Norrænt samstarf á sviði endurnýjanlegrar orku í brennidepli á COP28
Busch sló botninn í viðburð um orkumál í norræna skálanum á COP25 þann 5. desember þar sem útgangspunkturinn var hin árlega skýrsla Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA): World energy outlook. Eitt af helstu áhersluatriðum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar í ár er að enn sé hægt að takmarka hlýnun á heimsvísu við 1,5 gráður, en að það liggi á. Svíþjóð og hin norrænu löndin hafa öll sett sér háleit markmið, þar á meðal um að auka hlut endurnýjanlegrar orku. Svíþjóð ætlar sér að ná nettó núlllosun strax árið 2045. Umskiptin munu kalla á mikla rafvæðingu í iðnaði og samgöngum og talið er að orkunotkun muni tvöfaldast. Busch lagði áherslu á þörfina á því að fjárfesta af krafti í öflugu orkukerfi sem getur skilað orkunni þegar og þangað sem hennar er þörf. Þá veðjar Svíþjóð meðal annars á kjarnorku sem hægt er að nota í bland við endurnýjanlegri orkugjafa á borð við vind- og sólarorku.
Hraðari orkuaukning þarf að ná til allra
Rafvæðing er oft sögð vera drifkraftur grænna umskipta. Til þess að iðnaður og samgöngur verði losunarlausar og tryggja megi örugga orku sem veldur sem minnstum náttúruspjöllum þarf þó fleira að koma til. Mikil samstaða ríkir um að til þess að okkur takist að lágmarka losun fyrir 2050 þurfi að auka hlut endurnýjanlegrar orku og að þróunun þurfi að vera mun hraðari. Norrænu löndin eru með metnaðarfullar fyrirætlanir um að auka orkuframleiðslu en mæta mótstöðu þegar fólki finnst það vera út undan.
„Það verður lykilverkefni í öllum norrænu löndunum á næstu árum að tryggja stuðning almennings við aukna orkuframleiðslu,“ segir Kevin Johnsen, yfirmaður daglegs reksturs hjá Norrænum orkurannsóknum (NEF).
Vetnissamstarf hafið
Vetni getur einnig orðið þýðingarmikill þáttur í lausninni. Að mati DNV þarf átta sinnum meira vetni á heimsvísu til þess að ná því að lágmarka losun fyrir 2050. Eigi það að gerast þarf að koma upp innviðum og þar getur Noregur leikið stórt hlutverk. Að sögn Sigrid Lædre, sérfræðings hjá Sintef, eru Norðurlönd í góðri stöðu til að nýta þá möguleika sem felast í vetni: „Með nánu samstarfi sín á milli gætu norrænu löndin tekið sér forystuhlutverk í Evrópu þegar kemur að vetni,“ skrifar Lædre í SINTEF. Vetni er mikilvægur orkugjafi fyrir græn umskipti og getur stuðlað að því að við náum að innleiða losunarfríar lausnir í geirum þar sem umskiptin eru flókin, til dæmis í stál- og efnaiðnaði. Norrænu orkumálaráðherrarnir hafa í sameiningu bent á vetni sem nokkuð sem leggja ætti áherslu á í norrænu samstarfi. Þegar Norrænar orkurannsóknir auglýstu styrki til að greiða fyrir innviðum í tengslum við vetni á Norðurlöndum var áhuginn mikill.
„Nordic Hydrogen Valleys as Energy Hubs er rannsóknaráætlun þar sem öll virðiskeðja vetnis er skoðuð, frá framleiðslu til notkunar. Sem stendur eru fimm verkefni fjármögnuð í gegnum áætlunina sem saman mynda grunninn að vetnismiðstöðvum á Norðurlöndum. Markmið okkar er að áætlunin skili þekkingu sem verður til þess að Norðurlöndum takist að nota vetni sem losunarfrían orkugjafa,“ segir Kevin Johnsen.