Norrænu löndin með sameiginlegan sýningarskála á heimssýningunni 2025 í Osaka í Japan

23.10.23 | Fréttir
Expo Japan, Hall
Photographer
The Nordic Pavilion, Rimond
Heimssýningin safnar saman fólki og nýjungum frá öllum heimshornum til að takast á við alheimsáskoranir sem krefjast alþjóðlegs samstarfs. Á heimssýningunni 2025 í Osaka verða norrænu löndin með sameiginlegan sýningarskála, til votts um áherslu okkar á traust, sjálfbærni og nýsköpun.

Sameiginlegur grunnur trausts og sjálfbærni

Í sýningarskálanum á heimssýningunni 2025 í Osaka taka Norðurlöndin höndum saman um að byggja á sameiginlegum grunni trausts og sjálfbærni til að kynna Norðurlönd fyrir umheiminum. Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti til þess að gefa löndum og landsvæðum færi á að kynna nýsköpun og nýja tækni. Árið 2025 verður sýningin haldin í Osaka í fyrsta sinn frá árinu 1970 undir yfirskriftinni „Designing Future Society for Our Lives“ með undirþemunum „Connecting Lives“, „Empowering Lives“ og „Saving Lives“.   Á heimssýningunni í Osaka gefst Norðurlöndunum og norrænum fyrirtækjum tækifæri til að tengjast japönskum markaði í sameiginlegu átaki um að ná nokkrum af 17 markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fyrri heimssýningar hafa getið af sér byltingarkenndar nýjungar eins og saumavélina og Eiffelturninum og sýningin í Osaka mun halda áfram þeirri hefð að kynna lausnir morgundagsins. 

 

Til vitnis um norræn tengsl við náttúruna

Í norræna skálanum sameina Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð krafta sína til að sýna sameiginleg gildi sín og framsýnar lausnir. Skálinn sjálfur verður vitnisburður um tengsl Norðurlanda við náttúruna, sem er menningarlegt gildi sem við deilum með Japan. Norðurlönd hafa lengi lagt áherslu á traust og sjálfbærni, enda nauðsynlegar stoðir til að byggja upp betri framtíð. Allur norræni skálinn er hannaður, framleiddur og uppsettur í þeim tilgangi að vera endurnýttur, og þannig verður hinn græni hugsunarháttur okkar á Norðurlöndunum í sviðsljósinu á heimssýningunni.

 

Sýningarskálinn verður meistaraverk þar sem ríkulegar menningarsögur Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar eru fléttaðar saman.

Mert Cek, yfirarkitekt í útibúi RIMOND í Japan.

Heimsbyggðin getur tileinkað sér norrænt traust, sjálfbærni og nýsköpun

Skálann hanna ítalski arkitektinn Michele De Lucchi og AMDL Circle og verður hann reistur af verktakafyrirtækinu RIMOND. Hann verður 1200 fermetra, 17 metra há timburbygging sem kallar fram hughrif sem minna á tímaleysi og sjálfbæra hugsun. Þar verður norrænt sýningarsvæði ásamt veitingastað á þakinu og norrænum garði, auk fundarrýma og viðskiptamiðstöðvar. Sameiginlegi skálinn á heimssýningunni 2025 í Osaka gefur heimsbyggðinni færi á að kynna sér norræna fyrirmynd um traust, sjálfbærni og nýsköpun.  „Það er RIMOND heiður að vera opinber samstarfsaðili Norðurlanda um hönnun og byggingu á sýningarskálanum í Osaka. Þessi tilnefning markar enn einn merkan áfanga í heimssýningavegferð Rimond og undirstrikar langvarandi og náið samstarf stofunnar við löndin sem taka þátt. Skálinn, sem er hannaður í samvinnu við AMDL Circle og landslagsráðgjafann Valerio Cozzi, stefnir í að verða meistaraverk sem fléttar saman ríkulegar menningarsögur Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar,“ segir Mert Cek, yfirarkitekt í útibúi RIMOND í Japan.

Forsætisráðherrar Norðurlanda hafa samþykkt framtíðarsýn fyrir árið 2030 um að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Norðurlönd munu nálgast þátttöku sína á heimssýningunni út frá þessari framtíðarsýn og kynna sameiginleg norræn gildi og starfshætti.