Norðurlandaráð stendur fyrir ESB-vefmálstofum um orkumál, stafvæðingu og sýklalyfjaónæmi

04.02.21 | Fréttir
Nordiska rådets webinarier 2021

Nordiska rådets webinarier 2021

Photographer
Gabrielle CEZARD/SIPA/Ritzau Scanpix
Dagana 2.–3. mars stendur Norðurlandaráð fyrir þremur vefmálstofum um orkumál, stafvæðingu og sýklalyfjaónæmi. Vefmálstofurnar eru hugsaðar sem vettvangur fyrir þingmenn Norðurlandaráðs til að ræða áskoranir og lausnir framtíðarinnar á þessum þremur málefnasviðum við fulltrúa Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Skráningarfrestur er 26. febrúar.

Vefmálstofa um orkumál

Vefmálstofan um orkumál fer fram 2. mars kl. 10–12 (CET) og hefur yfirskriftina Towards a fossil-free future – are the Nordic solutions right way to go? Meðal annars á að ræða æskileg næstu skref í umskiptunum til framleiðslu á orku án jarðefnaeldsneytis svo og raforkumarkað þvert á landamæri, en á því sviði eru Norðurlönd oft talin til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi.

Vefmálstofa um stafvæðingu

Hinar tvær vefmálstofurnar fara fram miðvikudaginn 3. mars. Fyrst er vefmálstofa um stafvæðingu á dagskrá kl. 10–12 (CET) undir yfirskriftinni The Nordics go digital – How does it fit with Europe‘s move to a Digital Age? Bæði Norðurlönd og ESB leggja mikla áherslu á stafvæðingu og þátttakendum í vefmálstofunni gefst færi á að ræða sameiginlegar áskoranir og lausnir. Ætlunin er að horfa til framtíðar og reyna meðal annars að finna sóknarfæri til að hraða stafrænni þróun enn frekar, bæði á norrænum og evrópskum vettvangi.

Vefmálstofa um sýklalyfjaónæmi

Vefmálstofuröðinni lýkur síðdegis á miðvikudeginum með málstofu um sýklalyfjaónæmi kl. 14–16 (CET). Undir yfirskriftinni Antibiotic resistance - a silent threat in a noisy pandemic era munu þátttakendur í málstofunni ræða þá ógn sem stafar af bakteríum með aukið þol gegn sýklalyfjum í ljósi heimsfaraldurs COVID-19. Einnig hér er ætlunin að líta til framtíðar og mun þátttakendum gefast færi á að kynna sér þær áskoranir og lausnir sem búist er við að framtíðin beri í skauti sér.

Á öllum vefmálstofunum verða þátttakendur frá Norðurlandaráði, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, auk ýmissa sérfræðinga og fulltrúa einkageirans.

Vefmálstofurnar fara fram á ensku og verða sýndar í beinu streymi á Facebook-síðu Norðurlandaráðs, svo og á norden.org.