Samráð við almenning: Sjálfbærniþættir norrænna næringarráðlegginga

31.01.23 | Fréttir
Nordic Nutrition Recommendations food
Photographer
Asger Ladefoged/Ritzau Scanpix
Sjálfbærniútgáfu norrænu næringarráðlegginganna (NNR) verður hleypt af stokkunum í júní 2023. Í öllu vinnuferlinu við lokaskýrsluna hafa gagnsæi og samvinna verið lykilatriði og samráð haft við almenning um hvern kafla. NNR-nefndin tekur nú á móti öllum viðeigandi athugasemdum varðandi drögin að bakgrunnsskjölunum þremur um sjálfbærniþætti sem verið er að þróa fyrir verkefnið.

Væntanlegar norrænar næringarráðleggingar (NNR2022) verða nákvæmustu og yfirgripsmestu  leiðbeiningar um heilnæmt og sjálfbært mataræði sem standa til boða. Í þessari sjöttu útgáfu verður líka í fyrsta sinn tekið mið af sjálfbærni í leiðbeiningunum um mataræði. 

Áður en skýrslan kemur út munu fleiri en 60 bakgrunnsskýrslur, auk endanlegrar útgáfu norrænu næringarráðlegginganna, hafa verið opnar almenningi um átta vikna skeið. Þessi bætta aðferðafræði hefur vakið athygli heilbrigðisyfirvalda um heim allan. 

Rannsóknir um sjálfbærni

Nú eru síðustu þrjú drögin að bakgrunnsskjölum um sjálfbærniþætti, sem verið er að þróa fyrir verkefnið, aðgengileg í opinni samráðsgátt til 24. mars. NNR-nefndin auglýsir eftir viðeigandi framlögum og athugasemdum, sem verða því næst tekin til skoðunar af hálfu nefndarinnar og viðkomandi höfunda.

Skjölin eru þrjú bakgrunnsskjöl af fimm sem ætlað er að aðstoða nefndina við undirbúning skýrslunnar um 2022-útgáfu norrænu næringarráðlegginganna. Þegar hefur verð tilkynnt um samráð við almenning um tvö þessara bakgrunnsskjala. Við þróun leiðbeininga um sjálfbært mataræði verður litið til nokkurra helstu skýrslna sem fjalla um umhverfismál og aðra sjálfbærniþætti, auk bakgrunnsskjala úr vinnunni við væntanlega útgáfu næringarráðlegginganna. 

Um norrænu næringarráðleggingarnar

Norrænar næringarráðleggingar mynda vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Alþjóðlegt samstarf norrænu ríkjanna fimm hefur getið af sér fimm fyrri útgáfur norrænu næringarráðlegginganna. 

Fyrsta útgáfan kom út árið 1980 og hafa ráðleggingarnar alla tíð hlotið mikla athygli á alþjóðavísu. Valdhafar, rannsakendur og nemendur um allan heim hafa hlaðið niður núverandi útgáfunni, frá 2012, meira en 300 þúsund sinnum. Ný sjálfbærniútgáfa norrænu næringarráðlegginganna verður gefin út í júní 2023. 

Contact information