Norðurlandaráð ræddi þátttöku ungs fólks í stjórnmálaumræðu á fundi með þingforsetum Evrópuráðsríkja
Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og tóku þingforsetar allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins þátt ásamt fulltrúum ýmissa samstarfs-, áheyrnar- og nágrannalanda. Á dagskrá voru meðal annars afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu og hlutverk þjóðþinga við endurreisn Úkraínu, áskoranir fulltrúalýðræðis á umbrotatímum og jafnrétti og margbreytileiki meðal þjóðkjörinna fulltrúa á þjóðþingunum.
Þátttaka ungs fólks mikilvæg
Jorodd Asphjell forseti Norðurlandaráðs hélt erindi á ráðstefnunni um jafnrétti og fulltrúalýðræði og nefndi góða reynslu Norðurlandaráðs af því að virkja ungt fólk til ákvarðanatöku í gegnum Norðurlandaráð æskunnar.
„Við Norðurlandaþjóðir erum stoltar af langri hefð fyrir aðkomu ungs fólks þegar ákvarðanir eru teknar. Norðurlandaráð æskunnar gegnir virku hlutverki í starfi okkar. Unga fólkinu er heimilt að sitja alla fundi okkar og taka til máls. Þau eru mjög áhugasöm í öllum umræðum og fundum sem þau taka þátt í. Þetta er afar mikilvægt fyrir norrænt samstarf,“ sagði Asphjell.
Reglur réttarríkisins, lýðræði og mannréttindi
Asphjell nefndi einnig vinnu Norðurlandaráðs með reglur réttarríkisins, lýðræði og mannréttindi og benti á að einræðisríkjum hefur fjölgað í heiminum undanfarin ár og að Norðurlandaráð beiti sér fyrir því að snúa þeirri þróun við, í löndunum sjálfum og í samstarfi við önnur lýðræðisríki í heiminum.
Auk Jorodd Asphjell tók Kristina Háfoss framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs þátt í ráðstefnunni og sat meðal annars fund skrifstofustjóra þjóðþinga allra aðildarlandanna þar sem rædd voru mál sem eru efst á baugi.
Evrópuráðið er alþjóðleg stofnun sem stofnuð var árið 1949. Markmið ráðsins er að efla gildi svo sem lýðræði, mannréttindi og þróun réttarríkisins. Evrópuráðið er ekki ein af stofnunum Evrópusambandsins.