranaráðið er pólitískt skipuð en óháð nefnd sem norræn stjórnvöld hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda. Stjórnsýsluhindranaráðið hóf störf árið 2014.

Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur meðal annars með upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Infor Norden, og upplýsingaþjónustunum þremur á landamærasvæðunum, Gränstjänsten Sverige-Finland-Norge, Grensetjänsten Norge-Sverige og Øresunddirekt.

Markmiðið er að afnema fimm til átta stjórnsýsluhindranir á ári.

Fulltrúar í Stjórnsýsluhindranaráðinu árið 2023: Siv Friðleifsdóttir, Íslandi, Annette Lind, Danmörku, Vibeke Hammer Madsen, Noregi, Kimmo Sasi, Finnlandi, Sven-Erik Bucht, Svíþjóð, Jens Heinrich, Grænlandi, John Johannessen, Færeyjum, Max Andersson, Álandseyjum, Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Kjell-Arne Ottosson, fulltrúi Norðurlandaráðs.

Contact information