Nýtt norrænt samstarfsnet til þess að berjast gegn brotum og svikum á vinnumarkaði

01.12.23 | Fréttir
Byggarbetare på en bro
Photographer
Søren Bidstrup/Ritzau Scanpix
Mansal, skattsvik og svört atvinnustarfsemi eru dæmi um glæpastarfsemi sem teygir sig yfir landamæri og kemur bæði niður á einstaklingum og samfélaginu. Í gær samþykktu norrænir ráðherrar vinnumála að setja á fót formlegt norrænt-baltneskt samstarfsnet með það fyrir augum að berjast gegn brotastarfsemi í atvinnulífinu.

Svört atvinnustarfsemi og reglubrot koma ekki aðeins niður á einstaklingum heldur eru þau alvarlegt samfélagslegt vandamál sem skekkir samkeppnisstöðu og dregur úr öryggi á vinnumarkaði. Þetta er álit norrænna ráðherra vinnumála. 

Norrænu löndin hafa í mörg ár unnið saman gegn atvinnutengdri brotastarfsemi, meðal annars með sameiginlegum úttektum á vinnustöðum og gagnkvæmri upplýsingagjöf. Til þessa hefur samstarfið farið fram í gegnum styttri verkefni sem fjármögnuð eru af ESB og stundum með þátttöku Eystrasaltsríkja.

Grunnfjármögnun frá Norrrænu ráðherranefndinni

Þegar norrænu vinnumálaráðherrarnir hittust í Reykjavík ákváðu þeir að setja á fót formlegt norrænt-baltneskt samstarfsnet með fjármögnun frá Norrænu ráðherranefndinni.

„Með því að stofna samstarfsnet gegn atvinnutengdri brotastarfsemi með grunnfjármögnun frá ráðherranefndinni verður til grunnur sem hægt er að vinna út frá til lengri tíma þvert á landamæri í tengslum við alvarlegt samfélagslegt vandamál. Vonandi skapast betri skilyrði fyrir samvinnu, sameiginlegum aðgerðum, aðgengi að upplýsingum og þjónustu ásamt aukinni þekkingu og getu,“ segir Johan Pehrson, vinnumarkaðs- og aðlögunarráðherra Svíþjóðar. 

Úttektir þvert á landamæri

Samstarfsnetið á að samanstanda af embættismönnum frá vinnumálayfirvöldum og eftirlitsstofnunum landanna. Skipuleggja á úttektir þvert á landamæri og greiða fyrir miðlun þekkingar og upplýsinga á milli norrænu landanna og Eystrasaltslandanna.