Ný útgáfa norrænna næringarráðlegginga kemur út 20. júní

26.05.23 | Fréttir
Harpa, kulturhus på Island
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Þann 20. júní verður sjötta útgáfa norrænna næringarráðlegginga gefin út og kynnt á alþjóðlegum viðburði á Íslandi. Í fyrsta sinn mun skýrslan innihalda vísindalegar næringarráðleggingar sem lúta ekki aðeins að heilsufarslegum þáttum heldur einnig umhverfislegum.

„Með nýju útgáfunni af norrænum næringarráðleggingum er unnið djarft brautryðjendastarf. Hún inniheldur leiðbeiningar um matarvenjur sem eru hollar heilsu bæði okkar og jarðarinnar,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sem óskaði eftir skýrslunni og fjármagnaði hana.

Sterkur vísindalegur grunnur

Sem fyrr er fjallað um það í næringarráðleggingunum í hve miklu magni líkaminn þarf vítamín og steinefni, fitu og kolvetni.

Skýrslan hefur mikið vísindalegt gildi. Hún hefur í fjóra áratugi verið höfð til grundvallar við næringarráðleggingar í norrænu og baltnesku löndunum og verið notuð til að bjóða upp á heilnæman mat í opinberum mötuneytum, í skólum, á elliheimilum og sjúkrahúsum.

Í nýju útgáfunni taka ráðleggingarnar jafnframt í fyrsta sinn tillit til bæði heilsufarslegra, loftslagstengdra og umhverfislegra þátta.

Nýjar niðurstöður varðandi kjöt og sykur

Miklar rannsóknir hafa farið fram frá síðustu útgáfu árið 2012. Skýrslan sem nú kemur út er afrakstur fimm ára vinnu um það bil 400 norrænna og erlendra vísindamanna sem farið hafa yfir mörg þúsund rannsóknir.

Búist er við því að hin nýja skýrsla muni meðal annars innihalda nýjungar þegar kemur að ráðlögðum hámarksskammti af sykri og magni heilkorns í mataræði. Gert er ráð fyrir því að mælt verði með minni kjötneyslu, bæði af heilsufarslegum og umhverfislegum ástæðum, en það hefur nú þegar vakið umræður þótt skýrslan sé enn ekki komin út.

Fylgist með á netinu

Fjölmiðlar og boðsgestir geta verið viðstaddir kynningarviðburðinn í Hörpu en einnig verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu á netinu klukkan 14.00–15.30 að íslenskum tíma.

Rune Blomhoff, verkefnastjóri nýju norrænu næringarráðlegginganna og prófessor við háskólann í Ósló, kynnir skýrsluna.

Blaðamannafundur 20. júní

Dagurinn hefst á blaðamannafundi kl. 8.00–8:45 (10.00–10.45 CEST) í Hörpu í Reykjavík. Hægt verður að taka þátt í blaðamannafundinum á staðnum eða í gegnum Zoom. Fundurinn fer fram á ensku.

Þátttakendur:

  • Rune Blomhoff, prófessor við háskólann í Ósló og verkefnisstjóri Norrænna næringarráðlegginga 2023 
  • Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar 
  • Stefanos Fotiou, framkvæmdastjóri Samræmingarskrifstofu matvælakerfa og skrifstofu sjálfbærrar þróunar hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ

Staðreyndir um Norrænu næringarráðleggingarnar, NNR

  • Norrænar næringarráðleggingar eru vísindalegur grunnur fyrir matvælaráðleggingar hins opinbera á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum.
  • Norrænar næringarráðleggingar eru því ekki það sama og matvælaráðleggingar landanna. Það eru stjórnvöld í hverju landi fyrir sig sem gefa út matvælaráðleggingar viðkomandi lands.
  • Í hinni nýju skýrslu voru áhrif 36 næringarefna og 15 matvælaflokka á heilsu könnuð.
  • Nefnd sem skipuð er fulltrúum heilbrigðis- og matvælayfirvalda í norrænum löndunum fer fyrir starfinu.
  • Áður en skýrslan verður kynnt þann 20. júní 2023 munu 70 bakgrunnsskýrslur, ásamt drögum að norrænu næringarráðleggingunum, hafa verið í samráðsgátt í átta vikur.
  • Samstarf norrænu landanna fimm hefur getið af sér fimm eldri útgáfur Norrænna næringarráðlegginga en sú fyrsta kom út árið 1980.
  • Stjórnvöld, vísindamenn og nemendur um allan heim hafa hlaðið niður nýjustu útgáfunni, sem kom út árið 2012, meira en 300 þúsund sinnum.
Contact information