Alþjóðlegur áhugi á nýju norrænu næringarráðleggingunum – hér er dagskrá kynningarinnar

09.06.23 | Fréttir
NNR2023 highlevel panel
Ljósmyndari
norden.org
Kynning nýrra norrænna næringarráðlegginga sem fara mun fram þann 20. júní vekur áhuga á alþjóðavettvangi. Fulltrúar frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og náttúruverndarsamtökunum World Wildlife Foundation munu flytja erindi á kynningunni sem haldin verður á Íslandi.

Sjötta útgáfa norrænu næringarráðlegginganna verður kynnt þann 20. júní en hún er byggð á nýjustu rannsóknum um næringarefni og matvæli og áhrif þeirra á heilsu.

Þessi nýja útgáfa skýrslunnar er ekki síst fréttnæm fyrir þær sakir að hún mun í fyrsta sinn innihalda vísindalegar næringarráðleggingar sem lúta ekki aðeins að heilsufarslegum þáttum heldur einnig umhverfislegum.

„Hollur og umhverfisvænn matur á að vera öllum aðgengilegur“

„Við fögnum því að Norðurlönd hafi tekið saman nýjar og vísindalegar ráðleggingar með hliðsjón af bæði lýðheilsu og umhverfismálum og hvetjum önnur lönd til að gefa út leiðbeiningar um heilnæmar og sjálfbærar matarvenjur sem eiga við miðað við þeirra eigin forsendur,“ segir Joao Campari, yfirmaður matvælasviðs WWF.

„Með leiðbeiningunum þurfa auðvitað líka að fylgja breytingar á matvælakerfunum til þess að hollur og umhverfisvænn matur verði öllum aðgengilegur,“ bætir hann við.

Byggðar á nýjustu þekkingu sem völ er á

Norrænu næringarráðleggingarnar eru á meðal helstu vísindalegu samantekta í heiminum um hollt mataræði og njóta mikillar virðingar alþjóðlega.

Þær eru enda afrakstur einstaks svæðasamstarfs.

Ráðleggingarnar eru uppfærðar á um það bil tíu ára fresti til þess að þær endurspegli nýjustu þekkingu hverju sinni.

Eftirspurn frá ESB, Bandaríkjunum og Kanada

Þegar ráðleggingarnar koma út eru matvæla- og heilbrigðisyfirvöld landanna í startholunum að vinna næringarráð hvers lands fyrir sig út frá þeim.

 

 „Norrænu næringarráðleggingarnar eru mikilvægur vísandalegur grunnur þegar kemur að því að hvetja til hollra matarvenja og breyta matvælakerfinu í Danmörku. Samþætting heilsu og sjálfbærni mun styrkja okkur í vinnu okkar í tengslum við matvælaráðleggingar sem byggjast á jurtaríku mataræði. Við hlökkum mjög til að sjá nýju næringarráðleggingarnar,“ segir Anne Pøhl Enevoldsen, deildarstjóri á deild sjálfbærra matvæla og heilsu hjá Matvælastofnun Danmerkur.

 

Alþjóðaheilbrigðsmálastofnunin og heilbrigðisyfirvöld í ESB, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Ástralíu bíða sömuleiðis spennt eftir nýju útgáfunni.

Alþjóðlegir fyrirlesarar

Dagskrá kynningarviðburðarins þann 20. júní kl. 14.00–15.30 endurspeglar áhuga alþjóðasamfélagsins.

Eftirfarandi munu flytja erindi:

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) (upptaka) 

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra Íslands 

Stefanos Fotiou, framkvæmdastjóri Samræmingarskrifstofu matvælakerfa og skrifstofu sjálfbærrar þróunar hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ 

Joao Campari, yfirmaður matvælasviðs World Wildlife Foundation (WWF) 

Rune Blomhoff, prófessor við háskólann í Ósló og verkefnisstjóri Norrænna næringarráðlegginga 2023 

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar 

Ola Elvestuen, formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar, Norðurlandaráði 

Anne Pøhl Enevoldsen, deildarstjóri hjá Matvælastofnun Danmerkur 

Dr. Amanda Wood, vísindamaður, Resilience Centre í Stokkhólmi

UPPLÝSINGAR FYRIR FJÖLMIÐLA

Fyrir kynninguna verður haldinn blaðamannafundur klukkan 8.00–8.45 auk málþings klukkan 9.00–11.00.

 

Hægt verður að fylgjast með öllum dagskrárliðum á netinu. Hægt verður að taka þátt í blaðamannafundinum bæði á staðnum og í gegnum netið.

 

Tengla vegna skráningar og annarra hagnýtra upplýsinga má nálgast hér:

 

Tengiliður