Norðurlöndin þurfa aukið orkusamstarf – ekki minna

14.03.23 | Fréttir
Ola Elvestuen
Photographer
Eyþór Árnason/norden.org
Það sem er gott getur enn batnað. Norrænt orkusamstarf er einstakt í heiminum og á sér 100 ára langa sögu. Þrátt fyrir að oft sé vísað á Norðurlöndin sem fyrirmynd í alþjóðlegu samhengi hefur orkukreppan sýnt að einnig við erum berskjölduð. Þess vegna, samkvæmt nýrri skýrslu sem kynnt var á þemaþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík, þurfum við að auka og þróa samstarf um orkumál.

Skýrslan "The Nordic Energy Trilemma - Security of Supply, Prices and the Just Transition", sem Norrænar orkurannsóknir gáfu nýlega út, var grundvöllur þemaþings þessa árs. Í skýrslunni er spurningum varpað fram um þríþættan vanda og settar fram tillögur um hvernig leysa má hann, þ.e. hvernig þróa má norræna orkugeirann þannig að hann stuðli að grænum umskiptum, hvernig má tryggja orkuframboð og hvernig það má gera á verði sem allir geta greitt. Skilaboð Klaus Skytte, framkvæmdastjóra Norrænna orkurannsókna, til þingmannanna voru skýr.

„Við verðum að tryggja orkuframboð en við verðum einnig að tryggja öll á Norðurlöndum hafi aðgang að sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Til skamms tíma þýðir það að græn umskipti verða að fara fram eins hratt og hnökralaust og mögulegt er til að við á Norðurlöndum verðum sjálfbjarga og sjálfbær. Til langs tíma þurfum við fjölbreytt orkukerfi sem tryggir að við getum unnið saman og nýtt styrkleika hvers annars, um leið og við tryggjum þátttöku allra,“ sagði Skytte.

Við verðum að tryggja orkuframboð en við verðum einnig að tryggja öll á Norðurlöndum hafi aðgang að sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði.

Klaus Skytte, framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna

Ekki jafn traust og við héldum

Í umræðum á norrænum þjóðþingum hafa ýmsir þingmenn talað fyrir landsbundnum lausnum sem einangra löndin. Helsti drifkraftur þessarar umræðu eru þær miklu verðhækkanir sem bitna verst á þeim sem minnst mega sín. Opinberar stofnanir í löndunum hafa einnig lýst yfir áhyggjum af aðfangaöryggi og varað við því að mögulega þurfi að skammta orku. Ola Elvestuen, formaður Norrænu sjálfbærninefndarinnar, telur norrænt orkusamstarf þó gegna algjöru lykilhlutverki.

„Við verðum að vinna betur saman, bæði að orkukreppunni eftir grimmilega árás Rússlands á Úkraínu og þeim nauðsynlegu umskiptum sem verða að eiga sér stað á Norðurlöndum, um leið og við vinnum með Evrópu að því að gera hana óháða rússnesku gasi.“

Á krepputímum er mikilvægt að missa ekki móðinn. Norrænt orkusamstarf hefur í gegnum árin gagnast öllu svæðinu og það hefur enn marga kosti í för með sér. Norðurlöndin búa yfir fjölbreyttum orkugjöfum og vega þannig upp veikleika hvers annars. Samstarfið hefur tryggt bæði borgurum og atvinnulífi öruggt orkuframboð á góðum kjörum. Nú hafa bæði aðfangaöryggið og verðið breyst.

Staða okkar er góð því við höfum átt gott samstarf í fjölda áratuga. Nú verðum við að stíga ölduna ...

Ola Elvestuen, formaður Norrænu sjálfbærninefndarinnar

„Staða okkar er góð því við höfum átt gott samstarf í fjölda áratuga. Nú verðum við að stíga ölduna og bregðast hraðar við ólíkum viðfangsefnum og læra hvert af öðru til að við getum unnið vel í sameiningu að því að tryggja umskipti yfir í sjálfbærari orkugjafa.“

Ekki mikill tími til stefnu

Orkukreppan hefur sýnt okkur virði þess að eiga öflugt norrænt orkumálasamstarf. Þess vegna er aukið samstarf mikilvægt til að Norðurlöndin verði búin undir landfræðipólitískar áskoranir framtíðarinnar, en einnig þarf efla vinnuna að umskiptum yfir í græna orku. Elvestuen bendir á að þrátt fyrir að við séum í miðri orkukreppu megum við ekki gleyma við að við erum einnig í miðjum loftlagsvanda.

„Það er ekki mikill tími til stefnu, því við þurfum einnig að ná loftlagsmarkmiðum okkar. Við þurfum að ná markmiðinu um 1,5 gráður sem allra fyrst og þess vegna þurfum við á umskiptunum að halda. Orkuþróunarstarf okkar, hvort sem um er að ræða vindorku, uppfærslu vatnsvirkjana, líforku eða annað, verður að gerast hratt.“