Nýjar norrænar næringarráðleggingar í samráðsgátt

31.03.23 | Fréttir
Nordiska näringsrekommendationerna
Ljósmyndari
Yadid Levy/norden.org
Hvaða nýju þekkingu höfum við á áhrifum matar á heilsufar og á umhverfi og loftslag? Eigum við að breyta inntöku vítamíns og steinefna? Hvað á maður að borða mikið af ávöxtum og berjum? Í dag fara uppfærðar norrænar næringarráðleggingar í samráðsgátt. Skýrslan er afrakstur fimm ára vinnu með aðkomu um það bil 400 vísindamanna.

Norrænu næringarráðleggingarnar eru ráð sem byggð eru á vísindalegum grunni og notuð eru á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum til að semja innlend ráð um mataræði. Sjötta útgáfa næringarráðlegginganna, NNR 2023, kemur út þann 20. júní 2023 og næstu átta vikurnar verður hægt að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum varðandi þær. Þegar hafa um 60 bakgrunnsskýrslur farið í gegnum samráðsferli.

Áhrif matvæla á heilsu og sjálfbærni

Norrænt samstarf um sameiginlegar næringarráðleggingar er einstakt og hefur staðið yfir frá því á níunda áratug síðustu aldar. Síðasta útgáfa þeirra kom út árið 2012 og hefur verið sótt meira en 300 þúsund sinnum af fólki sem með ýmsum hætti vinnur í tengslum við matvæli og heilnæmar matarvenjur um allan heim.

Í nýjustu útgáfunni leit NNR-nefndin ekki aðeins til heilsufarslegra þátta í tengslum við matinn sem við borðum heldur er í fyrsta sinn einnig horft til áhrifa matvæla á umhverfi og loftslag. Sú nálgun hefur vakið mikinn áhuga, jafnt innan norrænu landanna sem á alþjóðavísu.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem við kynnum matvælaráð, byggð á vísindalegum grunni, sem lúta ekki aðeins að heilsu heldur taka einnig til umhverfislegra þátta. Norðurlönd eru á meðal fyrstu svæða í heimi sem ganga fram fyrir skjöldu og stíga saman þetta djarfa skref sem án vafa mun kveikja áhugaverðar umræður,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norræn umgjörð um þróun næringarráða landanna

Þökk sé hinu einstaka samstarfi á sviði næringarráðlegginga hafa löndin sameiginlegan grundvöll, sem byggist á gögnum, þegar þau taka saman sín eigin næringarráð fyrir íbúa sína. Meðal annars er fjallað um það hversu mikið af vítamíni og steinefnum líkaminn þarf til þess að þroskast og starfa. Einnig er fjallað um stöðu þekkingar okkar á fitu og kolvetnum og sambandið á milli matarvenja og hættu á neyslutengdum sjúkdómum. Það eru stjórnvöld í hverju hinna átta landa fyrir sig sem gefa út endanleg næringarráð viðkomandi lands.

„NNR-nefndin sem vann að nýju ráðleggingunum á ekki að leggja mat á eða ráðleggja um matvælaframleiðslu og landbúnaðaraðferðir. Nýju skýrslunni er ætlað að veita yfirvöldum vísindaleg ráð sem þau vinna svo áfram með til að taka saman næringarráð landanna átta. Landbúnaðaraðferðir, framleiðsla og innflutningur á matvælum og sjálfsnægtastig er nokkuð sem metið er í hverju landi fyrir sig,“ segir Rune Blomhoff prófessor, sem fer fyrir NNR-nefndinni.

Við vinnslu hinnar væntanlegu skýrslu voru áhrif 36 næringarefna og 15 matvælaflokka á heilsu rannsökuð og tekin saman í tæknilegum skýrslum þar sem farið var með kerfisbundnum hætti yfir mörg þúsund rannsóknir. Skýrslan inniheldur jafnframt bakgrunnsskýrslur um alla þætti sjálfbærni en einungis verða gefnar ráðleggingar varðandi umhverfislega þætti. Aðrir þættir eru of háðir samhengi og því þarf að vinna nánar með þá í hverju landi fyrir sig.

Nánari upplýsingar

Tengiliður