Lýðræði, öryggi og loftslag – lykilorð í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum

21.03.23 | Fréttir
Helge Orten
Photographer
Eyþór Árnason/norden.org
Norðurlandaráð á að vinna í þágu lýðræðis, mannréttinda og grænna umskipta á alþjóðavettvangi. Kveðið er á um þetta í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum sem samþykkt var á þemaþinginu í Reykjavík.

„Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hefur sett öryggismál í Evrópu í uppnám. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir bráðum loftslagsvanda. Alþjóðlegt samstarf hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú. Norðurlönd standa þéttar saman en nokkru sinni og íbúar þeirra kalla eftir enn nánara norrænu samstarfi. Helsta forgangsmál Norðurlanda á að vera að standa vörð um lýðræði, frið og mannréttindi og efla samstarf okkar við lönd sem deila þeim gildum með okkur,“ segir Helge Orten, varaforseti Norðurlandaráðs.

Í stefnunni er lögð áhersla á þrjú svið: Öryggi á Norðurlöndum og nágrenni þeirra, heimsskipan sem byggist á reglum og norræna velferðarlíkanið, sjálfbær þróun á Norðurlöndum og á alþjóðavísu. Jafnframt er áhersla lögð á mikilvægi þess að norrænu löndin vinni enn nánar saman þegar kemur að því að takast á við úrlausnarefnin fram undan. Stefnan var samþykkt á þemaþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 15. mars.

Tíminn líður í loftslagsmálum

„Stigvaxandi loftslagsbreytingar gera þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir enn erfiðari. Norðurlönd hafa það sem til þarf til að vera í fararbroddi og verða sjálfbærasta svæði heims. Við verðum að tala fyrir því á alþjóðavettvangi að flýta fyrir grænum umskiptum,“ heldur Helge Orten áfram.

Í stefnunni er áhersla lögð á að græn umskipti séu forsenda velferðar og öryggis í heiminum. Auknar loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni hefur áhrif á aðgengi að mat, vatni, orku og öðrum náttúruauðlindum. Norðurlandaráð á að knýja á um það í alþjóðasamstarfi sínu að grænum umskiptum verði hrint í framkvæmd og að þau gangi hraðar fyrir sig.

Velferðarlíkanið eykur viðnámsþrótt okkar

„Kannski er það það besta sem við getum gert til að uppfylla kröfurnar um umhverfislega, félagslega og efnahagslega sjálfbærni að viðhalda norræna velferðarlíkaninu. Geta okkar til að takast á við krísur byggist á velferðarlíkaninu. Þess vegna er það mikilvægur liður í alþjóðlegu samstarfi okkar að miðla reynslu okkar af norræna velferðarlíkaninu,“ segir Erkki Tuomioja, fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs.

Í stefnunni er norræna velferðarlíkaninu lýst sem mikilvægu framlagi til alþjóðasamfélagsins. Norðurlandaráð telur Norðurlönd búa yfir mikilli þekkingu á þessu sviði sem þau geta miðlað til heimsins.

Jafnrétti á að vera sjálfsagt

Í stefnunni er sérstök áhersla lögð á samfélagshópa sem þrengt er að vegna kynferðis, kynhneigðar, uppruna eða fötlunar.

„Jafnrétti er ein af grundvallarstoðum norrænna samfélaga, rétt eins og lýðræði og réttaröryggi. Hart er sótt að þessum gildum og Norðurlönd geta lagt sitt af mörkum með því að verja þessi gildi ávallt með skýrum hætti,“ segir Helge Orten.