Norðurlandaráð skoðar breytingar á Helsingforssamningnum

27.06.23 | Fréttir
Nordiska rådets session 2017 i Helsingfors
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Á sumarfundi sínum í Þrándheimi samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að skipa starfshóp til að skoða breytingar á Helsingforssamningnum, sem er samstarfssamningur á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sem norrænt samstarf grundvallast á.

Síðustu breytingar á samningnum voru gerðar árið 1996 í tengslum við inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Evrópusambandið. Æ oftar heyrast þær raddir að tímabært sé að gera breytingar á samningnum, ekki síst í ljósi breyttrar stöðu í öryggismálum á Norðurlöndum.

Nokkur ný málefnasvið koma til greina

Verkefni starfshópsins er að kanna þörfina á breytingum á Helsingforssamningnum og jafnframt að tilgreina á hvaða sviðum breytinga kunni að vera þörf. Markmiðið er að tryggja að Helsingforssamningurinn myndi eins góða umgjörð og hægt er um öflugra norrænt samstarf nú og hér eftir. Starfshópurinn á að leggja mat á þörfina á því að samningurinn taki til nýrra málefnasviða, svo sem öryggis-, viðbúnaðar-, varnar- og utanríkismála. Jafnframt á starfshópurinn að leggja mat á þörfina á því að orðalag samningsins verði uppfært.

Samnorrænn starfshópur

Starfshópurinn á að halda forsætisnefnd upplýstri um vinnu sína og mun hann kynna drög að forsætisnefndartillögu sem inniheldur afstöðu Norðurlandaráðs til þess hvort breyta þurfi samningnum. Auk Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar verða þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum í starfshópnum. Einnig verður fulltrúi frá Norðurlandaráði æskunnar í hópnum.

Starfshópinn skipa eftirfarandi níu einstaklingar:

Noregur: Jorodd Asphjell (flokkahópi jafnaðarmanna) 
Danmörk: Annette Lind (flokkahópi jafnaðarmanna)  
Ísland: Hanna Katrín Friðriksson (flokkahópi miðjumanna) 
Svíþjóð: Lars Püss (flokkahópi hægrimanna)  
Finnland: Fulltrúi verður valinn síðar þegar ný landsdeild Finnlands hefur verið skipuð  
Grænland: Mariane Paviasen (Norrænum vinstri grænum) 
Færeyjar: Johan Dahl (flokkahópi miðjumanna)  
Álandseyjar: Mikael Lindholm (flokkahópi miðjumanna)  
Norðurlandaráð æskunnar: Rasmus Emborg 

Starfshópnum er einnig ætlað að fjalla um það hvaða utanaðkomandi sérfræðingar skuli koma að vinnunni.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins á milli hinna árlegu þinga og hefur heimildir til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd þess. Forsætisnefndin leiðir og samræmir vinnuna á milli stofnana ráðsins, ber almenna pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð, vinnur framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun ásamt því að bera almenna ábyrgð á málum sem varða utanríkis- og öryggismál.