Norðurlönd sameina krafta sína á World Expo 2025 í Osaka í Japan

28.04.23 | Fréttir
EXPO Japan
Photographer
Alexander Smagin
Norrænu löndin verða með sameiginlegan norrænan skála á heimssýningunni World Expo 2025 í Osaka. Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð taka höndum saman og ætla sér að styrkja tengslin við Japan og japönsk fyrirtæki. Verkefninu er nú ýtt úr vör með byggingarútboði.

Norrænu löndin ætla sér að styrkja tengslin við Japan og japönsk fyrirtæki og þátttaka þeirra á Expo 2025 ber vott um mikinn áhuga á japanska markaðnum. Japan er þriðja stærsta hagkerfi heims með íbúafjölda upp á 126 milljónir og er áhugaverður markaður fyrir sjálfbærar og stafrænar lausnir og nýsköpun.

Forsætisráðherrar Norðurlanda hafa samþykkt framtíðarsýn fyrir árið 2030 um að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Sameiginleg þátttaka Norðurlanda á heimssýningunni í Osaka 20225 er varða á þeirri vegferð og liður í að ná því markmiði. Norðurlönd munu nálgast þátttöku sína út frá þessari framtíðarsýn og kynna sameiginleg norræn gildi og starfshætti.

 

Hvers vegna taka Norðurlönd þátt í heimssýningunni 2025 í Osaka?

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir margs konar vandamálum sem brýnt er að fái skjóta lausn. Við þurfum betri lausnir í tengslum við hreyfanleika og tengingar auk nýrra lausna varðandi hringrásarhagkerfi. Jafnframt þurfum við að hækka rána þegar kemur að heilbrigði, lífsstíl og velferð fólks.

Með skipulögðu samstarfi á heimssýningunni 2025 munu norrænu löndin veita innsýn í það hvernig sjálfbær veröld gæti litið út.

Þáttaka Norðurlanda á heimssýningunni í Osaka 2025 mun felast í norrænum skála, sameiginlegum markaðsaðgerðum og norrænum viðburðum. Norræni skálinn á að vera vettvangur þar sem hægt verður að móta nýjar lausnir út frá félagslegum kenningum, hæfni og tækni frá Norðurlöndum í bland við hugmyndir og verkefni gesta.

Verkefnið er nú á því stigi að útboð vegna byggingar á skálanum getur farið fram. Norrænu löndin bjóða fyrirtækjum að taka þátt í forútboði á hönnun og byggingu norræna skálans á heimssýningunni í Osaka 2025. Kostnaðarrammi skálans er sex milljónir evra. Útboðið er birt á TED. Ráðgert er að önnur útboð (t.d. sýningin) fari fram síðar á þessu ári.

 

Prequalification - design and building of the Nordic pavilion 

The project is now at stage where tendering for the pavilion building can take place. The Nordic countries invite companies to participate in the prequalification for a call for tenders for the design and building of the Nordic pavilion at Expo 2025 Osaka. The budget of the pavilion is 6 million euros. Tender is published at TED. Other tenders (eg. exhibition) are planned to take place later this year.

Staðreyndir um heimssýninguna í Osaka 2025

Heimssýningin World Expo verður næst haldin í Osaka í Japan árið 2025. Japan hefur tvisvar sinnum áður haldið heimssýninguna, þ.e. árið 2005 (Aichi) og 1970 (Osaka). Aðalþema heimssýningarinnar 2025 í Osaka er „Designing Future Society for Our Lives“ og byggist hún á hugmyndafræðinni „People’s living lab“.

 

  • Dagskrá: 13. apríl – 13. október 2025
  • Staður: Yumeshima, Osaka, Kansai-hérað, Japan
  • Áætlaður fjöldi gesta: 28 milljónir manna