Framkvæmdaáætlun um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Handlingsplan for vores vision 2030
Photographer
Unsplash.com, Maud Lervik/Norden.org og Visit Denmark
Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030 hefur verið samþykkt af norrænu samstarfsráðherrunum og gildir hún fyrir tímabilið 2021–2024.

Í framkvæmdaáætluninni er því lýst hvernig Norræna ráðherranefndin hyggst vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Hinar stefnumarkandi áherslur og markmið munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt hinna tólf markmiða.

Stjórnun, eftirfylgni og skýrslugjöf

Til að tryggja að starfið í tengslum við framtíðarsýn fyrir árið 2030 skili raunverulegum árangri hefur verið útbúið líkan til að meta framvindu starfsins. Ýmsir þróunarvísar sem gera okkur kleift að fylgjast með framvindu starfsins á öllum Norðurlöndum hafa verið skilgreindir. Um leið verður sameiginlegt framlag landanna til þess að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi metið.

 

Sérstaklega verður fylgst með því hvaða áhrif verkefni sem eru samþykkt í norræna samstarfinu hafa og hvernig þau eiga þátt í að móta heildarmynd svæðisins. Niðurstöður starfs ráðherranefndarinnar verða teknar saman í tveimur skýrslum. Framkvæmdaáætlunin verður metin með áfangaskýrslu á miðju tímabilinu vorið 2022 og lokaskýrslu verður skilað til forsætisráðherra Norðurlandanna vorið 2024.

Samþætting sjónarmiða og aukin þátttaka borgaralegs samfélags

Í júní 2020 ákváðu norrænu samstarfsráðherrarnir (MR-SAM) að Norræna ráðherranefndin skyldi auka samvinnu sína við borgaralegt samfélag á Norðurlöndum árin 2021 til 2024. Um leið var tekin ákvörðun um nýja stefnu um samþættingu þriggja sjónarmiða þvert á fagsvið í öllu starfi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Sjónarmiðin sem skulu hafa áhrif á alla starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar eru:

  1. Sjálfbær þróun
  2. Jafnrétti
  3. Sjónarmið réttinda barna og málefna ungmenna

 

Norræna ráðherranefndin á nú þegar í virku samstarfi við borgaralegt samfélag en nýja áætlunin kynnir til sögunnar ný aðgerðasvið og skýrari ramma utan um samvinnuna. Þátttaka almennings skal vera markviss og studd af nýju norrænu samstarfsneti almennings. Auk þess verður umgjörð um opinbert samráð á vefsíðu norræns samstarfs, Norden.org.

 

Komið verður á fót styrkjaáætlun sem gefur aðilum í samfélaginu kost á að sækja um styrki til að sækja fundi á öðrum Norðurlöndum. Auknum stuðningi við félagasamtök er ætlað að auka samskipti milli landanna og þar með auka gagnkvæman skilning á menningu og tungumálum þeirra. Auk hinnar nýju styrkjaáætlunar standa ýmsar aðrar áætlanir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar félagasamtökum á Norðurlöndum til boða.

Þverfaglegt samstarf

Aukið þverfaglegt samstarf innan Norrænu ráðherranefndarinnar er eitt mikilvægasta markmið framkvæmdaáætlunarinnar, en tilgangurinn er bæta samstarfið og gera það skilvirkara.

Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa úthlutað 40 milljónum danskra króna í þverfagleg verkefni á tímabilinu 2021–2024. Þverfaglegu verkefnin eru hluti af framkvæmdaáætluninni um framtíðarsýn fyrir árið 2030 og tengjast mörgum af markmiðunum tólf um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Á tímabilinu 2021-2024 mun Norræna ráðherranefndin leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi:

1. Kolefnishlutleysi og loftslagsaðlögun

Efla rannsóknir, þróun og framgang lausna sem stuðla að kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum, til dæmis í samgöngum, byggingum, matvælum og orkumálum.

2. Líffræðileg fjölbreytni

Tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu lands og sjávar á Norðurlöndum.

3. Sjálfbær framleiðsla

Efla hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu, sjálfbær matvælakerfi og hringrásir á Norðurlöndum þar sem auðlindir eru vel nýttar og eru án eiturefna.

4. Sjálfbær neysla

Auðvelda norrænum neytendum og gera það eftirsóknarvert að velja hollar, vistvænar og loftslagsvænar vörur með sameiginlegum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærri neyslu.

5. Alþjóðasamstarf um umhverfis- og loftslagsmál

Stuðla að jákvæðri þróun í alþjóðasamstarfi um umhverfis- og loftslagsmál, til dæmis með því að liðka fyrir norrænum grænum lausnum víðar um heim.

6. Þekking og nýsköpun

Styðja þekkingu og nýsköpun og auðvelda fyrirtækjum á öllum Norðurlöndum að nýta til fulls þá þróunarmöguleika sem felast í grænum, tæknilegum og stafrænum umskiptum og hinu vaxandi lífhagkerfi.

7. Vinnumál

Þróa færni og öfluga vinnumarkaði sem standast kröfur grænna umskipta og stafrænnar þróunar og sem styðja frjálsa för á Norðurlöndum.

8. Frjáls för og stjórnsýsluhindranir

Nýta stafræn umskipti og menntun til að færa Norðurlöndin nær hvert öðru.

9. Velferðarþjónusta fyrir alla

Stuðla að gæðum, jafnræði og öryggi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir alla.

10. Inngildandi græn og stafræn umskipti

10. Beita sér fyrir því að almenningur á Norðurlöndum taki þátt í grænum umskiptum og stafrænni þróun, nýta sóknarfæri umskiptanna og vinna gegn því að umskiptin auki ójöfnuð í samfélaginu.

11. Samstarf við borgarlegt samfélag

Veita borgaralegu samfélagi á Norðurlöndum, einkum börnum og ungu fólki, sterkari rödd og aðild að norrænu samstarfi og auka þekkingu á tungumálum og menningu frændþjóðanna. 

12. Traust og samheldni á Norðurlöndum

Viðhalda trausti og samheldni á Norðurlöndum, sameiginlegum gildum og norrænu samfélagi með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, inngildingu, jafnræði og tjáningarfrelsi.