Forsætisráðherra Íslands mun setja kynningarathöfn vegna Norrænna næringarráðlegginga

14.06.23 | Fréttir
Katrin Jakobsdottir
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, mun flytja opnunarávarp við kynninguna sem fram fer í Hörpu þann 20. júní. Mikill áhugi er á kynningunni erlendis frá og verða bæði ræðumenn og gestir víðs vegar að úr heiminum viðstaddir. Allir geta fylgst með dagskránni á netinu.

„Græn umskipti á Norðurlöndum byrja með matvælunum. Nýja útgáfan af Norrænu næringarráðleggingunum sýnir glöggt sambandið á milli heilsu og loftslags og þörfina á því að loftslagsaðgerðir nái til allra þátta í lífi okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir sem fer fyrir samstarfinu í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári þegar Ísland gegnir þar formennsku.

Heilsu og umhverfismálum fléttað saman í fyrsta sinn

Græn umskipti á Norðurlöndum eru lykilatriði í formennskutíð Íslendinga og þar leika nýju næringarráðleggingarnar mikilvægt hlutverk.

Það er sjötta útgáfa norrænu næringarráðlegginganna sem verður kynnt þann 20. júní.

Þessi nýja útgáfa skýrslunnar er sérstaklega fréttnæm fyrir þær sakir að hún mun í fyrsta sinn innihalda vísindalegar næringarráðleggingar sem lúta bæði að heilsufarslegum þáttum og umhverfislegum.

Matvæli í lykilhlutverki í loftslagsvinnunni

Núverandi matarvenjur okkar koma illa niður á loftslaginu og umhverfinu.

Rekja má þriðjung allrar losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum til matvælakerfa.

Þess vegna gegna matvæli lykilhlutverki í loftslagsvinnunni.

Þörf á nýjum matarvenjum

Oft fer það saman að matur sem er loftslags- og umhverfisvænn er líka hollur heilsu manna.

Helmingur Norðurlandabúa glímir við ofþyngd eða offitu sem er undirliggjandi þáttur í mörgum sjúkdómum. Matarvenjur leika stórt hlutverk í því að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, sykursýki og aðra kvilla sem tengjast ofþyngd.

Norrænu næringarráðleggingar eru sá vísindalegi grunnur sem löndin byggja næringarráð sín á. Næringarráðin segja meðal annars oft til um það hvaða mat er boðið upp á í mötuneytum á vegum hins opinbera í löndunum.

Norrænt samstarf er forsendan

Löndin hafa ekki tök á því hvert um sig að vinna svo yfirgripsmikla vísindalega skýrslu.

Norrænt samstarf hefur verið og er enn forsenda fyrir vinnslu norrænu næringarráðlegginganna.

    Þrír viðburðir fara fram yfir daginn og hægt er að fylgjast með þeim á netinu:

    Blaðamannafundur kl. 8.00 að íslenskum tíma (kl. 10.00 ef tekið er þátt í gegnum netið frá Stokkhólmi, Ósló eða Kaupmannahöfn og kl. 11.00 í Helsinki)


    Rannsóknarvefþing kl. 9.00 að íslenskum tíma (kl. 11.00 ef tekið er þátt í gegnum netið frá Stokkhólmi, Ósló eða Kaupmannahöfn og kl. 12.00 í Helsinki)


    Kynningarviðburður kl. 14.00 að íslenskum tíma (kl. 16.00 ef tekið er þátt í gegnum netið frá Stokkhólmi, Ósló eða Kaupmannahöfn og kl. 17.00 í Helsinki)

    Contact information