Nýjar norrænar leiðbeiningar um mataræði árið 2022: Taktu þátt í vinnunni

08.10.19 | Fréttir
Frugt og grønt
Photographer
Yadid Levy/Norden.org
Sérfræðingum innan og utan Norðurlanda er nú boðið að taka þátt í opnu samstarfi um að uppfæra 2022-útgáfu af norrænum leiðbeiningum um mataræði. Leiðbeiningarnar liggja til grundvallar næringarstefnu allra norrænu ríkjanna og ráðleggingum þeirra um mataræði. Framlag þitt getur falist í að leggja til málefni og næringarefni þar sem þörf er á að yfirfara allan texta leiðbeininganna en einnig er hægt að sækja um að verða tilnefnd/ur sem vísindalegur sérfræðingur eða leggja fram athugasemdir við verkefnið meðan það er í vinnslu.

Í leiðbeiningum um mataræði kemur fram hvaða matvæli eru talin góð fyrir heilsuna. Í þeim er mælt með því hvaða næringarefna eigi að neyta til þess að bæta næringarbúskapinn og þar eru veitt ráð um hreyfingu fyrir neytendur og opinberar stofnanir. Leiðbeiningarnar liggja einnig til grundvallar fyrir norræna næringarmerkið Skráargatið og samstarf milli opinberra aðila og einkaaðila svo sem danska Heilhveitimerkið og finnska Hjartamerkið. Merkingarnar veita neytendum ráð um holla valkosti og matvælaframleiðendum leiðbeiningar um betri vöruþróun.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar segir að mikilvægi mataræðis fyrir heilsu okkar og jörðina sem við byggjum sé nú til umræðu sem aldrei fyrr.

„Íbúar Norðurlanda og matvælaframleiðendur gera ráð fyrir að yfirvöld veiti leiðbeiningar sem byggja á vísindalegum grunni öllum til gagns. Þess vegna hefjum við starfið í opnu ferli sem á að liggja til grundvallar næringarstefnu norrænu ríkjanna og er ætlað að stuðla að hollum og sjálfbærum matarvenjum á næstu árum,“ segir Paula Lehtomäki. Hún leggur áherslu á að forsætisráðherrarnir munu eiga nánara norrænt samstarf um loftslagsmál

„Vinnan að norrænum leiðbeiningum um mataræði er þess vegna liður í framtíðarsýninni um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.“

Vinnan að norrænum leiðbeiningum um mataræði er þess vegna liður í framtíðarsýninni um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Vísindalegt og sjálfbært

Norrænar leiðbeiningar um mataræði voru fyrst gefnar út árið 1980 og var mikill alþjóðlegur áhugi á þeim. Núverandi leiðbeiningar voru gefnar út 2012 og þeim hefur fram til þessa verið hlaðið niður 100.000 sinnum af ráðafólki, vísindafólki og námsfólki um allan heim. Nýjar vísindaniðurstöður og aukinn skilningur á sjálfbærri framleiðslu og neyslu matar gerir að verkum að nú er þörf á vísindalegu mati og uppfærslu í takti við tímann.

„Þetta er gríðarleg vinna sem nú er að hefjast,“ segir Henriette Øien, sviðsstjóri í Helsedirektoratet. Hún leiðir stýrihóp verkefnisins Nordic Nutrition Recommendations (NNR) 2022.

 „Stöðugt bætast við rannsóknir um mat og heilsu og það skiptir meira máli nú en nokkru sinni að fara skipulega í gegnum þekkingargrunnin á næringarsviðinu,“ segir Henriette Øien.

Áskorunin fyrir Norðurlönd er að tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslu eins og lýst er í 12. sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu þjóðanna. Áherslan á sambandið milli næringar og sjálfbærni verður þess vegna meira áberandi í nýju leiðbeiningunum, sem og að viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd og fækka í hópi þeirra sem eru of þungir.

Traust, gagnsæi og samstarf

Nýja útgáfa norrænu leiðbeininganna um mataræði verður afurð vinnu meira en hundrað sérfræðinga. Verkefnisstjóri vinnunnar er Rune Blomhoff, prófessor við Háskólann í Ósló. Hvert hinna norrænu ríkja skipar tvo fulltrúa í vinnuhópinn og einn fulltrúa í stýrihópinn. Sérfræðingar innan Norðurlandanna og utan eiga að fara í gegnum allar rannsóknir sem máli skipta á sviði næringarmála. Samstarfinu er ætlað að vera opið og vísindalegt og það á að koma skýrt fram að allar niðurstöður séu byggðar á traustum vísindalegum grunni.

Ferlið á að vera opið og öll samskipti eiga sér stað á opinberri heimasíðu þannig að allir geta fylgst með því hverjir taka þátt.

„Gagnsæið um vinnuna með vísindalegan grundvöll leiðbeininganna um mataræði sem við bjóðum almenningi upp á skiptir máli varðandi það traust skapast á ráðunum,“ segir Henriette Øien.

Opnar umsagnir – leggið fram hugmyndir!

Fyrstu stig vinnunnar felast í því að afmarka og greina hvaða málefni og næringarefni við þurfum fyrir nýja, umfangsmikla og kerfisbundna endurskoðun á texta leiðbeininganna.  Hægt verður að leggja fram tillögur að málefnum sem byggja á mikilvægi, nýjum áskorunum varðandi heilsu og nýrri vísindalegri þekkingu. 

Vinnan byggist á því að vísindamenn innan Norðurlanda og utan þeirra leggi sérfræðiþekkingu sína og krafta í verkið. Sérfræðingar eru þess vegna hvattir til þess að sækja útnefndingu sem vísindalegir sérfræðingar í samstarfinu fyrir 1. nóvember. Vinnan felur í sér kerfisbundna yfirferð á textanum og að skrifa og fara í gegnum kaflana.

Nánari upplýsingar um NNR

Norrænar leiðbeiningar um mataræði (NNR) eru vísindalegur grunnur næringarstefnu og ráðlegginga um mataræði í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Samstarfið milli hinna fimm norrænu ríkja hefur alið af sér fimm fyrri útgáfur af NNR.