Norðurlöndin ættu að taka forystu í stafrænni þróun Evrópu og geta gert það

04.03.21 | Fréttir
Mann og robott
Ljósmyndari
Maud Lervik / Norden.org
Norrænir og evrópskir þingmenn eru sammála um að hin stafrænt þróuðu Norðurlönd geti gegnt stærra og mikilvægara hlutverki við mótun stafrænnar framtíðar Evrópu. Hægt er að móta þessa þróun og nauðsynlegt er að gera það. Það er engin ástæða til þess að þjóðlöndin sitji aðgerðalaus hjá þegar tæknirisarnir beita valdi sínu.

Norðurlönd í broddi fylkingar

Nú þegar er litið á Norðurlöndin sem brautryðjendur og landa sem liggur beint við fyrir ESB að leita samstarfs við á sviði stafrænnar væðingar. Finnland, Svíþjóð og Danmörk skipa efstu sætin í vísitölu ESB um stafrænt hagkerfi og samfélagsþróun (DESI-Index) og Eistland fylgir þeim fast á eftir. 

Finnski ráðherra stafrænnar væðingar, Sirpa Paatero, bendir á samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um rafræn skilríki (NOBID-verkefnið) sem fyrirmynd. Sirpa Paatero ber einnig ábyrgð á stafrænni væðingu í Norrænu ráðherranefndinni þar sem Finnland fer nú með formennsku. Hún leggur áherslu á að samvirkni milli þeirra lausna sem rafræn skilríki landanna byggja á sé grundvallaratriði í þróun á sameiginlegum vettvangi fyrir stafræna þjónustu þvert á landamæri.

Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um stafræna væðingu stuðlar að því að markmiðum ESB verði náð. Á sumum sviðum leitumst við einnig við að innleiða ESB-gerðir hraðar en hægt er innan alls sambandsins

Sirpa Paatero, ráðherra Finnlands með ábyrgð á stafrænni væðingu

„Við erum hjartanlega sammála því að Evrópa þarf stafræn skilríki - skilríki sem ekki eru stýrð af tæknirisum heldur af notendum. Notendur verða að hafa stjórn á eigin skilríkjum og því hvaða persónuupplýsingum þeir vilja deila. Um leið skiptir máli að lausnir vegna rafrænna skilríkja landanna verði áfram öruggar og byggðar á trausti. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um stafræna væðingu stuðlar að því að markmiðum ESB verði náð. Á sumum sviðum leitumst við einnig við að innleiða ESB-gerðir hraðar en hægt er að gera innan alls sambandsins,“ segir Sirpa Paatero.

Opinberi geirinn skiptir líka máli í stafrænni framtíð. Einnig á þessu sviði standa Norðurlöndin framar en mörg ESB-lönd. Miapetra Kumpula-Natri, Evrópuþingmaður og varaformaður nefndar um gervigreind á stafrænni öld telur að stafræn væðing opinbera geirans sé nauðsynleg til þess að standa vörð um velferðarríkið.

„Við þurfum að fá opinbera geirann til þátttöku í stafrænni þróun. Það gleymist oft í umræðunni á vettvangi Evrópu. Þar er áherslan á einkageirann, ný fyrirtæki, nýsköpun og hagvöxt. Hér á Norðurlöndum skiljum við betur að opinberi geirinn getur ekki setið eftir á tíunda áratugnum meðan einkageirinn þróast áfram. Það væri ekki gott fyrir opinberu þjónustuna okkar, segir Miapetra Kumpula-Natri.

Hægt er að móta framtíðina

Stjórn tæknirisanna á stafrænum vettvangi tekur á sig margar myndir. Vald þeirra er talið ógn við innri markað ESB og öryggi neytenda. Þetta getur snúist um hættulegar eða falsaðar vörur sem eru seldar og keyptar á netinu. Yfirburðir stórra netmarkaða ýta einnig nýjum og minni aðilum út af markaðinum. Það er skaðlegt fyrir borgara og neytendur. Það er ekki heldur gagnlegt fyrir nýsköpun eða atvinnurekendur. Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Margrethe Vestager, hefur fengið það verkefni að vinna að þessum málaflokki. Einn mikilvægast ráðgjafi hennar er Werner Stengg, sérfræðingur í stafrænni væðingu. Hann telur að tímabilinu þar sem tæknirisar fara fram hjá þjóðlöndum sé að ljúka. ESB hefur nú gert sér stefnumótun þar að lútandi.

Við eigum ekki alltaf að vera að aðlaga okkur. Við teljum að Evrópa hafi styrk og pólitískan vilja til að móta stafræna þróun þannig að hún gagnist borgurum og atvinnulífi

Werner Stengg, sérfæðingur framkvæmdastjórnar ESB í stafrænni væðingu

„Við nefnum stefnumótun ESB „Shaping Europes digital future“ og þarna skipta hugtökin máli. Við erum þess fullvis að við munum geta mótað framtíðina. Við eigum ekki alltaf að vera að aðlaga okkur. Við teljum að Evrópa hafi styrk og pólitískan vilja til að móta stafræna þróun þannig að hún gagnist borgurum og atvinnulífi,“ segir Werner Stengg.

Stafræn væðing býr til bil

Bæði á Norðurlöndum og í Evrópu hafa skapast áhyggjur af aðstæðum ungs fólks sem stundar nám gegnum fjarkennsla og er einangrað. Þá hefur lokun samfélagsins afhjúpað bilið milli kynslóða þegar kemur að stafrænni þekkingu. Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs er ekki undrandi.

„Nei, ég er ekki hissa. Ungt fólk með stafræna þekkingu og styrkleika að öðru leyti hefur lært mjög mikið. Þau sem ekki hafa þessa þekkingu hafa líklega ekki lært mikið og þau eiga eftir að vinna mikið upp. Þarna er líka breitt bil milli kynslóða og það er mikill vandi fyrir velferðarsamfélagið. Sömuleiðis sjáum við bil milli nemenda og kennara sem skortir þekkingu. Þetta verður ekki leyst nema með menntun, menntun og menntun, segir Bertel Haarder.

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt aðgerðaáætlun fyrir stafræna menntun sem á að vera samþætt og aðgengileg öllum. Sabine Verheyen, formaður menningar og menntamálanefndar Evrópuþingsins telur að einnig á þessu sviði gegni Norðurlöndin stóru hlutverki sem fyrirmynd.

„Norðurlöndin voru á margan hátt betur undirbúin undir lokun samfélagsins af því að þið voruð búin að þróa stefnumótun fyrir stafræna kennslu fyrr en annars staðar í heiminum,“ segir Sabine Verheyen.

Hins vegar telur Marianne Synnes Emblemsvåg formaður þekkingar- og menningarmálanefndar Norðurlandaráðs að við getum gert betur, einnig á Norðurlöndum. Hún telur að Norðurlöndin þurfi sína eigin aðgerðaáætlun til þess að innleiða þá vinnu sem þegar er hafin innan ESB.

Norðurlöndin voru á margan hátt betur undirbúin undir lokun samfélagsins af því að þið voruð búin að þróa stefnumótun fyrir stafræna kennslu fyrr en annars staðar í heiminum

Sabine Verheyen, formaður menningar og menntamálanefndar Evrópuþingsins

Framhaldið

Verkefni framkvæmdastjórnar ESB er til fjögurra ára „A Europe Fit for the Digital Age“. Um leið vinnur Evrópuþingið að fleiri lagafrumvörpum til þess að auka netöryggi og stjórn á stafrænni þróun.

Norræna ráðherranefndin er nýbúin að samþykkja framlengingu á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar um stafræna væðingu til 2024. Frá upphafi hefur verið horft til ýmissa aðgerða ESB á sviði stafrænnar væðingar í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og starfið aðlagað að þessum aðgerðum. Þegar er komin niðurstaða varðandi tæknilegar lausnir á verkefni Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um rafræn skilríki og nú veltur það á yfirvöldum einstakra landa á tengjast þessari lausn.

Margrete Vestager varaforseti framkvæmdastjórnar ESB mun síðar í þessum mánuði funda með ráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem bera ábyrgð á stafrænni væðingu og ræða hvernig hægt er að styrkja samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og hvert hlutverk svæðisins geti orðið í starfi ESB að grænni stafrænni framtíð. Norðurlandaráð vill stöðugt vera þátttakandi í stafrænni umræðu.

Vefþingið á netinu

Hér má vefþingið í heild: 

 

Norðurlandaráð gekkst fyrir vefþingi þar sem fjallað var um hvernig Norðurlöndin og Evrópa mæta stafrænni framtíð og þróunin. Meira en 30 norrænir og evrópskir þingmenn og sérfræðingar ræddu tækifæri og hættur á stafræna sviðinu.

Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Løkkegaard situr einnig í nefnd um innri markað og neytendavernd. Hann telur að við höfum þegar séð hrikaleg dæmi um hversu illa geti farið og hvaða hættu lýðræðinu stafi af stjórnlausri stafrænni væðingu. Hann vísar til áhlaupsins á bandaríska þingið.

Sumir tæknirisar telja sig meira að segja hafna yfir þjóðlöndin

Morten Løkkegaard, Evrópuþingmaður frá Danmörku

„Þetta er skýrt dæmi um hvernig stafrænn vettvangur getur skapað annan veruleika sem getur leitt af sér ofbeldi. Skilin milli stafræna heimsins og raunheimsins verða óskýr. Hatursorðræða, upplýsingaóreiða og tilraun til þess að hafa áhrif á kosningar eru allt alvarlegar ógnir við lýðræðið. Sumir tæknirisar telja sig meira að segja hafna yfir þjóðlöndin,“ segir Morten Løkkegaard.

Annað skýrt dæmi er valdabarátta Ástralíu og Facebook. Deilan hófst þegar Facebook lokaði fyrir deilingu ástralskra notenda á fréttum. Lokunin var viðbrögð við frumvarp áströlsku ríkisstjórnarinnar til nýrra laga sem gerði Facebook skylt að greiða fyrir höfundarréttarvarið efni sem birt er gegnum miðilinn.

Pyry Niemi formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar hefur eins og ESB áhyggjur af valdi og áhrifum alþjóðlegra tæknifyrirtækja á þróunina.

„Stafræn þróun hefur bæði jákvæð og neikvæð áhrif á samfélagið. Hún mun hafa áhrif á vinnumarkaðinn, velferðarlíkanið og okkur sem neytendur. Ef okkur tekst að þróa réttu stefnumótunarverkfærin mun stafræn þróun gagnast fleira fólki. Ef okkur mistekst mun bilið í samfélaginu aukast og hópar sem standa höllum fæti verða útundan. Það er ekki heldur nóg að þróa þetta í hverju landi fyrir sig. Við verðum að gera þetta á Evrópuvettvangi,“ segir Pyry Niemi.