Leiðin mörkuð að grænni Norðurlöndum

15.12.20 | Fréttir
Samarbetsministrarna från Danmark, Färöarna och Grönland
Ljósmyndari
Thorleif Ravnbak
Norrænt samstarf tekur grænni og sjálfbærari stefnu en áður á árinu 2021. Leiðin var mörkuð með framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2030. Auk áherslunnar á græn málefni veitir framkvæmdaáætlun næstu fjögurra ára samstarfinu við almannasamtök aukið vægi.

Með framtíðarsýninni er ætlast til að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims og að starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar stuðli að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.

„Þetta kunna að þykja stór orð en áætlunin er metnaðarfull og markviss.“

Norðurlönd eiga að vera forystusvæði sem byggist á sameiginlegum gildum okkar og hæfni til að þróa sameiginlegar lausnir, segir Flemming Møller Mortensen, norrænn samstarfsráðherra Danmerkur.

„Við höfum svo sannarlega fært til þungamiðjuna í starfseminni. Fjárveitingar til grænna málefna hækka um liðlega 30 milljónir danskra króna árið 2021 og aukast enn á hverju ári til 2024,“ segir Flemming Møller Mortensen.

Tólf markmið samstarfsins

Norrænu samstarfsráðherrarnir samþykktu framkvæmdaáætlunina í formennskutíð Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni. Undirbúningurinn fór fram í nánu samráði við Norðurlandaráð til að stilla saman strengina fyrir öflugt samstarf á næstu fjórum árum. Í því skyni að hafa borgaralegt samfélag með í ráðum, einkum og sér í lagi ungt fólk, var haldinn fjöldi umræðufunda.

Samkvæmt framkvæmdaáætluninni er Norrænu ráðherranefndinni ætlað að vinna að tólf skilgreindum markmiðum á gildistímanum. Er meðal annars um að ræða pólitíska stefnumörkun til að efla hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu sem og sjálfbær matvælakerfi.

Áhersla á helstu úrlausnarefni samtímans

Norræna ráðherranefndin reynir einnig að fá alla Norðurlandabúa í lið með sér í baráttunni fyrir sjálfbærum neysluvenjum. Áform eru uppi um aðgerðir sem eiga að auðvelda norrænum neytendum og gera það eftirsóknarvert fyrir þá að velja hollar, vistvænar og loftslagsvænar vörur.

„Í norrænu samstarf eigum við að leggja áherslu á helstu úrlausnarefni samtímans,“ segir Kaj Leo Holm Johannesen, norrænn samstarfsráðherra Færeyja. „COVID-19 skall á okkur árið 2020 og við eigum að draga lærdóm af þeirri reynslu sem það gaf okkur. Farsóttin verður einnig í brennidepli í starfsemi okkar á næsta ári, bæði hvað varðar heilbrigðissamstarfið og önnur svið. Við ætlum sérstaklega að einbeita okkur að grænni enduruppbyggingu,“ segir Kaj Leo Holm Johannesen. „Við munum enn fremur halda áfram samræðum okkar um samstarf á háskalegum tímum.“

Aukið samstarf við borgaralegt samfélag

Viðleitni til að fá íbúa Norðurlanda til beinnar þátttöku gengur eins og rauður þráður gegnum áætlanir næstu ára. Samstarfsráðherrar Norðurlanda hafa samþykkt áætlun um eflt samstarf við almannasamtök og verður henni hrint í framkvæmd á vormánuðum 2021. Norræna ráðherranefndin hyggst koma á samstarfsneti í borgaralegu samfélagi og er hugmyndin að það styðji við verkefnið og opni fyrir opinbert samráð sem gefur haghöfum meðal almennings tækifæri til að hafa áhrif á væntanleg verkefni og áætlanir.

Steen Lynge, norræn samstarfsráðherra Grænlands, bendir sérstaklega á að unnið hafi verið að því að afla norrænu samstarfi almenns og víðtæks stuðnings meðan Danir, Grænlendingar og Færeyingar fóru sameiginlega með formennskuna.

„Markmið formennskunnar var að efla Norðurlönd og þróa áfram verkefni sem greiða fyrir sjálfbærri efnahagslegri þróun á svæðinu. Þetta á að gerast með aðild borgaranna, atvinnulífsins, almannasamtaka og ekki síst unga fólksins,“ segir hann.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, tekur í sama streng.

„Ráðherrarnir hafa einnig orðið sammála um þrjú þverlæg sjónarmið sem hafa skulu áhrif á allt starf Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir hún. „Þessi sjónarmið eru sjálfbær þróun, jafnrétti sem og réttindi barna og málefni ungmenna.“

Ætlunin er að norrænt samstarf verði einnig að öðru leyti þverfaglegra en áður.

„Við hvetjum alla til að hætta sér út fyrir túnfótinn,“ segir Paula Lehtomäki. „Við nútímavæðum samstarfið og það verður skilvirkara um leið,“ bætir hún við að lokum.